Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 17:17:54 (8763)

2004-05-21 17:17:54# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[17:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Það er trúlega farið að síga nokkuð á seinni hluta þessarar umræðu sem staðið hefur með litlum hléum í marga daga. Ég verð að segja að fyrir mitt leyti tel ég þetta hafa verið að uppistöðu til efnislega umræðu sem allir geti verið stoltir af. Reifuð hafa verið mjög vítt og breitt í almennu samhengi öll helstu grundvallaratriði þeirra mála sem hér eru undir. Ég veit auðvitað ekki hve margir hafa lagt það á sig að fylgjast með eða hlusta á umræðuna alla en ég hygg að þeim væri a.m.k. ekkert að vanbúnaði sem það hafa gert að átta sig á því hvernig sjónarmið manna liggja og væru margs vísari almennt um vangaveltur og skoðanaskipti um hvort og þá hvernig eigi að nálgast viðfangsefni af því tagi sem hér hefur verið til umræðu, þ.e. aðgerðir til að tryggja fjölbreytta, óháða og öfluga fjölmiðlun. En þar hafa skilið mjög leiðir með mönnum.

Satt best að segja verður maður að taka þetta stjfrv. að svo miklu leyti sem maður tekur það alvarlega sem slíkt vegna hins sérkennilega aðdraganda og hinnar óvenjulegu fæðingar þess, en maður hlýtur að taka það sem einhvers konar niðurstöðu eða stefnu þeirra sem ætla að standa að því að það sé aðferð þeirra til að ná þessum markmiðum. Ef menn meina það sem þeir segja hljóta menn að telja sig geta fært rök fyrir því að svona og einmitt svona en ekki einhvern veginn öðruvísi eigi menn að ná þeim markmiðum fram.

Ég sakna alveg geysilega rökstuðningsins af hálfu aðstandenda frv. fyrir því, grundvallarrökstuðningsins fyrir því að þetta, nákvæmlega þetta og ekki eitthvað annað sé aðferðin til að ná markmiðunum fram. Hvar hafa þær ræður verið fluttar? Stjórnarsinnar og hinir örfáu bandamenn þeirra setja sig á háan hest og eru að gefa málflutningi okkar stjórnarandstæðinga einkunn. En hvað má þá segja um málsvörn og rökstuðning aðstandenda málsins? Hann hefur verið ákaflega fátæklegur. Menn vísa þar í að menn hljóti almennt að vera á móti óæskilegri samþjöppun og eru allt í einu komnir í mikinn ham, ólíklegustu menn sem ekki hafa haft af því miklar áhyggjur á undanförnum missirum og árum þegar þeir hafa verið að hamast við að markaðsvæða og einkavæða í samfélaginu, eins og þar með sé sjálfgefið að allir séu sammála frv. og allir styðji það. Þetta er auðvitað algerlega óboðleg röksemdafærsla.

Gætt hefur alveg gríðarlegrar tilhneigingar til að alhæfa í umræðunni af hálfu stjórnarliða, þeirra fáu sem hafa talað og bandamanna þeirra, mér liggur við að segja bandamanns því hann er aðallega einn, leiðarahöfundur Morgunblaðsins. Ríkisstjórnin og formenn stjórnaflokkanna eru afskaplega vinafáir í þessu máli. Það er eiginlega ekki nema leiðarahöfundur Morgunblaðsins sem styður þá, hver sem það er, því eins og alkunna er setja menn ekki stafi sína undir þau skrif. En gætt hefur mikillar tilhneigingar til þess að alhæfa á þeim forsendum að ef menn eru þeirrar skoðunar að samþjöppun í fjölmiðlun geti verið varhugaverð þá hljóti þeir að vera sammála ríkisstjórninni, þá hljóti þeir að styðja frv. og skrifa upp á allt heila klabbið.

