Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 22:05:59 (8781)

2004-05-21 22:05:59# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[22:05]

Einar Karl Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Birgissyni sérstaklega fyrir að staðfesta að öll okkar umræða hefur ekki verið til einskis. Hann kemur hér upp og staðfestir að tilgangurinn með þessu frv. sé að koma í veg fyrir það sem hann telur vera misnotkun á fjölmiðlum sem eru að hluta til í eigu Baugs í dag. Þeim hafi verið beitt gegn Davíð Oddssyni, segir hann, og þá sé komin ástæðan fyrir að setja lög til að brjóta upp þetta fjölmiðlafyrirtæki og stöðva gagnrýnina. Ritskoðunartilhneigingin sem hér hefur svifið yfir vötnunum kemur mjög greinilega fram í máli þingmannsins.

Síðan vil ég mótmæla þeirri staðhæfingu hv. þm. að við í stjórnarandstöðunni og í Samf. höfum ekki verið inni á því að setja almenn lög um fjölmiðla. Við höfum látlaust bent á aðrar vægari og skynsamlegri leiðir í þessu máli sem hægt væri að fara.