Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 21:58:38 (8775)

2004-05-21 21:58:38# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[21:58]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að Samkeppnisstofnun og samkeppnislög eigi að búa yfir úrræðum til þess að hægt sé, ef menn telja þörf á því, að skipta upp fyrirtækjum sem hafa orðið ítrekað uppvís að því að misnota markaðsráðandi stöðu sína. Ég tel að það eigi ekki að gilda einvörðungu um matvörukeðjur eða fjölmiðla, heldur öll fyrirtæki.

Nú túlka ég reyndar úrskurð samkeppnisráðs um Landssímann, sem fjallaði um breiðband árið 1999, með þeim hætti að samkeppnisráð telji sig búa yfir slíkum úrræðum. Ég held að það sé ákaflega þarft. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að taka eina einstaka atvinnugrein út, heldur eigi að gilda almennar reglur um allt atvinnulíf. Þetta höfum við margsinnis sagt.

Ég er líka sammála hv. þingmanni um að heimavöllurinn þurfi að vera traustur. En er það svo í þessu tilviki? Er ekki verið að hrekja fyrirtæki úr landi?