Og enn er hamrað á þessu sama, klappaður sami steinninn. Síðast í leiðara Morgunblaðsins í morgun er óvenjulöngum bút spanderað núna undir okkur í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði og Frjálsl. Ástæðan er sú að við áttum aðild að eða beittum okkur fyrir flutningi þáltill. í vetur um að öll þessi mál yrðu skoðuð. Í tillögunni er velt upp grundvallarspurningum sem menn hljóta að þurfa að svara hvort þetta og þetta sé vænlegt til árangurs ef við viljum ná slíkum markmiðum fram. Þar með er látið að því liggja að það sé skrýtið að við skulum þá ekki vilja styðja frv. Að vísu þegar leiðarinn er betur lesinn er ekki hægt að segja að hann sé ósanngjarn í sjálfu sér því niðurstaðan er sú að Morgunblaðið telur erfitt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að formenn flokkanna, þ.e. sá sem hér talar og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, en við vorum báðir meðal flutningsmanna tillögunnar, séu sammála þeim markmiðum sem fjölmiðlafrv. ríkisstjórnarinnar er ætlað að ná. Við getum vel verið það. En spurningin snýst um hvort þetta séu vænlegar leiðir til þess og hvort réttlætanlegt sé að fara í þetta svona.

Menn verða auðvitað að hafa sannfæringu fyrir fleiru í máli af þessu tagi en að markmiðssetningin sé rétt. Menn verða líka að vera vissir um að aðferðirnar, leiðirnar að markinu séu skynsamlegar og færar og að réttlætanlegt sé að standa að málum með þeim hætti sem ætlunin er. Þar skilja algerlega leiðir með okkur mörgum hverjum sem í sjálfu sér eigum ekki í neinum vandræðum með að skrifa upp á þau markmið sem allir geta gert til að tryggja fjölbreytta, öfluga og óháða fjölmiðlun. Ég hef ekki heyrt nokkurn einasta mann lýsa sig andvígan því. Út af fyrir sig verka þessi skrif svolítið brosleg í því ljósi að það þurfi alveg sérstaka leiðara til að draga það fram í dagsljósið að menn geti verið sammála markmiðum frv. Vandamálið hefur aldrei verið það. Deilurnar hafa aldrei snúist um markmiðin. Það er alveg yfirgengilegt að menn skuli vera að velta slíkri hugsun yfirleitt upp. Nei, þetta snýst um leiðirnar að markmiðunum. Í þeim efnum segi ég bara það sem ég hef áður sagt og get endurtekið. Tilgangurinn helgar ekki meðalið, það er ekki þannig. Þó menn telji sig hafa sett sér göfug markmið, þá leyfir það mönnum ekki hvað sem er. Það er nauðhyggja í röksemdafærslu af versta tagi að nálgast hlutina með þeim efnum. Ömurleg eru dæmin og nógu mörg í kringum okkur í heiminum þar sem nákvæmlega þessi sama nauðhyggja er á ferðinni. Eða hver er yfirleitt röksemdafærsla Bandaríkjamanna þegar þeir eru að valta yfir allt og alla og ætlast til að allir lúti forustu þeirra í einu og öllu og allt of margir gera það því miður? Það eru þessi alhæfingarök sem frægust urðu í ummælum Bush Bandaríkjaforseta: Ef þið eruð ekki með mér, þá eruð þið á móti mér. Sem skilur ekki eftir neinar millileiðir, enga aðra möguleika og á að þvinga menn til að skrifa upp á í einu og öllu vilja þess sem í hlut á, ekki bara markmið hans heldur aðferðafræði, leiðir og forustu. Við frábiðjum okkur slíkt og höfum allan tímann gert. Það liggur alveg fyrir og er á hreinu og hefur rækilega komið fram í ræðum okkar á undanförnum dögum, nú síðast í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar á undan mér, að fullkomið samræmi er í áherslum okkar og málflutningi í gegnum þetta mál frá byrjun. Við vorum og erum sömu skoðunar og við höfum verið að það sé fullgilt og ástæða til að fara rækilega yfir þetta svið, ástæða sé til að hafa áhyggjur af samþjöppun í fjölmiðlun ef hún er látin alveg afskiptalaus og engar skorður settar við því, þ.e. ef slík þróun er í gangi sem menn telja ástæðu til að hafa áhyggjur af en þetta sé auðvitað viðfangsefni af því tagi sem menn verða að nálgast í samræmi við mikilvægi þess og alvöru, og að öll vinnubrögð þurfi að standast skoðun og menn verði að vanda sig.

