Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 21:20:18 (8771)

2004-05-21 21:20:18# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[21:20]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég held að frv., sem nú stefnir óðfluga í að verði að lögum á hinu háa Alþingi, hafi verið lagt fyrir ríkisstjórnina mánudaginn 26. apríl. Það mætti halda að lengra væri liðið síðan það var gert en það eru ekki nema rétt rúmir 20 dagar síðan. Eins og allir vita hefur mikið gengið á í þjóðfélaginu á þessum dögum. Þetta hafa verið örlagaríkir, viðburðaríkir og erfiðir dagar, bæði fyrir þingmenn en líka, að ég hygg, hæstv. forseti, fyrir þjóðina. Þjóðin hefur ekki verið sátt við það sem gerst hefur frá því að þetta frv. kom fram. Hún hefur ekki verið sátt við störf þingsins og ekki verið sátt við frv. sjálft, eins og glögglega kom í ljós í skoðanakönnun sem birt var í dag þar sem fram kemur að um 80% þeirra sem svöruðu spurningu um afstöðu sína til fjölmiðlafrumvarpsins, um 80% svöruðu því til að þau væru andvíg þessu frv.

Í ljósi atburða undanfarinna vikna er athyglisvert að líta um öxl og skoða hvernig stjórnarliðar hafa reynt að matreiða þetta ofan í þjóðina. Ég greip með mér viðtal sem tekið var við hæstv. menntmrh. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur einmitt þennan örlagaríka dag, mánudaginn 26. apríl. Þá sagði hæstv. menntmrh., sem síðan hefur verið nánast algerlega fjarverandi í þessari umræðu, í viðtali við Morgunblaðið, með leyfi forseta:

,,Ég tek undir það sem utanríkisráðherra hefur sagt, að það er ekki gott þegar mál eru í einhverri óvissu. Það á að klára svona mál og ég held að við höfum náð mjög góðri lendingu með þeirri afgreiðslu sem við náðum í morgun í ríkisstjórninni. Það var mikill einhugur og sátt um þetta frumvarp.``

Þetta sagði hæstv. menntmrh. Mikill einhugur og sátt um þetta frv. Síðan sagði hæstv. menntmrh., með leyfi forseta:

,,Meginmálið er að við megum ekki horfa á skammtímasjónarmið heldur þau sjónarmið sem eru okkur svo mikilvæg, sem eru að varðveita frjálsa og óháða fjölmiðlun þannig að hér fái þrifist fjölmiðlar sem gegna því hlutverki sem við ætlumst til af þeim, þ.e. að standa undir þeirri ábyrgð að vera fjórða valdið.

Það sem við erum að gera með þessu frumvarpi er í fullu samræmi við það sem gengur og gerist annars staðar.``

Svo mörg voru þau orð. Það átti að klára málið, keyra það í gegnum þingið á vordögum og ganga frá því þannig að það yrði að lögum áður en þingið færi heim í sumarfrí. Það átti að afgreiða þetta vandasama og mikilvæga mál sem varðar alla þjóðina á mettíma. Það átti að afgreiða það án þess að ráðfæra sig við þá sem hagsmuna eiga að gæta, þ.e. fólkið í landinu, þá sem lifa og starfa við fjölmiðla. Það átti að ganga frá málinu í trássi við nefndir þingsins. Þetta hefur verið gert með eftirminnilegum hætti. Ég hygg að það muni líða langur tími þar til bæði þjóð og þingmenn, bæði stjórnarþingmenn og stjórnarandstæðingar, gleyma því sem gerst hefur á undanförnum dögum. Þetta frv. á eftir að hafa afleiðingar. Öll þessi málsmeðferð og það sem gerst hefur í sölum Alþingis og líka úti í þjóðfélaginu á eftir að hafa pólitískar afleiðingar.

Ég hygg að mest af því sem segja þarf um frv. hafi þegar verið sagt. Þá er ég að tala um gagnrýnina á frv. sem hefur verið mjög málefnaleg og studd mjög góðum rökum. Hér hafa verið fluttar ótal margar góðar ræður. Stjórnarliðar munu ekki geta sagt að þeir hafi ekki verið varaðir við. Þeir munu ekki getað afsakað sig með því að þeir hafi ekki fengið að heyra rökstudd varnaðarorð. Sú afsökun mun ekki duga þeim í framtíðinni. Þeir geta sjálfum sér um kennt nú þegar þeir æða út á þetta fúafen, með illa undirbúið frv. sem sennilega stenst ekki stjórnarskrá og stríðir gegn atvinnufrelsi og tjáningarfrelsi.

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með sumum fjölmiðlum sem hafa, jafnótrúlegt og það hljómar, tekið undir efni frv. og hafa lýst því yfir að þeir styðji þetta frv. Ég verð að segja, sem fyrrverandi fjölmiðlamaður, að mér finnst með ólíkindum að nokkur fjölmiðlamaður skuli treysta sér til að skrifa upp á þann gjörning sem hér um ræðir. Það er engum vafa undirorpið að málið er illa ígrundað og að illa hefur verið staðið að því frá upphafi.

