Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 17:10:47 (8759)

2004-05-21 17:10:47# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[17:10]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn vitnaði í ræðu Ásgeirs Friðgeirssonar, þingmanns Samf., sem hann flutti á miðvikudagskvöld þar sem hann lýsti því, eftir að hafa farið yfir fyrirtæki á Íslandi úr Frjálsri verslun eins og þingmaðurinn benti á, að af 90 stærstu væru 60 þeirra markaðsráðandi eða álitamál að þau væru það.

Hann sagði fleira, hann sagði að 95 stærstu fyrirtækin í landinu veltu meiru en tveimur milljörðum. Ekkert þeirra má því eiga eignarhlut yfir 5% í fjölmiðlafyrirtæki og þau fyrirtæki sem mættu eiga 35% í fjölmiðlafyrirtæki eru eiginlega allt og eingöngu sjávarútvegsfyrirtæki. Það er auðvitað alveg ný sýn í þessu máli. Þetta segir mér að ríkisstjórnin og stjórnarliðarnir hafi aldrei nokkurn tíma skoðað hvaða afleiðingar þetta frv. hefði.

Ef ástæðan væri sú að það ætti að koma í veg fyrir enn frekari samruna --- það er jú verið að berja þetta mál í gegn í vor en ekki verið að taka það t.d. í haust --- hljóta menn að telja að eitthvað sé í farvatninu sem gerir það að verkum að það verði að setja lög í vor, það megi ekki bíða haustsins. Ég sé fyrir mér að það eina sem gæti verið þarna í farvatninu væri það að Ríkisútvarpið, Rás 2 eða Skjár 1 væri til sölu, eða Mogginn. Við vitum að Ríkisútvarpið verður ekki selt. Það þyrftu að koma lög frá Alþingi. Sér þingmaðurinn einhver teikn um hvað gæti skapað enn frekari samruna á þessum markaði sem gæti skýrt að verið sé að berja þessi lög í gegn með þessu ofboðslega offorsi? Hefur hann gert sér grein fyrir hve fáir geta raunverulega keypt svona fyrirtæki?