Það er auðvitað það sem eftir stendur og er hið dapurlega, frú forseti, að vinnubrögðin í þessu máli eru orðin fræg að endemum. Ég hefði jafnvel aðrar áherslur en félagi Ögmundur Jónasson hv. þm. sem hér talaði á undan mér þegar hann leyfði sér að álykta af mikilli varfærni að yfirgnæfandi andstaða almennings eins og hún birtist í skoðanakönnun gegn þessu frv. sé a.m.k. að einhverju leyti líka við vinnubrögðin, sagði hv. þm. Ögmundur Jónasson. Ég gæti þess vegna alveg snúið þessu við. Ég held að þess vegna megi alveg gera því skóna að að uppistöðu til sé almenningur jafnreiður í þessu máli og harður á móti frv. vegna þess að menn þola ekki þau vinnubrögð sem birtast í framvindu málsins, hvernig menn umgangast vald sitt og hvernig önnur viðhorf eru fullkomlega forsmáð, hvernig þröngva á hlutunum í gegn í krafti meiri hlutans sem menn virðast stundum telja að gefi þeim rétt til að gera hvað sem er. Það er satt best að segja hrollur í manni þegar maður hefur orðið vitni að ummælum af því tagi sem gerst hafa í þessu máli og ýmsum fleirum reyndar. Hvert var hæstv. utanrrh. að fara með ummælum sínum í sambandi við Íraksstríðið? Þegar menn höfðu leyft sér að minna hæstv. ráðherra á að samkvæmt nokkurn veginn jafnáreiðanlegum og yfirgnæfandi vísbendingum um þjóðarviljann eins og skoðanakannanir hafa birt í sambandi við andstöðu almennings við ákvörðun utanrrh. og forsrh. að styðja Íraksstríðið, þá sagði hæstv. utanrrh. bara sem svo að þeir hefðu fengið umboð kjósenda í kosningum og hefðu það til fjögurra ára. Það var erfitt að álykta þá öðruvísi en svo að hæstv. utanrrh. fyndist að þeir gætu gert það sem þeim sýnist nema bara á fjögurra ára fresti þegar þeir þyrftu að leita til þjóðarinnar. Það skipti engu máli þó menn standi frammi fyrir því í hverju málinu á fætur öðru að þeir séu í algerri andstöðu við yfirgnæfandi þjóðarvilja og það sé ekki neitt sem menn þurfa að taka tillit til.

Jafnvel þó að fylkingarnar séu jafnar og menn hefðu í höndum áreiðanlegar mælingar sem sýndu kannski að þjóðin væri skipt í nokkurn veginn jafnar fylkingar, það eru ekkert síður skilaboð um það til ráðamanna að þeir eigi að gá að sér, þeir séu með gerðum sínum að rífa þjóðina algerlega í sundur. Ég held að almenningur í landinu sé að verða búinn að fá nóg af því að þetta hefur verið tilfellið aftur og aftur á undanförnum árum í stórmálum, í afdrifaríkum málum, í miklum framtíðarmálum, í málum þar sem verið er að taka óafturkræfar ákvarðanir, t.d. í virkjanamálum, þá virðast ráðamenn ekki láta það sig neinu varða þó að ákvarðanir þeirra eða stefna sé gríðarlega umdeild, rífi þjóðina í tvennt og breytir ekki öllu hvort fylkingarnar eru hnífjafnar eða 40 öðrum megin og 60 hinum megin. En auðvitað er málið þeim mun alvarlegra og verra sem andstaðan er meiri og yfirgnæfandi eins og við erum að tala um hér. Ég held að almenningur vilji ekki svona stjórnarfar. Ég held að mönnum þyki það aldrei gott að menn séu að knýja hlutina í gegn í krafti tímabundinnar valdaaðstöðu án þess að hlusta á einn eða neinn, án þess að leyfa hina lýðræðislegu umræðu, án þess að leita sátta, án þess að gefa því tíma og athygli og leggja sig í það að finna færar leiðir ef kostur er.

