Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 22:11:32 (8786)

2004-05-21 22:11:32# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[22:11]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt til að svara spurningu hv. þm. þá er það alls ekki svo að leysa eigi upp Norðurljós. Frv. er til að styrkja Norðurljós, til að auka eignaraðild að fyrirtækinu.

Ég ber það til baka, og það fer í taugarnar á mér að slíkt komi frá ráðvöndum krötum sunnan með sjó, að ég hafi sagt að Norðurljós væri vont fyrirtæki og að Baugur væri vont fyrirtæki. Það er alls ekki rétt. Ég held að hv. þm. hafi dottið á höfuðið. Ég þekki hann ekki að slíkum fullyrðingum.

Þessi lög eru almenn en það eru ekki mörg fyrirtæki á markaðnum. Þar eru Baugur og Skjár 1, þar er Mogginn. Mogginn hefur haldið sínu og þeir hafa ekki farið í svona æfingar. Þetta er samþjöppun dagblaða, ljósvakamiðla, sjónvarps og útvarps og allra hluta. Það er verið að setja almenn lög. Þótt þetta fyrirtæki sé til núna þá getur það verið í öðru formi eftir fimm eða tíu ár.