Einn af þeim fjölmiðlum sem hafa tekið undir það að fremja slíkt óhæfuverk sem hér er til umræðu er næststærsta dagblað landsins, Morgunblaðið. Það hefur farið mikinn í leiðurum og Reykjavíkurbréfum og varið frv. með kjafti og klóm. Við höfum fengið að sjá marga kostulega leiðara í því ágæta blaði á undanförnum vikum. Ég ætla ekki að elta mikið ólar við þá en þeir leiðarar munu standa sem lesefni fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar. Þeir verða eflaust aðhlátursefni og undrunarefni fyrir okkur og aðra í framtíðinni. Einn leiðara vil ég þó fá að nefna sérstaklega en hann birtist í Morgunblaðinu í morgun. Ástæða þess að ég vil sérstaklega nefna hann er sú að þar er vikið að Frjálsl. og afstöðu hans til þessara mála. Þessi leiðari ber heitið ,,Markmið Vinstri grænna og Frjálslyndra``. Ég túlka þennan leiðara með þeim hætti að Morgunblaðið sé að reyna að spyrða saman Vinstri græna og Frjálsl. og tengja þeim gjörningi sem nú á að fara fram. Blaðið leitar logandi ljósi að einhverjum röksemdum sem það getur notað til að segja: Þarna sjáið þið. Þeir eru í raun sammála okkur. Við höfum rétt fyrir okkur. Við erum að gera rétt. Í þessum leiðara segir m.a., eftir að vitnað hefur verið í þáltill. sem Vinstri grænir, Frjálslyndir, Framsfl. og Sjálfstfl. stóðu að og var lögð fram á þinginu í fyrrahaust, með leyfi forseta:

,,Ljóst er af þessum tilvitnunum, að formenn tveggja stjórnarandstöðuflokka voru í nóvember þeirrar skoðunar, að vinna ætti að þeim markmiðum, sem tekið er á í fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þeir töldu m.a. nauðsynlegt að kanna, hvort banna ætti sömu aðilum að eiga bæði dagblöð og ljósvakamiðla og þeir töldu nauðsynlegt að kanna, hvort markaðsráðandi aðilar á öðru sviði mættu eiga fjölmiðla.

Þeir kunna að vera andvígir því, hvernig staðið hefur verið að undirbúningi löggjafarinnar en það er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að formenn flokkanna tveggja séu sammála þeim markmiðum, sem fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er ætlað að ná.``

Það er rétt hjá Morgunblaðinu að Frjálsl. stóð að áðurnefndri þáltill. Við fórum í þetta mál af heilindum. Við fórum í þetta mál undir þeim formerkjum að eignahald á íslenskum fjölmiðlum yrði kannað og heildstæð löggjöf smíðuð í kringum íslenska fjölmiðla, það yrði gert í samvinnu flokka á þingi og í samráði við hagsmunasamtök eins og Blaðamannafélag Íslands, helstu fjölmiðla landsins og samtök fjölmiðlanna, þau ráðuneyti sem málið varðar, m.a. menntmrn., og aðra aðila. En þetta var ekki gert. Það var ekki haft samráð. Ríkisstjórnin ákvað að fara í þessa vinnu með því að útbúa leyniskýrslu sem skrifuð var af flokksgæðingum úti í bæ og síðan var samið frv. sem sent var inn í þingið og nú á að keyra það í gegn, nánast óbreytt með þvílíku offorsi að maður hefur aldrei séð annað eins.

Við höfum allan tímann verið sammála því að skoða þurfi þessi mál. Við hefðum líka getað fallist á að smíða heildstæða löggjöf. Við teljum hins vegar líka að þurft hefði að vanda til verksins og taka til meiri tíma. Ég vil segja það í þessari síðustu ræðu minni í þessu máli að það hefði átt að nota sumarið til að sinna þessu verki með samvinnu allra og sem mestri sátt við þá sem málið varðar. Síðan hefði mátt leggja frv. fyrir þingið á næsta hausti og vinna það almennilega næsta vetur. Við hefðum kannski náð að semja nokkuð góða löggjöf eftir um það bil ár frá þessum degi að telja. Það hefðu verið vinnubrögð að okkar skapi en ekki þau handarbakavinnubrögð sem við höfum orðið vitni að að undanförnu. Þau hafa gengisfellt Sjálfstfl. og hirt af honum mikið fylgi --- ég ætla ekki að fara að gráta yfir því. Framsfl. er margklofinn og í miklum vandræðum með þetta mál enda hefur klárlega komið í ljós að stór hluti flokksmanna þar er á móti frv. Ég hygg, eins og fram kom í þeirri skoðanakönnun sem ég minntist á í upphafi máls míns og birt var í morgun, að 80% þjóðarinnar séu á móti þessu frv. Ég hygg að það segi það sem segja þarf um þetta mál.

Ég vil að lokum fá að nota tækifærið til að lýsa því yfir að komist Frjálslyndi flokkurinn einhvern tíma í þá aðstöðu að geta haft áhrif á þau lög sem til stendur að setja, þ.e. gefist okkur möguleiki á að breyta þeim, þá mun ekki standa á okkur að fara í þá vinnu. Við munum gera það í samráði við þá sem málið varðar. Við munum ekki láta heiftina ráða för eins og gert hefur verið í þessu máli. Það er enginn vafi á því að hér er um sértæk lög, óréttlát lög og vond og meingölluð lög að ræða. Slík lög viljum við ekki setja á Íslandi árið 2004.