Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 22. maí 2004, kl. 12:08:15 (8836)

2004-05-22 12:08:15# 130. lþ. 122.5 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 130. lþ.

[12:08]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé mig tilknúinn til þess að koma hér upp vegna þess (Gripið fram í: Gott að þú ert ...) að ég tel að hv. þm. sem hér talaði hafi alveg verið kominn í fullkominn hring í röksemdafærslu sinni. Hann reyndi hér að færa fyrir því rök að þegar hæstv. menntamálaráðherra tæki dæmi frá útlöndum af þeirri hættu sem stafaði af of mikilli samþjöppun í fjölmiðlun eða á eignarhaldi á fjölmiðlafyrirtækjum þá væri það ritskoðun. Næst hélt hv. þm. áfram að fjalla um sínar skoðanir á þessum málum og lýsti yfir miklum áhyggjum af því af þeim hættum sem stöfuðu af þeim sömu atriðum og menntamálaráðherra fjallaði um. Hann sagði að hætturnar væru einkum tvenns konar, í fyrsta lagi að eigendur gætu samrýmt ritstjórnarstefnu sína, samrýmt ritstjórnarstefnu allra sinna fjölmiðla þannig að fjölmiðlunum yrði misbeitt í þágu ákveðins málstaðar. Hvað var hæstv. menntamálaráðherra annað að gera en að taka nákvæmlega þetta sama dæmi? Þetta var nákvæmlega sama dæmið og hv. þm. sjálfur getur tekið án þess að það teljist ritskoðun þegar hann hér stendur í ræðustól. Staðreyndin er nefnilega sú að menntamálaráðherra og hv. þingmaður voru að tala um nákvæmlega sama hlutinn.

Hitt atriðið sem ég vildi gera athugasemd við er umræðan um Samkeppnisstofnun sem hv. þm. kom inn á. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvað Samfylkingin á við þegar talað er um að styrkja þurfi Samkeppnisstofnun vegna þeirrar hættu sem stafar af of mikilli samþjöppun á þessu sviði. Hvað er átt við? Vantar Samkeppnisstofnun einhver tæki eða tól til þess að bregðast við stöðunni? Hafa þingmenn Samfylkingarinnar, virðulegi forseti, einhverjar áhyggjur af stöðunni yfir höfuð eins og hún er í dag?