Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 18:34:00 (8769)

2004-05-21 18:34:00# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[18:34]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Við 3. umr. þess máls sem við höfum kallað fjölmiðlafrv. hefur margt verið sagt. Ég tek undir þá skoðun sem fram hefur komið að málflutningurinn hefur verið málefnalegur, hann hefur verið ítarlegur en þó að umfjöllun um þetta mikla mál hafi tekið nokkra daga, þá tel ég að umræðan sé rétt að hefjast. Ef við erum að tala um lýðræðisleg vinnubrögð þarf mál eins og þetta að gerjast miklu lengur en svo að vera í umræðu í þinginu í nokkra daga. Það þurfa miklu fleiri að koma að því og vera virkir þátttakendur, ekki bara að koma til nefnda og segja álit sitt heldur að vera þátttakendur í mótun svo mikilvægs málefnis og þetta frv. fjallar um.

Hæstv. forseti. Ég tel að bregðast eigi við samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. En ástæða þess að orðið hefur þessi mikla eignatilfærsla og samþjöppun er í rauninni afrakstur stefnu núverandi ríkisstjórnar. Samþjöppun hefur orðið á þessum markaði eins og öðrum mörkuðum, t.d. á matvælamarkaðnum, í sjávarútvegi og á fleiri sviðum. Og þegar markaðslögmálin eiga að gilda og eiga að ráða verður útkoman oft sú að hugsanlega verða aðrir eigendur að auðlindunum, sama hverjar auðlindirnar þar eru, hvort það er fiskurinn í sjónum eða sjónvarpsrásirnar og útvarpsrásirnar, einhverjir þeir aðilar sem stjórnvöld höfðu hugsanlega ekki ætlað sér að yrðu þar alls ráðandi.

Á þessu sviði sem og mörgum öðrum er erfiðara að setja reglurnar þegar í óefnið er komið. Við hefðum fyrir nokkuð löngu átt að vera búin að átta okkur á því að sú staða gæti komið upp hér á landi að til að tryggja fjölbreytni og lýðræðislega umræðu þyrfti að setja ákveðnar leikreglur svo einstakir aðilar yrðu ekki ráðandi á markaðnum. Þetta hefðum við getað sagt okkur með því að líta í kringum okkur, sjá þróunina í öðrum löndum og hvernig brugðist hefur verið við. Við erum ekkert öðruvísi og það er ekkert annað að gerast hér en það sem er að gerast í nálægum löndum. Við erum oft og tíðum nokkrum árum á eftir og ættum þar af leiðandi að geta nýtt okkur það að fylgjast með hvernig aðrar þjóðir ganga í gegnum ákveðna þróun, hvernig þær bregðast við og vera þá tilbúin. En því miður viljum við alltaf fara okkar leiðir og þetta á að reddast allt saman þangað til eitthvað kemur upp á sem við sjáum að gengur ekki lengur. Því tek ég undir það að þessi samþjöppun á fjölmiðlamarkaðnum gengur ekki lengur. En ekki er eðlilegt að bregðast við með þeim hætti eins og hér er gert. Eins og komið hefur fram í fjölmörgum ræðum þarf að fara í þá vinnu með lýðræðislegum hætti og gefa umræðunni tíma.

Í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar kom fram að ein leið hefði verið að setja lög á þessu vorþingi sem bönnuðu frekari samþjöppun á fjölmiðlamarkaðnum en orðin er, setja ákveðna bremsu og við ættum að skoða þetta, taka þetta upp á næsta vetri eða fara í þá vinnu og frysta stöðuna eins og hún er í dag og ekki heimila frekari samþjöppun en orðin er. Ég tel að það hefði verið mjög góð leið til að gefa okkur ákveðið andrými til að fara í slíka vinnu því að eins og við erum öll búin að lýsa yfir, að þetta sé óeðlileg þróun sem hér hefur átt sér stað, þá erum við jafnandvíg þeirri aðferð sem hér á að beita.

Okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefur m.a. verið legið á hálsi fyrir að við séum að taka U-beygju, við séum að hverfa frá þeim yfirlýsingum og málflutningi okkar sem við höfum haldið uppi um að setja þurfi ákveðin takmörk, en svo er ekki. Við erum á þeirri skoðun en við mótmælum því að tveir einstaklingar geti með valdboði sagt fyrir um það hvernig lög séu afgreidd á hinu háa Alþingi og vísa til þess að farið hafi verið eftir þeirri ágætu skýrslu og úttekt sem hér hefur margsinnis verið nefnd og var skilað 2. apríl 2004 í vor. Þetta er mjög góð greinargerð, ítarleg og mjög góð úttekt sem ég tel að hafi verið góður grunnur til að byggja á til að fara í frekari vinnu. En ekki er nóg að setja nokkra sérfræðinga í slíka vinnu og gera þá úttekt ef aðrir koma svo ekki að úrvinnslunni. Ekki er rétt að verið sé að fara eftir niðurstöðum þeirrar skýrslu. Skýrsluhöfundar benda á nokkrar leiðir sem megi fara til að hamla eignarhaldi á fjölmiðlum og sú leið er farin í frv., eins og það birtist fyrst og hefur þó aðeins skánað en ekki þannig að það skipti nokkru máli, sem þrengst er og möguleg hefur verið nefnd í skýrslunni. Allra harðasta og þrengsta leiðin hefur verið valin og litið algerlega fram hjá öðrum atriðum. Það er ekki hægt, hæstv. forseti, að leyfa sér að setja svo strangar reglur að vafi leiki á því að ákveðnar greinar standist stjórnarskrána og að hugsanlegt sé að ríkissjóður verði að greiða háar sektir í skaðabætur ef frv. verður afgreitt.

Mér finnst það svo alvarleg ábending að frv. geti stangast á við stjórnarskrána, standist ekki stjórnarskrá lýðveldisins að ganga verði úr skugga um það með öllum þeim ráðum sem við búum yfir að fá algera fullvissu fyrir því að svo sé ekki. Það er algerlega óþolandi að verið sé að láta í skipti eftir skipti reyna á það fyrir dómstólum. Bara það að fram komi sterkar ábendingar um að þetta geti verið staðreyndin á að fá okkur til að stoppa og fara ekki lengra fyrr en við erum búin að vinna úr þessu.

Með leyfi hæstv. forseta langar mig að vitna í brot úr stuttri grein sem birtist í Morgunblaðinu 9. desember 2003, skrifaða af Hjörleifi Guttormssyni. Hann skrifaði þá um lagasetningarvald. Með leyfi forseta hefst greinin þannig:

,,Eðlilega vekur athygli hversu oft Hæstiréttur Íslands hefur á síðustu árum kveðið upp dóma sem fela í sér að nýlega sett lög gangi í berhögg við ákvæði stjórnarskrárinnar``.

Niðurlag greinarinnar er svohljóðandi:

,,Umræddir hæstaréttardómar`` --- því vitnað í nokkra --- ,,ættu að vera sérstakt tilefni fyrir Alþingi að athuga sinn gang. Í starfsháttum þingsins og ósjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu er að mínu mati að finna helstu skýringar á því að ýmis lagaákvæði hafa ekki staðist skoðun dómstóla. Alþingi kemur illa út að þessu leyti í samanburði við þjóðþing annarra Norðurlanda. Menn þurfa ekki lengra en til Noregs til að sjá hvert himinn og haf er á milli undirbúnings að mótun löggjafar þar og hér á landi. Á það bæði við um undirbúning að löggjöf í ráðuneytum og málsmeðferð í Stórþinginu. NOU-greinargerðirnar norsku tala þar sínu máli. Stórþingið er heldur ekki undir hælnum á framkvæmdavarldinu með sama hætti og Alþingi, sem best sést af því að ráðherrar í Noregi hafa ekki atkvæðisrétt í þinginu.

