Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 13:37:32 (8848)

2004-05-24 13:37:32# 130. lþ. 123.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 130. lþ.

[13:37]

Magnús Þór Hafsteinsson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Síðastliðið haust stóðu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og Frjálsl. ásamt Sjálfstfl. og Framsfl. að þáltill. Í henni var lagt til að Alþingi kysi nefnd skipaða af fulltrúum allra þingflokka sem m.a. skyldi kanna starfsskilyrði fjölmiðla og huga að því hvort þörf væri á lagasetningu eða öðrum aðgerðum til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlareksturs hér á landi. Starfið færi fram í samráði við hagsmunaaðila á borð við Blaðamannafélag Íslands og helstu fjölmiðla og samtök þeirra. Þvert á fyrri yfirlýsingar sem fólust í þeirri þáltill. ákváðu stjórnarflokkarnir að fara í þetta verkefni án samráðs við stjórnarandstöðuna og hagsmunaaðila. Niðurstaðan er svo þetta frv. hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. sem nú er til atkvæðagreiðslu, illa ígrundað frv. til laga um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum sem unnið er í trássi við meiri hluta þjóðarinnar sem hafnar frv.

Við í þingflokki Frjálsl. höfnum þessum vinnubrögðum og þessu frv. og segjum því nei.