Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 13:32:13 (8846)

2004-05-24 13:32:13# 130. lþ. 123.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BH (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 130. lþ.

[13:32]

Bryndís Hlöðversdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Samf. segir þvert nei við því máli sem hér eru greidd atkvæði um. Ríkisstjórnin ræðst freklega fram í skjóli valds síns á svið sem er svo afar viðkvæmt og snertir tjáningarfrelsið og fleiri af okkar helgustu mannréttindum, enda hefur málið leitt til harðvítugra deilna í þjóðfélaginu um stjórnarskrá, um EES-reglur og um tilvist sjálfs forsetaembættisins.

Virðulegi forseti. Allt bendir til að málið þurfi frekari skoðunar við af hálfu ríkisstjórnarinnar og það er ekkert sem réttlætir þá fljótaskrift og þau hraksmánarlegu vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í málinu. Samf. hvetur þingheim til að hafna þessu máli. Frv. hefur ekki fengið þá skoðun sem sæmandi er í jafnviðurhlutamiklu máli og hér er á ferðinni og engin þeirra breytingartillagna sem ríkisstjórnin hefur lagt fram breytir nokkru um það sem máli skiptir sem er að verði frv. að lögum mun það að öllum líkindum leiða til fábreytni í stað aukinnar fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði og ganga þannig þvert gegn markmiðum sínum. Það brýtur að öllum líkindum í bága við stjórnarskrá lýðveldisins og EES-reglur. Málið er sértækt og því er beint gegn umfjöllun eins tiltekins fjölmiðlafyrirtækis.

Hér er um að ræða atlögu að tjáningarfrelsinu og tilraun Sjálfstfl. og Framsfl. til þess að koma á opinberri ritskoðun. Samf. vill sjá skýrar leikreglur á fjölmiðlavettvangi og hefur lagt fram hugmyndir sínar þar um. Þær byggjast á meðalhófi og að ekki sé gengið lengra en þörf krefur í íhlutun í málefni fjölmiðlanna. Ásamt sterku aðhaldi Samkeppnisstofnunar eru gagnsæi í eignarhaldi, vernd heimildarmanna, sjálfstæði ritstjórna og sjálfstætt almenningsútvarp brýnustu verkefnin. Frv. ríkisstjórnarinnar getur aldrei orðið grundvöllur góðrar lagasetningar um lýðræði og tjáningarfrelsi. Samf. segir því þvert nei við frv.