[17:30]

Tvennt kann að valda því að menn þróist inn á þetta spor. Annars vegar geta menn verið svona í eðli sínu, valdboðsmenn að upplagi sem hika ekkert við að beita valdi sínu og fá jafnvel eitthvað út úr því að sýna það. Hins vegar hafa menn getað þróast í þá átt, kannski af því að þeir hafa haft of mikil völd of lengi og fara að verða skeytingarlausir um viðhorf þjóðfélagsins til þess sem þeir gera.

Lýðræði snýst ekki síst um það að hlusta á mismunandi sjónarmið. Það nærist á að leyfa umræðu, leyfa skoðanaskipti og hlusta á mismunandi sjónarmið, hlusta á minni hlutann ekkert síður en meiri hlutann. Í einfaldleik sínum má kannski segja að lýðræðisleg framganga stjórnvalda snúist sérstaklega um að hlusta eftir öðrum sjónarmiðum en þeim sem menn sjálfir eru sannfærðir um eða hafa í kringum sig. Við vitum að stjórnarfar sem lokast með einhverjum hætti inni í herbúðum jámanna og nánustu samstarfsaðila sem fær aldrei næringu utan úr þjóðarlíkamanum endar á skelfilegum villigötum. Um það eru til fjölmörg dæmi í stjórnmálasögunni.

Ég tel mig skynja andrúmsloftið úti á meðal almennings þessa dagana. Þannig les ég í fjölmennan fund sem spratt upp úr grasrótinni og var á Austurvelli á miðvikudaginn í hádeginu. Þar komu að um þúsund manns, miðað við mína talningu, komu og sýndu stjórnvöldum rauða spjaldið. Menn voru ekki bara að mótmæla efni þessa máls, sem vissulega er hörð andstaða við. Menn vildu í leiðinni mótmæla því hvernig stjórnvöld hafa endurtekið farið með vald sitt, keyrt hlutina áfram og umræðuna í kaf. Ráðamenn hafa rifið þjóðina í sundur í umdeildum átakamálum eins og þeir þurfi ekki að hlusta á eða standa mönnum reikningsskap verka sinna.

Menn vísa til þess, eins og hæstv. utanrrh., að þeir hafi umboð frá kjósendum. Hvaða umboð frá kjósendum? Krafsaði Framsfl. og keypti til sín það fylgi sem hann fékk í síðustu kosningum sérstaklega með því að gera fólki grein fyrir og fá umboð til verka af því tagi sem hann er núna staddur í? Var það? Ekki minnist ég þess. Nei, það var eitthvað annað. Framsfl. skipti um ham rétt fyrir kosningarnar, varð allt í einu að geðþekkum félagshyggjuflokki í stjórnarandstöðu sem hafði ekki komið nálægt neinu af því slæma sem stjórnvöld höfðu staðið fyrir. Hann ætlaði hins vegar að gera allt fyrir alla á næstu missirum. Leysa átti húsnæðismálin, sem voru að sögn flokksins í mikilli upplausn. Þeir létu að vísu vera að geta þess að þeir höfðu sjálfir farið með stjórn þeirra mála í átta ár. Nei, þeir ætluðu að lofa mönnum 90% lánum og ráku einhverja glysgjörnustu og yfirborðskenndustu auglýsingamennsku í kosningabaráttu sem við höfum nokkurn tíma séð í landinu, með vemmilegum auglýsingum sem keyptar voru fyrir miklar fjárhæðir. Það var aldeilis ekki þannig að kosningabarátta Framsfl. færði þeim flokki sérstakt umboð til að standa að málum eins og þeir virðast ætla að gera á næstu missirum.

Út frá vangaveltum um grundvallarlýðræði og virðingu fyrir umbjóðendum sínum er lítil stoð í því af málum af þessu tagi fyrir hv. stjórnarliða að vísa til umboðs frá kjósendum. Því miður er ekki hægt að kalla fram mælingu eða kosningar um einstök mál af þessu tagi. Það mundum við alveg örugglega gera ef við værum stödd í landinu Sviss. Þá mundu stjórnmálamenn að sjálfsögðu leggja málin fyrir, undirbúa þau, og tryggja að eðlilegar umræður og skoðanaskipti gætu farið fram. Síðan réði þjóðin í kosningum hver niðurstaðan yrði. Það er hlutur sem mér fyndist óumflýjanlegt að taka fyrir alvöru á dagskrá í þjóðfélagi okkar, þ.e. spurninguna um hvernig hægt sé, með skynsamlegum aðferðum, að virkja betur beint og milliliðalaust lýðræði þannig að farvegur sé fyrir málskot til þjóðarinnar, virkur farvegur en ekki eitthvað í stjórnarskrá sem almennt er ekki nýtt.

