Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 22. maí 2004, kl. 12:01:17 (8833)

2004-05-22 12:01:17# 130. lþ. 122.5 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 130. lþ.

[12:01]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsti þeirri skoðun fyrir nokkrum árum að ég teldi að Samkeppnisstofnun ætti að hafa úrræði í höndum til þess að brjóta upp ef þyrfti þegar markaðsráðandi fyrirtæki misneyttu þeirrar stöðu sinnar ítrekað. Þessari skoðun deila með mér hæstv. forsætisráðherra og Morgunblaðið. Ég hef ekki skipt um þá skoðun. Ég tel að það eigi að vera slík úrræði í gildi en þau eigi ekki bara að ganga gegn fjölmiðlum heldur eigi þetta að gilda um atvinnulífið almennt. Ef menn verða uppvísir að því að verða slíkir þrjótar að þeir misneyti ítrekað slíkrar stöðu þá á þetta að vera til staðar. Reyndar er það svo, þó að ég sjái merki þess að hv. þm. hefur greinilega ekki lesið fjölmiðlaskýrsluna, að þar er mikið fjallað um þetta og þar er vísað til þess að samkeppnisráð sjálft telur að það hafi nú í höndum þessi úrræði. Það eitt ætti því að geta dugað til þess að brjóta upp þessa fjölmiðlakeðju sem hv. þm. er með á heilanum.

Hv. þm. spyr síðan: Hvernig getur þetta leitt til varanlegrar ritskoðunar? Það var nú þannig að Stöð 2 var að verða gjaldþrota. Fréttablaðið var að verða gjaldþrota og DV var orðið gjaldþrota þegar þetta nýja fjármagn kom inn og hleypti þessum mikla krafti í fjölmiðlamarkaðinn sem hefur leitt til mikillar samkeppni og þar af leiðandi meiri pólitískrar og menningarlegrar fjölbreytni en áður. Ef þessir miðlar deyja eins og Sjálfstæðisflokkurinn vill og er meðvitað að reyna að knésetja þá mundum við standa frammi fyrir ástandi þar sem væri Ríkisútvarpið, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn ræður öllu og kemur meira að segja í veg fyrir að fólk sé ráðið þangað ef það er af röngu pólitísku sauðahúsi, einokar alla valdastóla og er innan RÚV með sterkara eigendavald en Baugur innan Norðurljósa. Svo hefðum við á hinn kantinn Morgunblaðið. Við þekkjum þetta ástand. Við í stjórnarandstöðunni vitum hvernig er að búa við það.