Almennar stjórnmálaumræður

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 20:39:05 (8871)

2004-05-24 20:39:05# 130. lþ. 124.1 fundur 587#B almennar stjórnmálaumræður#, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 130. lþ.

[20:39]

Sigurjón Þórðarson:

Góðir landsmenn. Nú er liðið ár frá því að þreytt ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. ákvað að halda áfram stjórnarsetu sinni. Greinileg valdaþreyta er farin að hrjá stjórnarflokkana enda hafa þeir setið að völdum saman í níu ár og Sjálfstfl. enn lengur.

Greinilegt var að kosningaloforðin voru eitthvað sem flokkarnir vildu gleyma sem allra fyrst og brugðust ókvæða við ef þeir voru minntir á gefin loforð, svo sem um línu\-ívilnun, skattalækkanir, jarðgöng, stuðning til ungra öryrkja og margt fleira. Efndirnar hafa verið eftir því, línuívilnun í skötulíki, hækkaðar álögur á landsmenn, jarðgöngum slegið á frest og þeir sem urðu öryrkjar snemma á ævinni voru sviknir um 500 millj. þegar heilbrrh. Jón Kristjánsson ómerkti handsalað samkomulag við þá. Svo má minnast á það fyrst Halldór Ásgrímsson var að ræða um að efla heilbrigðiskerfið, ég veit ekki betur en að Landsspítali -- háskólasjúkrahús sé í sárum. Hefur maðurinn ekki frétt af því?

Ef við lítum til baka og skoðum verk ríkisstjórnarinnar þá getur hvert mannsbarn séð að helstu kraftar hennar hafa farið í að þjóna duttlungum vanstillts foringja í stað þess að einbeita sér að því að leysa úr vandamálum venjulegra Íslendinga. Íslensk heimili eru skuldsett og það ætti að vera forgangsverkefni hjá ábyrgri ríkisstjórn að einbeita sér að því að létta byrðarnar á heimilunum. Hefur ríkisstjórnin lagt vinnu í það? Nei, forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar var að hækka eftirlaun forsrh. eins og frægt er. Hefði ekki verið nær að skoða rækilega hvort almenningur fái að njóta í eðlilegum mæli mikils hagnaðar banka í lægri þjónustugjöldum og hvort ekki sé löngu tímabært að afleggja gamaldags ábyrgðarmannakerfi í bönkunum? Nei, það er ekki gert.

Mikið kappsmál var hjá foringjanum og þjónum hans í báðum flokkum að koma böndum á fjölmiðla sem fluttu óþægilegar fréttir af stjórnvöldum. Sú aðför var gerð undir yfirvarpi frelsisins, þess að verið væri að tryggja skoðanafrelsið í landinu. Hefði ekki verið nær fyrir ábyrg stjórnvöld að einbeita sér að því að taka á atvinnumálum, t.d. á Suðurnesjum og fólks sem komið er af léttasta skeiði? Nei, þeir einbeita sér ekki að því. Í stað þess fara þeir í aðgerðir sem geta beinlínis fækkað störfum.

Íslendingar verða að fara að gera upp við sig hvort þeir ætla að byggja þetta land eða ekki. Ef svo á að verða verður fólk á landsbyggðinni að fá að bjarga sér og til þess þarf að veita byggðunum atvinnuréttindi á ný.

Ríkisstjórnin skerti tjáningarfrelsið undir yfirvarpi frelsis. Sjávarbyggðirnar voru sviptar atvinnufrelsinu undir yfirskyni fiskverndar en árangur kvótakerfisins er enginn. Þorskaflinn nú er helmingi minni en fyrir daga kvótakerfisins og enn reyna stjórnarflokkarnir að tala um ábyrga stjórn á fiskveiðum. Framsóknarmenn geta ekki skotið sér undan ábyrgð á þessum óhæfuverkum með því að vísa til einhverra óljósra óánægjuradda innan þingliðsins. Þeir sem kusu stjórnarflokkana á landsbyggðinni verða að horfast í augu við þá staðreynd að stefna Framsfl. og Sjálfstfl. hefur reynst landsbyggðinni dýrkeypt. Ef fólk vill sjá breyttar áherslur verður það ekki gert innan stjórnarflokkanna, það er fullreynt.

Frjálslyndi flokkurinn veit sem er að unnt er að efla atvinnulíf á landsbyggðinni með skynsamlegri og sanngjarnari fiskveiðistjórn en nú er við lýði og leitar í smiðju Færeyinga eftir góðri leið að því marki. Þingmenn Frjálsl. hafa m.a. lagt til sanngjarna skattalækkun sem veitir launþegum rétt til að draga kostnað vegna ferðalaga til vinnu frá skatti. Tillagan mun án efa stækka atvinnusvæði og verða til aukinnar verðmætasköpunar fyrir þjóðarbúið.

Frjálslyndi flokkurinn trúir ekki á skyndilausnir heldur á að góðir hlutir gerist hægt. Við útilokum ekki að skoða aðild að Evrópusambandinu en teljum varhugavert að treysta á að öll mannanna mein lagist við það eitt að ganga í Evrópusambandið. Við höfum trú á að ef litið er í meira mæli til þarfa almennings í stað þröngra sérhagsmuna muni þjóðinni vegna enn betur. Þjóðin þarf á gagnsærri, lýðræðislegri ákvarðanatöku að halda þar sem hvorki Hæstiréttur er lítillækkaður með vafasamri mannaráðningu úr frændgarði forsrh. né embætti forseta Íslands með barnalegri lögspeki foringjans og félaga hans.

Ég þakka þeim sem hlýddu.