Nú kann á það að reyna. Sumir eru þeirrar skoðunar að það komi til álita að forseti Íslands staðfesti ekki þessi lög, þau séu þannig úr garði gerð að margt mæli með því, vegna þess hversu heiftarlega umdeild þau eru og hve mikil hætta er á að með þeim myndist gífurleg gjá í þingviljann, sem svo er kallaður. Úrslit ráðast með tiltölulega knöppum meiri hluta sem væntanlega mun í lokin afgreiða þetta mál, einungis stjórnarþingmanna, mínus einhverjir sem heltast úr lestinni. Með vísan til þess hvernig málið allt er vaxið og áleitinna álitamála um grundvallaratriði í stjórnskipun okkar o.s.frv. telja sumir að þarna sé komið slíkt mál.

Það má til sanns vegar færa að þeim mun oftar sem það gerist, að upp koma umræður um að forsetinn beiti þessum málskotsrétti og niðurstaðan verður sú að hann geri það ekki, þeim mun dauðari verður sá bókstafur. Ég er ekki endilega að segja að þótt svo færi í þetta sinn að forsetinn undirritaði lögin þá væri það endanlegur dauðadómur yfir þessum ákvæðum. En því er ekki að leyna að því oftar sem full alvara er á bak við kröfur um að forseti staðfesti ekki lög og fullur þungi er á bak við þá ósk utan úr þjóðfélaginu en það gerist engu að síður ekki þá verður sá möguleiki að það gerist fjarlægari í hugum manna.

Mér þykja fróðlegar vangaveltur lögmanna um ákvæðið sjálft. Sjálfur hef ég reyndar aldrei átt í erfiðleikum með það að skilja að ákvæðið hljóti að vera þarna af ástæðu. Mér finnst fráleitt að gera þeim mönnum upp, eða ætla þeim það sem stóðu að stjórnarskránni 1944, að þar hafi ekki verið hugsun á bak við. Það er fráleitt vegna þess að þeir hinir sömu aðilar gengu frá því að Íslendingar hefðu þjóðkjörinn þjóðarleiðtoga en ekki kosinn af þingi eða með öðrum slíkum hætti, sem hefði verið nær arfakonungsfyrirkomulaginu sem við bjuggum við áður.

Þegar allt er skoðað saman, ótvíræð ákvæði stjórnarskrárinnar og lögskýringargögn sem þar liggja til grundvallar, greinargerð með stjórnarskrárfrumvarpinu og ræður þingmanna, þá hef ég aldrei verið í minnsta vafa um að þetta ákvæði var af hálfu aðstandenda á þeim tíma hugsað sem raunverulegt og virkt. Hefðin, þrátt fyrir það að hún sé orðin rúmlega hálfrar aldar löng, breytir því ekki að til þess geti komið að ákvæðið verði notað. Sömuleiðis finnast mér fáránlegar vangaveltur um að nokkuð annað gerist en það sem samkvæmt orðanna hljóðan á að gerast, að tafarlaust verði boðað til kosninga um viðkomandi mál. En sú skoðun heyrist að stjórnvöld gætu haft það að engu þó forsetinn undirritaði ekki lögin. Þá mundi sú venja væntanlega leggjast af, að forsetinn eða handhafar forsetavalds undirrituðu lög. Það hefði þá enga merkingu ef menn færu ekki að bókstaf stjórnarskrárinnar og létu slík mál ganga til þjóðarinnar.

