Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 21:32:16 (8772)

2004-05-21 21:32:16# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GunnB
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[21:32]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frv. til laga um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum. Haldnar hafa verið margar ræður, misgóðar eins og gengur, í þessum sal. (Gripið fram í: Nú kemur ein góð.)

Það kannski rétt, virðulegi forseti, að fara aðeins yfir málið í upphafi, hvernig staðan í málinu er, hvernig það er, og að við erum að tala um að setja þessi lög til að draga úr samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Það hefur verið með hreinum ólíkindum að hlusta á suma stjórnarandstæðinga mæla því bót og vilja ekki hreyfa legg né lið í því sem nú er verið að gera. Og maður spyr sjálfan sig: Er samþjöppun á fjölmiðlamarkaði æskileg? Ég tel ekki svo vera og margir aðrir þingmenn, bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar.

Ef við kíkjum á fyrirbærið sem hér um ræðir, sem eru Norðurljós, er rétt að fara aðeins yfir það en mér finnst fjölmiðlar ekki hafa gert því nógu góð skil hvað Norðurljós er.

Norðurljós samanstendur af Íslenska útvarpsfélaginu, ef við tökum það fyrst. Það er með útvarpsrekstur og endurvarp, Stöð 2, Stöð 3, Sýn, Bíórásina, Popp Tíví, Fjölvarpið og sex hljóðvarpsstöðvar, auk heldur femin.is og visir.is.

Ef við lítum á markaðshlutdeildina þá er ríkissjónvarpið, RÚV, með mesta áhorfið á ákveðnum tímum dagsins en markaðshlutdeild Norðurljósa er mjög há ef hún er tekin í klukkutímum talið.

Það samanstendur af Frétt ehf., sem er DV og Fréttablaðið. Síðan er Pósthúsið með blaðapökkun og póstmerkingu, Póstdreifing, sem er blaðadreifing og blaðberaþjónusta og loks Ísafoldarprentsmiðja.

Hvað varðar dagblöðin þá er Fréttablaðið er með 70% lesningu enda dreift ókeypis á hvert heimili í landinu. Maður spyr sjálfan sig: Hvers vegna? Hver sem á Fréttablaðið og dreifir því og ætlar að gera þetta svona hlýtur að fjármagna það með auglýsingum, ekki gerist það með öðru. Morgunblaðið er með 58% og DV einhvers staðar nálægt 20%.

Í útvarpinu er Íslenska útvarpsfélagið með nær 50% og jafnvel meira.

Þá komum við að þriðja parti Norðurljósa sem er Skífan, það er Smárabíó, Regnboginn, Grjótnáman og Stúdíó Sýrland og 16 smásöluverslanir og svo bíómyndir ásamt öðru.

Þetta er fjölmiðlafyrirtæki sem hefur náttúrlega afgerandi áhrif á þeim markaði. Annað á markaðnum í blaðaútgáfunni er Morgunblaðið og Viðskiptablaðið og svo ef við tökum sjónvarp þá er það Skjár 1 og síðan RÚV í útvarpi.

Frjáls fjölmiðlun hefur átt undir högg að sækja hér á þeim markaði og ég er sammála því sem þar er sagt að það að berjast við RÚV er ekki heiglum hent og það hefur verið skoðun mín að það eigi að minnka það og draga verulega úr því og selja t.d. Rás 2 og að reka eigi Rás 1 sem menningarlegt útvarp og öryggistæki.

Þá erum við búin að fara yfir stöðuna á þessu fyrirtæki sem hefur gífurlega sterka stöðu á fjölmiðlamarkaðnum. Og hver á svo Norðurljós og ræður þeim? Þegar við kíkjum á það kemur margt skemmtilegt í ljós og við sem störfum í nefndum þingsins, í menntmn. þar sem ég er formaður, og í efh.- og viðskn., höfum fengið ágætis yfirferð yfir hvernig þetta er.

Norðurljós var stofnað til að halda lífinu í þessu með því að fá endurfjármögnun í Íslenska útvarpsfélagið og Frétt og Skífuna. Skuldir fyrirtækisins voru 7,3 milljarðar. Í dag eru þær 5,7 og þetta eru ekki nein leyndarmál sem hér er sagt. Og þá spyr maður sjálfan sig: Hvað voru lagðir miklir peningar inn í fyrirtækið? Það eru ýmsar kenningar á lofti í því máli, en ef við förum yfir hluthafalistann er stærsti eigandi í Norðurljósum Baugur Group með tæp 30%, þ.e. ráðandi hlut, Grjóti ehf. sem er í þeirra eigu líka með 11,4%. Síðan er Kári Stefánsson skráður fyrir 15%. Það væri gaman að vita hvort allir þessir aðilar séu búnir að borga hlutaféð inn í þetta ágæta félag. (ÖS: Þeir gerðu það í gær.) Þeir gerðu það í gær, segir einhver hér úr sal, virðulegi forseti. Sá ágæti þingmaður Össur Skarphéðinsson er greinilega mjög inni í þessum málum í Norðurljósum. Fons með 11,6%, Kaldbakur er með 8%, Hömlur 6,9% og aðrir 17% rúm. Það eru sem sagt Baugur Group og Bónus sem ráða þessu fyrirtæki að mestu leyti.

