Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 13:53:09 (8856)

2004-05-24 13:53:09# 130. lþ. 123.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÁÓÁ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 130. lþ.

[13:53]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Herra forseti. Þingheimur mun senn gera mjög alvarleg mistök. Fjölmiðlafrv. er ekkert annað en viðbrögð við fréttaflutningi. Þetta staðfesta hæstv. ráðherrar sjálfir. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson talar um stríðsfyrirsagnir ákveðinna fjölmiðla og bendir fólki á að líta á blöðin máli sínu til stuðnings, hæstv. fjmrh. Geir Haarde talar um sjúklegan fréttaflutning þessara sömu fjölmiðla, hæstv. félmrh. Árni Magnússon veifar blöðum í pontu Alþingis og talar um að setja þurfi lög á þau, hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason talar um fjölmiðla sem skaprauni stjórnvöldum. Allar þessar réttlætingar ráðherra Sjálfstfl. og Framsfl. fyrir frv. bera vott um ritskoðun. Stjórnvöld eru einfaldlega að setja lög á fjölmiðla sem þeim mislíkar og þeirra eigin orð sanna það.

Herra forseti. Þetta er vont frv. sem verður að ólögum vegna óskiljanlegrar fylgispektar þingmanna Framsfl. og Sjálfstfl. sem margir hverjir kokgleyptu sína eigin sannfæringu um leið og þeir settust á þing. Ég segi nei.