Rætt hefur verið um, og er skaði að ekki skuli hafa komist af stað, að sett yrði á laggirnar ný stjórnarskrárnefnd. Ég held að þetta mál og reyndar fleira sem borið hefur að á undanförnum mánuðum og árum færi okkur heim sanninn um að þörf er á að slík stjórnarskrárnefnd taki til starfa. Hún þyrfti einmitt að taka fyrir I. kafla stjórnarskrárinnar um skiptingu valdsins, hvernig því er fyrirkomið milli æðstu stofnana lýðveldisins, forsetaembættisins, Alþingis, ríkisstjórnar, dómstóla o.s.frv. Það er vandræðalegt að með 5--10 ára millibili skuli gjósa upp sama umræðan um þessi grundvallaratriði á nákvæmlega sama stað. Hún byrjar alltaf á nákvæmlega sama stað, á því hvort forsetinn hafi raunverulegt synjunarvald, raunverulegan málskotsrétt. Þá koma sömu ræðurnar í framhaldinu um að allar reglur vanti um hvernig eigi að kjósa o.s.frv. Auðvitað er það trassaskapur að hafa ekki botnað málið með því að fylla upp í gatið með löggjöf sem sé til staðar og klár ef á þetta reyndi. Eins mætti ganga frá því með hinu, eins og ég hef sagt, að fara í endurskoðunarvinnuna og ganga frá því þar, hvort það sé nákvæmlega svona eða öðruvísi sem menn vilja hafa stjórnskipunina.

Mér finnst, frú forseti, mjög dapurlegt að endir þessa máls verði sá sem nú blasir við okkur, að forustumenn stjórnarflokkanna, guðfeður þessa máls, hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson, hafi vilja sinn fram með liðsmönnum sínum á þinginu. Þeir loka þar með á frekari skoðun þessa máls, a.m.k. í þessari umferð og kæfa þá umræðu sem annars má ætla að hefði getað orðið lífleg á næstu mánuðum, skoðanaskipti, blaðagreinar, fundir og ráðstefnur. Ég er sannfærður um að það hefði verið mikill áhugi á því víða í samfélaginu að kryfja þessi mál til mergjar, ef menn sæju að það þjónaði tilgangi og fram undan væri afgerandi stefnumótun og mikilvægar ákvarðanir á þessu sviði. Menn hljóta að velta því fyrir sér hvaða tilgangi slíkt muni þjóna ef valdhafarnir í landinu berja vilja sinn í gegn með þeim hætti sem raun ber vitni. Þeir verða væntanlega ekki mikið til viðtals um aðrar ráðstafanir í kjölfarið.

Hið dapurlega, sem við stöndum frammi fyrir, er að vinnubrögð hæstv. ráðherra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar hafi tekið þetta mál í gíslingu, hertekið það og aðrir komast þar engan veginn að.

Morgunblaðið, sem veltir vöngum yfir þessum hlutum dögum oftar nú um stundir, ætti náttúrlega að hafa í huga að a.m.k. tvennt þarf til ef menn ætla að styðja mál eða veita því brautargengi. Menn þurfa í fyrsta lagi að vera efnislega sammála því, eiga efnislega samleið með viðkomandi máli en þeir þurfa líka að komast einhvern veginn að því. Það þarf að vera í boði að menn komist að vinnu við málið og geti haft áhrif á. Auðvitað hlýtur stjórnarandstaðan á hverjum tíma að segja sig frá málum ríkisstjórnar sem þjösnast er með með þessum hætti. Skárra væri það.

Það er minna en engin viðleitni til að leita bandamanna og samstöðu um málið, bæði innan þings og utan. En af því að við erum nefndir í leiðara Morgunblaðsins, ég og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, þá má spyrja: Hvernig áttum við að koma sjónarmiðum okkar og flokka okkar að fyrir hönd þingmanna okkar? Áttum við að brjótast inn á einkafundi Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar, þar sem þeir voru bak við luktar dyr að kokka upp hrossakaup í málinu til þess að halda ríkisstjórninni á löppunum? Nei, ég held að allir hljóti að sjá að málið var var ósköp einfaldlega í þeim farvegi og í gíslingu formanna stjórnarflokkanna og ástandsins í stjórnarherbúðunum þannig að það var gersamlega útilokað og óaðgengilegt fyrir nokkurn að hafa þar áhrif. Það er auðvitað opinbert leyndarmál að meira að segja þær þingnefndir sem höfðu málið til umfjöllunar störfuðu í hálfgerðu tómarúmi. Allir fundu og skynjuðu að hinum eiginlegu ráðum var ráðið annars staðar, bak við luktar dyr, í makki og hrossakaupum formanna stjórnarflokkanna. Það var jafnvel komið á það stig um tíma að þar hefur hrikt talsvert í, en ekki nóg því miður.

