Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 13:34:30 (8847)

2004-05-24 13:34:30# 130. lþ. 123.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 130. lþ.

[13:34]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ferill þessa máls er einhver sá dapurlegasti sem þingsagan á seinni áratugum geymir. Mikilvægt viðfangsefni sem fyrir fram var öll ástæða til að ætla að þokkaleg samstaða gæti tekist um innan þings og utan, þ.e. að setja skynsamlegar, raunhæfar og sanngjarnar reglur og eftir atvikum binda í lög til að tryggja fjölbreytta, óháða og öfluga fjölmiðlun í landinu. Þetta viðfangsefni, þetta mál lenti í gíslingu valdhroka og offors formanna stjórnarflokkanna og var að óþörfu gert að illvígu og hatrömmu deilumáli.

Vinnubrögðin fá falleinkunn, málatilbúnaðurinn og innihaldið fá falleinkunn, hrossakaup og yfirgangur formanna stjórnarflokkanna, hæstv. ráðherra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, ganga hvor tveggja fram af þjóðinni og það er ömurlegt að sjá fótgönguliðana koma járnaða í bak og fyrir þannig að hriktir í hlekkjunum og hringlar í þeim og greiða þessu atkvæði.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur frá upphafi hafnað þessum málatilbúnaði. Við höfnum því að vera í liði með einum eða öðrum. Hvorki síamstvíburar íslenskra stjórnmála, hæstv. ráðherrar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, né fyrirtækin Baugur eða Norðurljós munu hrekja okkur af leið í því að nálgast málið í samræmi við mikilvægi þess á yfirveguðum og málefnalegum nótum. Við höfum verið og við erum tilbúin til aðgerða í því skyni að ná fram markmiðum um fjölbreytta og öfluga fjölmiðlun en við viljum taka þar heildstætt á málum. Við viljum treysta stöðu Ríkisútvarpsins og gera það öflugra og óháðara stjórnvöldum. Við viljum gagnsæi eignarhalds á öllum fjölmiðlum. Við viljum endurskoða stjórnsýslu og eftirlit á þessu sviði og við höfum ekki hafnað því að setja takmarkandi reglur um eignarhald svo fremi sem þær séu sanngjarnar, ekki afturvirkar og raski ekki rekstrarlegum undirstöðum fjölmiðlafyrirtækja.

Loks viljum við síðast en ekki síst vinna að þessum hlutum í samstarfi við blaðamenn, fræðimenn og fjölmiðla. Við viljum gefa umræðunni eðlilegt svigrúm og tíma, vanda öll vinnubrögð og tryggja að það sem gert er samrýmist örugglega góðum stjórnsýslu- og lagasetningarvenjum. Þetta frv. er ótækt og öll vinnubrögð í kringum það óverjandi. Breytingartillögurnar nú enn einu sinni gera upphaflegu hrákasmíðina í sinni fjórðu útgáfu eða svo eftir sem áður óaðgengilega. Við munum sitja hjá við breytingartillögurnar en greiða atkvæði gegn frv. og mótmælum því og vinnubrögðunum kringum það harðlega.