Því er svo við að bæta að engir af nefndum hæstaréttardómum hefðu þurft að koma mönnum á óvart, síst af öllu lögfræðiprófessorum. Í mörgum tilvikum vöruðu talsmenn stjórnarandstöðuflokka á Alþingi eindregið við að viðkomandi lagasetning stangaðist á við stjórnarskrárvarin ákvæði. Þetta átti m.a. við um stjórnun fiskveiða, málefni öryrkja og gagnagrunn á heilbrigðissviði. Hæstiréttur hefur í reynd orðið sú réttarvörn í málefnum borgaranna gegn ofríki framkvæmdarvalds og hirðuleysi löggjafans sem honum ber. Án dóma hans að undanförnu væri lýðræðinu verr komið en ella. Árangursríkasta leiðin til að fækka slíkum dómum er að Alþingi taki lagasetningarvald sitt alvarlega``.

[18:45]

Þótt þessi grein sé skrifuð 9. desember á síðasta ári á hún sannarlega við í dag varðandi afgreiðslu þessa frv. Mér finnast það forkastanleg vinnubrögð að halda áfram að vinna í máli sem vart getur talist þingtækt.

Hér hefur verið farið yfir framhaldsnefndarálit minni hluta allshn. Minni hlutinn lýsir yfir vanþóknun á fullkomnum viljaskorti meiri hlutans til að skoða efnisþætti málsins til hlítar og bendir á að fyrir liggja rökstudd álit fjölmargra sérfræðinga þess efnis að veruleg áhöld séu um að málið standist stjórnarskrána en enginn hefur enn treyst sér til að fullyrða hið öndverða.

Frumvarpið var meingallað og illa ígrundað í upphafi. Hvorki málsmeðferðin né breytingartillögur meiri hlutans nægja til að gera frumvarpið þannig úr garði að það geti orðið grundvöllur góðrar lagasetningar sem tryggi lýðræði, fjölbreytni og sjálfstæði í fjölmiðlun.

Ég beini athygli hæstv. forseta að umsögn meiri hluta efh.- og viðskn., því hún klofnaði í þessu máli. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Sérstaka athygli vekur að Samkeppnisstofnun lýsti þeirri skoðun við nefndina að þrátt fyrir breytingartillögur stríddi frumvarpið enn gegn markmiðum samkeppnislaga.`` --- Samt er Samkeppnisstofnun ætlað að eiga hlut að máli þótt ný skipan útvarpsréttarnefndar eigi að hafa vald til að meta umsóknir um leyfi til útvarpssendinga á hverjum tíma.

Víða að hafa komið ábendingar um að ramminn sem setja eigi fjölmiðlum til að ná þeim markmiðum sé allt of þröngur, hann muni ekki ná þeim markmiðum sem honum er ætlað. Talið er að hann mundi þrengja svo að fjölmiðlamarkaðnum að hætta sé á að lögin muni virka gagnstætt við það sem ætlað er, að meiri fákeppni verði en er í dag þannig. Mér finnast það alvarlegar ábendingar.

Það á að setja því skorður að fyrirtæki sem hafa markaðsráðandi stöðu á einhverju sviði, sem er ekki á fjölmiðlamarkaðnum, geti átt meira en 5% í útvarps- eða sjónvarpsrekstri. En hvað er markaðsráðandi staða og hvernig er hægt að meta hana með óyggjandi hætti? Það hlýtur alltaf að vera mat á hverjum tíma. Slíkt mat getur heldur ekki verið óyggjandi niðurstaða heldur yrði hún matskennd og jafnvel mjög umdeild. Ég spyr bæði sjálfa mig og aðra, þótt ekki fái maður svör frá hv. stjórnarliðum: Hvers vegna liggur svo mikið á að setja þessi lög núna? Ekki er farið að ráðum höfunda skýrslunnar um hvernig eigi að vinna út frá niðurstöðum hennar. Skýrsluhöfundar voru tilbúnir að leggja sitt af mörkum eða koma að samningu frumvarps ef til þeirra yrði leitað. En hins vegar lá mönnum svo á að bregðast við þessari skýrslu að hæstv. forsrh. tók að sér að semja frv. Maður spyr þess vegna: Hvað er á fjölmiðlamarkaði í dag eða verður næsta vetur brenglaðra en verið hefur undanfarin ár? Auðvitað er þetta brenglaður markaður hvað varðar eignarhald á fjölmiðlunum. En hvað er að óttast? Ég spyr um það en sé ekki annað en þetta sé spurning um vald. Þetta er spurning um vald yfir fjölmiðlum og það að vera ráðandi í umræðunni, að hafa sterka stöðu á fjölmiðlamarkaði. Fjölmiðlamarkaðurinn hefur verið kallaður fjórða valdið og nú er greinilegt að ekki eru réttir aðilar í valdastólum fjórða valdsins. Einhverjir telja að rangir menn séu ráðandi á þessu sviði og því þurfti að bregðast svo hart við. Þetta er eina skýringin sem ég get fundið á þessu máli, þ.e. að valdabaráttan búi þarna að baki.

