Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 22. maí 2004, kl. 12:14:58 (8839)

2004-05-22 12:14:58# 130. lþ. 122.5 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 130. lþ.

[12:14]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég sé að hv. þm. er sennilega illa nývaknaður. Mér sýndist það á honum. Hann er eitthvað pirraður yfir frammíköllum. Ég ætla samt að reyna að svara því sem hv. þm. var að spyrja mig um.

Ég verð að viðurkenna að ég skildi ekki alveg spurningarnar en mér fannst hann vera að spyrja mig um hvenær Samfylkingin mundi hafa áhyggjur af samþjöppun í eignarhaldi. Hún hefur, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir árið 2000, áhyggjur af því að samþjöppun í eignarhaldi geti til lengri tíma litið haft óæskileg áhrif. Þess vegna hefur hún lagt fram fjórar hugmyndir um það hvernig eigi að bægja þeim hættum frá. Forsenda frumvarpsins var hins vegar lögð í fjölmiðlaskýrslunni. Þar var einfaldlega sagt að kanna ætti markaðinn með tilliti til fjölbreytni (Gripið fram í.) og kanna hvernig ætti að grípa inn í ef í ljós komi að samþjöppunin á markaðnum væri farin að hafa óæskileg áhrif á fjölbreytni.

Nú spyr ég hv. þingmann og aðra hv. þm.: Geta þeir fundið eitt dæmi í skýrslu nefndarinnar um að samþjöppun í eignarhaldi haft haft óæskileg áhrif á fjölbreytnina í fjölmiðlun á Íslandi? Nei, þeir geta það ekki. Það liggur þvert á móti fyrir yfirlýsing formanns nefndarinnar um að einmitt fjölmiðlarnir sem tilheyra því fyrirtæki sem Sjálfstæðisflokkurinn vill knésetja út af einhverjum persónulegum dyntum hæstv. forsætisráðherra eru undirrót þessarar hörðu samkeppni og miklu fjölbreytni sem þar ríkir í dag. Við í Samfylkingunni erum hins vegar að reyna að skyggnast inn í framtíðina og sjá fyrir vandamál sem kunna að koma upp. Það er þess vegna sem við erum að leggja þetta til.

Um Samkeppnisstofnun segi ég svo þetta: Setjum samkeppnislög sem ná ekki bara yfir fjölmiðla heldur öll þau fyrirtæki sem beita markaðsráðandi stöðu ítrekað (BjarnB: Ég hélt það væri búið að því.) til þess að misnota stöðu sína. Grípum til þeirra úrræða sem formaður Samfylkingarinnar, hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra og ýmsir fleiri hafa lagt til, reyndar hæstv. dómsmálaráðherra líka.