Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 22. maí 2004, kl. 12:05:42 (8835)

2004-05-22 12:05:42# 130. lþ. 122.5 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 130. lþ.

[12:05]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði ekki að Sjálfstæðisflokkurinn ritskoðaði fréttir fréttamanna eða stýrði penna þeirra eða höndum á takkaborði. En ég sagði: Sjálfstæðisflokkurinn einokar alla valdastóla innan Ríkisútvarpsins og hann gerir það meðvitað. Það ráðuneyti sem Sjálfstæðisflokkurinn sækir alltaf fyrst eftir þegar ríkisstjórnir eru myndaðar er menntamálaráðuneytið, til þess að geta raðað þar í stjórnunarstöður sínum mönnum. Það liggur fyrir að við búum við það sérkennilega ástand sem hefur verið átalið af Evrópuráðinu að um ráðningar fréttamanna er fjallað af pólitískum meiri hluta sem er undir stjórn flokks þess sem hv. þm. tilheyrir.

Rök hv. þm. eru svona: ,,Það þarf að lima sundur of stór fjölmiðlafyrirtæki vegna þess að eigendur þeirra geta smitað valdi sínu í gegnum ritstjórnarstefnuna.`` Ef þetta er rétt þá hlýtur það líka að gilda um Ríkisútvarp þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er með ægivald á öllu. Það er hins vegar þannig að innan Ríkisútvarpsins hafa menn sett sér ákveðnar siðareglur og væntanlega fylgja þeim eftir. Ég gæti sagt svo sem hv. þm. og þingheimi ýmsar sorglegar sögur af samskiptum mínum og þess ágæta fyrirtækis. En það er bara mitt mál sem ég ætla ekki að tefja hv. þingmann með. Ég er ekki að halda því fram að þar sé ritskoðun. En ég er bara að halda því fram að ef þessi rök hv. þm. gilda um Norðurljós þá hljóta þau líka að gilda um Ríkisútvarpið og samkvæmt (Gripið fram í: Gefumst ekki upp.) röksemdafærslu hv. þingmanns ætti Ríkisútvarpið að vera undir pólitísku oki Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í.) Sem betur fer birtist það ekki í faglegum efnistökum fréttamannanna. Með sama hætti er ég þeirrar skoðunar að eigendavaldið birtist ekki í faglegum tökum blaðamanna Norðurljósa. En upp getur komið sú staða að eigendur hafi of mikil tök. (Gripið fram í.) Það er þess vegna sem Samfylkingin hefur lagt fram fjórar hugmyndir. Þær eru ekki fullkomnar en þær ganga miklu betur til þess að ná markmiðum frumvarpsins sem þið hafið lagt fram og eru auðvitað bara til þess að mola lappirnar undan Norðurljósum eins og hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) kom glögglega fram með.