Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 13:38:57 (8849)

2004-05-24 13:38:57# 130. lþ. 123.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjarnB (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 130. lþ.

[13:38]

Bjarni Benediktsson (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fjölmiðlar gegna afar mikilvægu hlutverki í okkar lýðræðislega þjóðfélagi og það hvílir á okkur sú skylda að bregðast við þeirri óæskilegu þróun sem allir stjórnmálaflokkar á Íslandi eru sammála um að hafi átt sér stað undanfarin ár. Við þurfum að tryggja að fjölmiðlar geti gegnt því hlutverki sem við ætlum þeim í samfélagi okkar, að þeir geti orðið vettvangur fyrir ólík viðhorf gagnvart stjórnmálum eða menningu og vettvangur fyrir upplýsingamiðlun.

Það frv. sem hér liggur fyrir hefur tekið breytingum í meðförum þingsins. Þar hefur verið komið til móts við ýmsar ábendingar sem þeir sem málið snertir hafa séð ástæðu til að koma að. Ýmis sjónarmið hafa leitt til þess að frv. hefur tekið breytingum.

Þannig liggur fyrir frv. sem hamlar gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunar á fjölmiðlamarkaði. Frv. mun til lengri tíma leiða til meiri fjölbreytni í fjölmiðlum en ekki fábreytni eins og þeir sem eru á móti málinu vilja halda fram. Á okkur hvílir sú skylda að bregðast við þeim aðstæðum sem upp eru komnar og við gerum þess vegna rétt í því að afgreiða frv. á þessu þingi með því að samþykkja það.