Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 17:12:50 (8760)

2004-05-21 17:12:50# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[17:12]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni dró ég það reyndar fram að eftir að hafa skoðað þetta mál af bestu getu og leitað eftir upplýsingum eins og hægt er held ég að enginn geri sér almennilega grein fyrir því hvert þetta mál kann að leiða. Svo virðist sem vinna og undirbúningur þessa máls hafi verið í algeru lágmarki. Ég held að ríkisstjórnin geri sér enga grein fyrir því til hvers þetta kann að leiða.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég tel ekki, miðað við þau vinnubrögð sem birtast í þessu frv., að ríkisstjórnin eða neinn á vegum hennar hafi farið jafnvandlega yfir þetta og hv. þm. Ásgeir Friðgeirsson gerði, og gerði sér grein fyrir því að af 100 stærstu fyrirtækjunum væru það aðeins sjávarútvegsfyrirtækin sem hugsanlega kynnu að mega fjárfesta í fjölmiðlafyrirtækjunum.

Ég verð að segja eins og er að ég held að það væri ágætt ef sjávarútvegsfyrirtæki kæmu að slíku. Ég held samt að í þessu kristallist vandinn dálítið. Þarna er fyrst og fremst verið að bregðast við erfiðum starfsskilyrðum Sjálfstfl. í íslensku samfélagi eftir miklar breytingar á fjölmiðlamarkaði að þeirra eigin mati. Ekki hafa verið dregin fram nein viðunandi dæmi sem sýna þetta þannig að svar mitt við þessari spurningu er að ég held að ríkisstjórnin hafi ekki minnstu hugmynd um hvað hún er að fara.