[17:45]

Þetta finnst mér sýna mikla valdþreytu. Það hvernig ríkisstjórnin og formenn stjórnarflokkanna hafa haldið á þessu máli endurspeglar í rauninni mikinn veikleika. Þess vegna var kostulegt og grátbroslegt að heyra hæstv. forsrh. lýsa því yfir hversu einstaklega gott samstarfið væri einmitt núna, hefði sennilega aldrei verið nánara og stjórnin aldrei staðið betur en einmitt í lokin á þessari miklu krísu. Ef samstarf er gott þá þolir mál af þessu tagi umræður fyrir opnum tjöldum, þá þola menn umræður. Þá þola menn að hlustað sé eftir fleiri sjónarmiðum, þá virða menn skoðanir samstarfsaðila sinna og leyfa hlutunum að vinnast með eðlilegum hætti, t.d. í þingnefndum, en ekki var því að heilsa í þessu máli. Það endurspeglar mikinn veikleika af jafnvel fleiri en einum toga, ekki bara veikleika í hinu pólitíska samstarfi heldur kannski aðra og ekki síður alvarlega veikleika sem lúra þar á bak við hjá viðkomandi aðilum.

Eins og margoft hefur verið sagt var engin sérstök ástæða til að ætla að mál af þessu tagi hefði þurft að enda í svo miklum pólitískum ágreiningi ef boðið hefði verið upp á annað, jafnvel að vönduð og heildstæð löggjöf um fjölmiðla hefði náð að líta dagsins ljós undir lok þessa árs studd af öllum þingflokkum ef slíkt hefði verið í boði í kjölfar á vönduðu þverpólitísku nefndarstarfi t.d. í sumar og vandaðri vinnu á þingi næsta haust og fram að áramótum. Auðvitað átti að gefa málinu tíma og leyfa því að þroskast og reyna hvort hægt væri að ná sæmilegri samstöðu í þjóðfélaginu um grundvallarlöggjöf, almenna löggjöf á þessu sviði sem ég hygg að margir séu sammála um og sáttir á að geti vel verið tilefni til að setja. Það væru þá að sjálfsögðu lög sem næðu utan um þetta mikla svið í heild sinni og tækju á öllum helstu þáttum þess, væru í samhengi við aðstæður og stöðu, tækju þar á meðal tillit til stöðu Ríkisútvarpsins og innihéldu jafnvel hluti sem tengdust því og stöðu þess inn í framtíðina ef marka má þau orð manna að flestir séu sammála um mikilvægi þess og þörfina fyrir öflugt almenningsútvarp, sjálfstætt og kraftmikið. Það hefði verið heldur betur fagnaðarefni ef þau straumhvörf væru að verða því við vitum að að Ríkisútvarpinu hefur verið sótt og treystum því auðvitað vart að það sé ekki til staðar áfram og á kreiki víða að sauma að Ríkisútvarpinu í framhaldinu eins og lengi hefur verið.

En það verður þá að bíða síns tíma, frú forseti, að takast á við þessa hluti. Auðvitað verður málinu engan veginn lokið þó þessari löggjöf verði þröngvað í gegn. Það gefur augaleið að mikil eftirköst eru í þessu öllu saman, bæði vegna beinna efnisáhrifa frv. ef samþykkt verður. Fyrir liggja yfirlýsingar um málaferli bæði innan lands og utan og kann það allt að draga dilk á eftir sér þar sem miklar skaðabótakröfur verða uppi og það er næsta víst að einnig í pólitíkinni og hvað varðar umræður um fjölmiðlamál almennt á komandi missirum þá erum við rétt að hefja þá umræðu frekar en að ljúka henni þó svo dapurlega fari að þessi mislukkaða lagasetning verði að veruleika hér a.m.k. af hálfu löggjafans hvað sem staðfestingunni líður á næstu sólarhringum.