Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 23:52:44 (8796)

2004-05-21 23:52:44# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JGunn (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[23:52]

Jón Gunnarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir ræðumenn á undan mér óska eftir því að fundi verði frestað og málið tekið fyrir aftur í fyrramálið þannig að við mætum fersk og hress til starfa. Hér kom fram, hjá þeim sem hóf þessa umræðu, hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, að klukkan væri að verða 12 og hann væri boðaður á fund landbn. kl. 9 í fyrramálið.

Samkvæmt 18. gr. þingskapa ákveður forseti í samráði við formenn fastanefnda fundatíma nefnda, starfsáætlun þeirra og starfshætti, að svo miklu leyti sem ekki er kveðið á um þá í þingsköpum. Það má ætla að forseti hafi eitthvað um það að segja hvenær fastanefndir þingsins funda. Þegar kvöldfundir standa langt fram eftir kvöldi er ekki óeðlilegt að maður velti því fyrir sér hvenær hæstv. forseti hafi hug á að fresta fundi, í samráði við formann landbn. vegna fundar nefndarinnar sem boðaður hefur verið kl. 9 í fyrramálið.

Hér á Íslandi gilda lög um hollustuhætti og aðbúnað á vinnustöðum. Ég geri mér grein fyrir því að þau lög gilda kannski ekki um okkur þingmenn. Ég kvarta a.m.k. ekki fyrir mína hönd og varla annarra galvaskra þingmanna sem enn þá sitja í salnum, yfir því að við þurfum að vinna eitthvað fram á nóttina. En ég hef áhyggjur af því, hæstv. forseti, hvernig er með starfsfólk Alþingis. Ég velti því fyrir mér að í 9. gr. þingskapa stendur að forseti ber ábyrgð á rekstri Alþingis. Hann hefur æðsta vald í stjórnsýslu þess. Því langar mig að inna hæstv. forseta eftir því hvort ekki sé örugglega gætt að því að það starfsfólk, sem hér starfar fyrir okkur og hefur gert til margra vikna og mánaða, njóti a.m.k. lögbundins hvíldartíma þótt slíkt gildi ekki um okkur þingmenn.

Ég hafði líka ætlað mér, hæstv. forseti, að eiga orðastað við ráðherra. Ég hafði ætlað mér að eiga orðastað við hæstv. menntmrh. því að útvarpslög heyra undir þann ágæta hæstv. ráðherra þótt við höfum ekki orðið mikið vör við það á undanförnum dögum. Ég verð að segja að það er svolítið undarlegt að standa í ræðustól og ætla að skiptast á skoðunum við þá sem bera fram þetta frv. þegar enginn þeirra sem að frv. standa er í salnum og hefur reyndar ekki verið lengi. Ég verð að óska eftir því við hæstv. forseta að hann reyni að draga þá sem koma beint að þessu máli, hv. formann allshn. og þann ráðherra sem óskað hefur verið eftir, út úr þessum myrka helli skoðanakúgunar Sjálfstfl. þar sem þeir hírast og draga inn í ljósið til okkar þannig að þeir geti notið ylsins og rökræðna við þá þingmenn sem hér eru.