Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 22. maí 2004, kl. 12:32:15 (8841)

2004-05-22 12:32:15# 130. lþ. 122.5 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KolH
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 130. lþ.

[12:32]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Við lok þessarar umræðu er rétt að fara í örfáum orðum yfir afstöðu hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem komið hefur fram í málefnalegum ræðum sem haldnar hafa verið hér við 1., 2. og nú 3. umr. þessa máls. Við höfum haft algerlega skýran málflutning uppi í þessari orðræðu hér. Við höfum ævinlega talið fjölmiðlana gegna veigamiklu hlutverki í lýðræðislegri umræðu í landinu. Við teljum þá vera og eiga að vera vettvang ólíkra viðhorfa til stjórnmála jafnt sem þjóðmála. Við teljum fjölmiðlana hafa mikilvægu menningarlegu hlutverki að gegna í samfélaginu. Við höfum ævinlega talað fyrir því að það þurfi að tryggja frjóan jarðveg fyrir fjölbreytta umræðu og fyrir fjölbreytt dagskrárframboð í íslenskum fjölmiðlum. Ekki síst höfum við lagt áherslu á þörfina fyrir kraftmikla íslenska dagskrárgerð. Við höfum ævinlega undirstrikað mikilvægi Ríkisútvarpsins í flóru fjölmiðla á Íslandi. Við teljum að öflugt Ríkisútvarp þurfi að vera til staðar á þessum markaði sem hafi lagalegum skyldum að gegna umfram aðra fjölmiðla. Bæði í menningarlegu og lýðræðislegu tilliti er þetta mikilvægt.

Við höfum hins vegar ævinlega verið reiðubúin til að skoða möguleikana á því að settar verði reglur eða lög um starfsumhverfi fjölmiðla, reglur sem tryggja mundu ákveðna þætti í þessum efnum. Til marks um það er þingsályktunartillaga sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hafði forgöngu um að flutt yrði hér fyrr í vetur. Við höfum ævinlega líka, frú forseti, hafnað þeim aðferðum sem beitt hefur verið við framlagningu þessa frv. Þær eru forkastanlegar og hafa alls ekki verið til eftirbreytni. Við höfum mótmælt því á öllum stigum hvernig hæstv. forsrh. hefur beitt óbilgjörnum aðferðum og beinlínis haft uppi tilburði, eftir því sem við höfum sagt, til að ritstýra umræðunni. Hann setti upphaflega á umræðuna lok þegar ekki var heimiluð umræða um skýrslu fjölmiðlanefndarinnar. Hún fékk ekki að líta dagsljósið fyrr en búið var að semja flausturslegt frv. sem lýsti vilja hæstv. forsrh. í þessum málum. Þetta er svo ámælisvert, þetta eru svo ámælisverðar aðferðir við að hefta lýðræðislega umræðu að það tekur ekki nokkru tali. Þessar óbilgjörnu aðferðir hafa auðvitað orðið til þess að súrefni hefur skort í þessa umræðu. Möguleikar okkar á að takast málefnalega á um ákveðna þætti hennar hafa ekki verið til staðar.

Við höfum ekkert fjallað enn þá um þessa nýju miðla, um nýja tækni í fjölmiðlun. Við höfum ekki talað um hvað eigi að tryggja það að fjölbreytt efni sé til staðar á ljósvakanum, að mismunandi stjórnmálalegar og menningarlegar skoðanir komist þar að. Við höfum ekkert fjallað um þá erlendu samkeppni sem íslenskir fjölmiðlar standa í nú um stundir. Við höfum heldur ekki fjallað um mátt auglýsenda eða áhrif þeirra á dagskrárgerð, og þá ekki hvað síst í Ríkisútvarpinu. Þegar ég segi ekkert fjallað um þetta er ég auðvitað fyrst og fremst að segja að við höfum ekki fengið neina svörun við þessum þáttum. Auðvitað hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar reynt að draga þá inn í umræðuna. Þeir fá hins vegar engin svör því hæstv. ráðherrar hafa ekki sést hér við umræðuna. Ég held að ég fari ekki með neitt fleipur þegar ég segi að hæstv. menntmrh. hafi ekki flutt eina einustu ræðu (Gripið fram í: Nei.) í þessu máli. Það hefur hæstv. viðskrh. ekki heldur gert og ekki hæstv. samgrh. Heyra þessi mál þó verulega undir málasvið þessara þriggja ráðherra. Þau hafa lítilsvirt umræðuna með því að vera ekki viðstödd og taka ekki þátt í henni. Það er þetta sem ég á við þegar ég segi að súrefni skorti í umræðuna. Jafnframt skortir hér skoðanaskipti stjórnarandstöðu og stjórnarþingmanna.

Þar að auki og þess utan hefur umræðan í samfélaginu öll litast af gerræði hæstv. forsrh. sem hefur verið stutt af Framsfl. og stjórnarþingmönnum, bæði Framsfl. og Sjálfstfl. hér.

Við stjórnarandstæðingar höfum heldur ekki fengið svör í umræðunni við tilboðum okkar um að fá umræðu um Ríkisútvarpið vegna yfirlýsinga forkólfa ríkisstjórnarinnar varðandi það, afnotagjöld þess og stöðu á auglýsingamarkaði.

Síðast en ekki síst, frú forseti, vil ég nefna vísindarannsóknir, fjölmiðlarannsóknir. Við höfum ekki getað náð upp skoðanaskiptum við stjórnarþingmenn um mikilvægi fjölmiðlarannsókna sem þó hljóta að vera upphaf og endir þess að búa til vitræna löggjöf um fjölmiðlamarkaðinn og fjölmiðlaflóruna.

Frú forseti. Enn þá hafa ekki komið svör frá hæstv. ríkisstjórn um það hvers vegna ekki mátti gefa það svigrúm sem ég hér hef farið yfir og óskað eftir að væri til staðar. Engin svör. Engin rök.

Hvað fær svo ríkisstjórnin í höfuðið fyrir óbilgirnina og offorsið? Jú, fjöldafund á Austurvelli þar sem ríkisstjórninni eru veitt rauð spjöld fyrir frammistöðuna, og skoðanakönnun eins og birtist í fjölmiðlum í morgun. Ég spyr: Eru hv. stjórnarliðar í þessum sal ánægðir með frammistöðuna? Og ánægðir með það hvernig öllu hefur verið hleypt í uppnám í samfélaginu bara af því að óbilgirnin var látin ráða för?

Ég segi að lokum, frú forseti, og það á við um ríkisstjórnina alla og þá fylgisveina hennar sem hér í þessum sal hafa setið: Svo liggur hver sem hann hefur um sig búið.