Hvað skyldi hafa vakað fyrir þeim í þessum málum? Þá komum við að samþjöppuninni. Það er sem sagt einn aðili sem á ráðandi hlut í fjölmiðlafyrirtæki sem er með meiri partinn af fjölmiðlum á Íslandi.

Eigandinn er stór viðskiptakeðja sem er í mörgu. Viðskiptakeðjan á 50--60% af smávöruversluninni, ekki bara í matvöru, heldur eru það Baugur og Debenhams og hvað þær heita nú allar þessar verslanir. Til skamms tíma áttu þeir tæplega helminginn af lyfjaversluninni en seldu í morgun ef það gengur eftir og verður samþykkt.

Þessi keðja rekur líka stærsta fasteignafélag landsins, Stoðir. Þeir eru hluthafar í Húsasmiðjunni, alla vega með helming ef ekki meiri hluta. Þeir selja blóm og rósir og hafa sótt mjög í sig veðrið á þeim markaði, með Blómaval og Blómabúð Binna o.fl., og það er mjög erfitt fyrir aðra að koma inn á þann markað. Þeir eru nýbúnir að selja hlut sinn í Flugleiðum.

Hver er svo hugsunin í þessu, hvar eru viðskiptatækifærin í þessu? Jú, hún er sú að láta allt það fjármagn sem fyrirtækin auglýsa fyrir inn í Norðurljós, þ.e. Bónus og Baug og viðkomandi fyrirtæki, að setja yfir 80% af fjármagni sínu til auglýsinga inn í Norðurljós. Í því felst verðmætið. Í Frétt, sem gerði út Fréttablaðið, Fréttablaðið varð gjaldþrota, eru væntanlega ekki miklar eignir þannig að eign fyrirtækisins er viðskiptavild við Baug. Það er þannig sem þetta er.

Þeir láta þessa peninga þarna inn og síðan eru alls konar sögur í gangi um hvernig þetta er gert varðandi aðra viðskiptaaðila keðjunnar þar sem það er svona látið fylgja með, hillupláss gegn því að auglýsa í þessum miðlum. Þetta er staðan eins og hún er. Og það er verið að tala um Skjá 1, að þetta sé allt sniðið að því en ég held að það sé nú bara algjör della.

Þarna eru margar stöðvar sem mér hugnast afar vel og vildi náttúrlega endilega að þetta fyrirtæki lifði áfram þó svo að þessi lög yrðu sett, ég get ekki séð að það breyti miklu. Þar er t.d. Sýn sem er besta íþróttastöð í heiminum. Sá sem hér stendur hefur búið á nokkrum stöðum erlendis og hvergi komist í annan eins lúxus og að horfa á þá stöð þar sem margt er í boði, og margar aðrar stöðvar.

En hvað gerist svo? Hvernig beita menn fjölmiðlunum? Hvernig koma menn skilaboðum í gegnum fjölmiðlana til fólksins í landinu? Jú, einum fjölmiðlinum er dreift frítt inn á hvert heimili. Þar er náttúrlega hægt að setja skilaboð og það hefur svo sannarlega verið gert. Það var gert fyrir síðustu kosningar fyrir ári síðan og menn nota þetta.

Allir vita hvernig DV er gert út. Það væri gaman að sjá útgerðina á því blaði þegar sérfræðingar eru búnir að fara í gegnum auglýsingamagn og annað í því blaði, hvernig það á að geta gengið. Spá mín er sú að DV muni ekki verða langlíft, menn muni gefast upp á að borga með því eins og greinilega þarf að gera í dag.

Síðan er það sem menn hér, stjórnarandstæðingar, hafa verið að tala um og gagnrýna og það er varðandi stjórnarskrána, látlaust stjórnarskráin. Það er alveg sama hvaða lög eru sett í þessu ágæta húsi, það er alltaf verið að tala um að verið sé að brjóta stjórnarskrána. Og það er verið að tala um eignarréttinn, að þetta sé svona og hinsegin. Það er eins og menn séu ekki búnir að fara yfir málið. Nú hafa verið gerðar tvær breytingar á frv. einmitt til að koma til móts við þetta atriði.

Ég er ekki að segja að frv., þegar það var lagt fram, hafi verið alveg fullkomið eða slíkt en með þessum breytingum held ég að það sé orðið (Gripið fram í: Fullkomið?) ekki segi ég að það sé fullkomið en alla vega ágætt.

