Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 17:52:22 (8765)

2004-05-21 17:52:22# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[17:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Nú vildi ég mjög gjarnan vera í færum til að svara hv. þm. því skemmtilegt þætti mér sjálfum að vita þetta en það er bara því miður þannig að ég held að við sitjum uppi með þá stöðu að verða meira og minna að reyna að giska á hvað í ósköpunum mönnum gangi til. Eitthvað er það sem knýr menn áfram til vinnubragða af þessu tagi og erfitt er að greina það í umhverfinu úr því að sú samþjöppun eða þær sameiningar sem urðu á síðustu mánuðum eru um garð gengnar, að mestu leyti a.m.k., þá hafa menn ekki reiknað með því að fyrirsjáanlegt væri eitthvað annað hliðstætt á næstu mánuðum eða missirum enda tæpast efniviður í það í landinu. Það er þá fyrst og fremst Morgunblaðið sem er einhver umtalsverð stærð í þessum efnum og ég hef ekki heyrt að það sé til sölu og ekki er að heyra á tóninum í því sjálfu að það hafi hug á samruna við aðra starfandi einkafjölmiðla.

Auðvitað verður að viðurkennast að það er einn vandinn sem menn standa frammi fyrir í þessu samhengi öllu saman. En ef menn vilja setja einhverjar takmarkandi reglur er miklu betra að um fyrirbyggjandi ráðstafanir sé að ræða, að menn greini óæskilega þróun á frumstigi og það snemma að þeir geti þá sett þær reglur sem þeir vilja áður en þær setja mönnum sem þegar eru starfandi umtalsverðar skorður svo maður tali ekki beinlínis um að kippi fótunum undan þeim, en því er þá kannski ekki að heilsa hér, þ.e. ef menn telja að það sé þegar orðin til svo stór og mikil eining að það verði að takmarka umsvif hennar eða möguleika. En það er auðvitað aðstandendanna að svara og þeim hefur ekki tekist að færa fram nein trúverðug eða sannfærandi rök fyrir því að það sé einhver sú bráða vá fyrir dyrum að það réttlæti óðagot og vinnubrögð af því tagi sem hér er og það er reyndar andstætt allri venjulegri hugsun í þessum efnum, þ.e. að menn bíði og sjái til hvert þróunin er að leiða hana.