Erum við sátt við afgreiðslu þessa máls, að það verði afgreitt út úr þinginu núna? Það er augljóst að stjórnarandstaðan er andvíg þessu máli. Við fordæmum vinnubrögðin, málsmeðferðina og frv. í heild. En þá má spyrja: Væri stuðningur innan þingsins ef allir hv. stjórnarþingmenn mundu greiða atkvæði samkvæmt samvisku sinni og sannfæringu? Ég efast um það. Ég efast um að svo færi. Maður hefur heyrt það á mönnum, séð það í fjölmiðlum og af þeim óróa sem hér ríkir að efast megi um að frv. hefði stuðning ef lýðræðislega væri unnið en ekki eftir heraga. Frv. hefur augljóslega ekki stuðning úti í þjóðfélaginu. Haldinn var kröftugur útifundur í fyrradag og krafa þeirra sem þar komu saman, af sjálfsprottnum krafti og áhuga á lýðræði og siðferði, beindist ekki gegn þessu frv. frekar en öðru. Reiði fólks brýst hins vegar fram þegar það upplifir hve augljós valdníðslan er orðin og hvernig ruðst er fram með þetta mál. Þá er fólki ofboðið.

Hvað varðar forseta lýðveldisins þá tel ég að það embætti eigi að vera friðhelgt. Umboðsmaður Alþingis er skipaður af Alþingi en forseti Íslands hefur umboð sitt frá þjóðinni. Þessi embætti eiga að vera friðhelg og án afskipta þings og ríkisstjórnar. Manni verður því bilt við þegar upplýst er að hvorugt þessara embætta fái þann frið sem þeim ber fyrir æðstu ráðamönnum. Í mínum huga hefur verið gengið allt of langt í þeim efnum. Mér finnst að ráðamenn ríkisstjórnar hafi sett niður og virðingu Alþingis einnig í því orðakasti sem fram hefur farið, sérstaklega í fjölmiðlum.

Þjóðin vill að æðstu valdamenn þjóðarinnar sýni yfirvegun í orði og æði. Við viljum að þessi embætti séu virðingar- og ábyrgðarstöður, eins og þeim ber. Ég álít að eðlilegt sé að gera meiri kröfur til þeirra einstaklinga sem sitja í æðstu embættum hverju sinni en til almennings.

Á þeim skamma tíma sem umræða hefur farið fram um þann ramma sem fjölmiðlar á Íslandi eiga að búa við --- ég er þá ekki bara að tala um þetta frv. heldur almennt --- hefur þjóðin orðið vitni að ótrúlegum valdhroka. Valdhrokinn hefur orðið sýnilegri í umfjölluninni um þetta frv. Menn hafa farið langt yfir þau mörk sem hægt er að sætta sig við. Þessum valdhroka mótmælir þjóðin. Skoðanir manna endurspeglast í andstöðu við frv. eins og komið hefur fram í skoðanakönnunum.

Ég vil, hæstv. forseti, að lokum taka undir fordæmingu á vinnubrögðum og valdníðslu ríkisstjórnarinnar. Ég vona að næsta ríkisstjórn, sem tekur við innan skamms tíma ef sú sem hér situr lærir ekki af reynslunni, taki tillit til þess að það er ekki nóg að hreiðra um sig á valdastólum um margra ára skeið heldur verður að hlusta á þjóðina og ástunda lýðræðisleg vinnubrögð þótt stólarnir hafi verið tryggir. Að öðrum kosti tel ég að lýðræði í landinu og stöðu Alþingis sé ógnað.