Stjórnarandstæðingar segja flestir að það þurfi meiri tíma, það þarf meiri tíma í allt. Það er alveg einkennilegt og það er fólk sem ekki getur tekið ákvarðanir sem talar svoleiðis, það þarf meiri tíma í alla hluti. Og það þarf nefndir og það þarf þetta og það þarf hitt. Það eru svokallaðir umræðupólitíkusar sem tala þannig. Það gengur lítið undan slíku fólki.

Auðvitað er búið að undirbúa þetta mál. Það hefur verið nefnd að störfum til að taka út fjölmiðlamál á Íslandi og síðan var frv. samið í framhaldi af þeirri skýrslu. Auðvitað verður að taka á málinu og höggva á hnútinn. Það er hægt að velkjast með það eins og menn gera með sum mál og svo gerist ekkert. En hérna verða menn að taka ákvörðun og það var gert og síðan er verið að gagnrýna það.

[21:45]

Mér þykir mjög merkilegt að heyra hvernig Samf. talar í þessu máli, þessu er einhvern veginn öllu snúið við. Nú er það Sjálfstfl. sem er að reyna að setja hömlur á hluti og Samf. talar fyrir algjöru frelsi í öllum málum. Þessu er öllu orðið snúið við í dag í íslenskri pólitík.

Eru það kannski aðrir hagsmunir sem ráða, er eitthvað annað á bak við? (Gripið fram í: Hverjir gætu þeir verið?) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur átt viðskipti við þessa menn á netinu og við getum sagt að það hafi verið snörp orðaskipti. Síðan hafa menn fallist í faðma. Og ef það vefst fyrir nokkrum --- ég var kannski einn af þessum efasemdarmönnum í byrjun en eftir að frv. kom fram og ég hef séð hvernig fjölmiðlunum hefur verið beitt látlaust segir maður við sjálfan sig: Það er fyllilega réttlætanlegt að setja þessi lög.

Þetta var líka gert fyrir ári. Í kosningunum var öllu beitt af fullu afli, allt saman skipulagt.

Hvernig var það svo í kosningunum 1999? Þá var þessi fjölmiðlarisi að vísu ekki til en þá beittu menn svona aðferðum gegn hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímssyni þegar menn níddu af honum skóinn. Það er kannski óskylt þessu máli.

Eigendur slíkra fjölmiðla geta beitt þessu af fullu afli ef þeirra er viljinn. Menn hafa komið hér og svarið af sér nokkur áhrif frá eigendum yfir í ritstjóra, frá ritstjóra yfir í blaðamenn, allt saman hvítþvegið og sárasaklaust.

Hver trúir þessum ósköpum? Þingmenn Samf. hafa verið að ræða þetta á þessum nótum. (Gripið fram í.) Það er alveg ótrúlegt.

Síðan komum við að Vinstri grænum sem allt í einu eru orðnir talsmenn þess eða allt að því, að vísu ekki allir, en þeir vilja engu breyta og þeir vilja nú skoða málin. Maður spyr sjálfan sig: Vilja þeir hafa þessa samþjöppun á fjölmiðlamarkaðnum, vilja þeir það? Maður spyr sjálfan sig að þessu. Það var mjög merkilegt að hlusta á ræður hv. þingmanna, sumra hverra, eins og oddvita þeirra sem hér missti kveikinn af sprengjunni heldur langt sem sprakk hér í loft upp í þessum stól. Alveg ótrúlegt mál.

Ég tel að þessi lög verði til bóta. Maður veltir vöngum við sjálfan sig: Bíddu nú við, það er búið að breyta þessu þannig að nú geta ráðandi aðilar á markaði átt 5% í þessu fyrirtæki. Ég spurði einn af forsvarsmönnum þess ágæta fyrirtækis: Ef það væru 25%, eða 20%? Jú, hann hélt að það kannski mundi sleppa þá.

Hvar eru prinsippin í þessu máli?

Ég tel afar hættulegt ef einn aðili er farinn að ráða yfir 50% af fjölmiðlum á Íslandi. Hann getur komið áróðri sínum og áherslum til landsmanna tiltölulega auðveldlega. Því stærri sem hann er og öflugri þar sem hann lætur alla sína peninga til auglýsinga ganga í gegnum þetta því betur fúnkerar kerfið áfram. Það er það sem er hættulegt.

Ef maður kíkir á önnur lönd, virðulegi forseti, eins og hérna var farið yfir í ritinu með frv., t.d. Bretland, Frakkland, Bandaríkin, Norðurlöndin, er þetta misjafnt. Sums staðar er tekið á þessu í samkeppnislögum, annars staðar með markaðshlutdeild o.s.frv. Sums staðar eru þessi lög mjög stíf.

Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi ekki að vera of stífir. Með þessum lögum held ég líka að þetta sé tiltölulega opið. Enginn bannar Baugi að eiga 5% og hinum 5%. Menn geta verið þátttakendur í fjölmiðlarekstri ef menn hafa til þess áhuga og halda að það beri sig. Ég held að við verðum að tryggja það þannig að sem flestir geti komið að þessu þannig að fjölmiðlarekstur beri sig, allur rekstur á að bera sig.

Virðulegi forseti. Nú förum við að nálgast lokin á þessu máli og þá kemur næsta málið. Það er mjög merkilegt að fylgjast með fjölmiðlum og hvað forseti Íslands á að gera. Öll sú umræða hefur að mínu mati ekki verið neinum til sóma.

Það er mjög merkilegt að sjá hvernig þessir ágætu fjölmiðlar hafa unnið. Það var kynt undir varðandi forsetann og neitunarvaldið og allt þetta, ef hann neitaði að skrifa undir og málinu yrði skotið til dóms þjóðarinnar, í 3--4 daga og síðan var gerð skoðanakönnun. Þá var sagt að 80% væru með því að frv. færi í þjóðaratkvæði.

Svona geta menn haft skoðanamyndandi áhrif á fólk og það er nákvæmlega það sem er gert með þessum fjölmiðlum.

Þetta er svolítið skrýtið. Ég get talað um þessa menn sem að þessu ágæta fyrirtæki standa, eins og Jóhannes í Bónus, mikinn dugnaðarmann sem maður hefur borið virðingu fyrir lengi, frá því að maður þekkti hann fyrst þegar hann vann hjá Sláturfélaginu í Hafnarstrætinu, matardeildinni, og síðan í Háaleitinu. Síðan byrjaði hann með Bónus. Hann var að berjast við þá stóru, hann barðist við Sambandið. Hann var lítill og hann barðist við Hagkaup. Þeir feðgar voru duglegir og eignuðust síðan Hagkaup öllum að óvörum.

Núna allt í einu eru þeir komnir í stöðu eins og þeir börðust við í gamla daga, nú eru þeir svipaðir og Sambandið. Þeir ráða yfir öllu og það má varla nokkur maður hreyfa sig í viðskiptum nema þeir séu samþykkir þeim. Það er merkilegt hvernig endaskipti geta orðið í lífinu. Þetta eru samt harðduglegir menn og ég tek hattinn ofan fyrir þeim en mér hugnast ekki það sem er verið að gera hér með þetta fyrirtæki. Ég held að þessi lög geti komið í veg fyrir þá misnotkun sem hefur átt sér stað í þessum fjölmiðlum að undanförnu og styð það í því formi sem það er í núna með þessum tveimur breytingum sem hafa verið gerðar.

Núna er sem sagt umræðan komin út í fjölmiðlunina varðandi forsetann. Verið er að setja þrýsting á forsetann. Ég var að hlusta á útsendingu sjónvarps áðan þar sem var verið að ræða við menn og hann var látinn vita af því, forsetinn, að ef hann mundi ekki neita að skrifa undir fengi hann lélega kosningu í forsetakosningunum. Mjög óviðeigandi en þetta var að vísu einn af stuðningsmönnum hans.

Svona er umræðan orðin í þessu máli. Þegar það verður afgreitt héðan úr þinginu byrjar sem sagt pressan á forsetann. Mér dettur ekki annað í hug en að hann skrifi undir þessi lög.

Til að stytta umræðuna svo að við getum lokið þessu hérna í kvöld og nótt og tekið til við næsta mál --- þetta er eitt mest rædda mál síðan ég kom í þingsalinn fyrir fimm árum, meira en var í öllum virkjunarmálum og öllu slíku. Það er ágætt að menn fari að vængja sig í ræðustól þingsins og tjái sig. Ég held að margar ræður hafi verið ágætar en sumar náttúrlega litaðar af einhverju öðru. Stjórnarandstaðan almennt er á móti þessu, bæði Frjálsl. og Vinstri grænir og ég tala nú ekki um Samf., það er eins og menn séu bara að verja þar heimavöll, alveg ótrúlegt. Að vísu taldi einn virðulegur hv. þm., Lúðvík Bergvinsson, rétt að það ætti að huga að því að setja lög um fjölmiðla á Íslandi, taldi varla hægt að komast hjá því en spurningin væri hvort það yrði gert með þessum hætti eða einhverjum öðrum. Það verð ég að segja. Menn eru að byrja að tala sig í það í ræðunum til að geta sagst hafa sagt það. Það stefnir allt í sömu áttina, smám saman tala menn sig inn á sömu línu og er í þessu frv.

Ég ætla að ljúka máli mínu, virðulegi forseti, og ég vonast til að þetta mál verði afgreitt hið fyrsta og við getum farið að snúa okkur að öðrum verkefnum hér í þinginu.