Almennar stjórnmálaumræður

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 20:44:00 (8872)

2004-05-24 20:44:00# 130. lþ. 124.1 fundur 587#B almennar stjórnmálaumræður#, MF
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 130. lþ.

[20:44]

Margrét Frímannsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast úr fjarlægð með umræðum um fjölmiðlafrv. sem í dag varð að lögum, horfa á forustumenn stjórnarflokkanna enn og aftur troða ofan í kokið á fylgismönnum ríkisstjórnarinnar máli og málsmeðferð sem sannarlega margir þeirra hv. þingmanna hafa mælt harkalega gegn á undanförnum árum. Ekki síst í kosningabaráttunni fyrir rúmu ári en þá komu fulltrúar Sjálfstfl. og Framsfl. fram fyrir ykkur kjósendur og töluðu um frelsi til athafna, virðingu fyrir stjórnarskrá og mannréttindum og forustumenn þessara flokka hvöttu athafnamenn til dáða. Frelsi var kjörorðið.

Hver man ekki eftir þessu? Nú ári seinna blasir hins vegar við að þetta er allt saman orðagjálfur eða eigum við að segja orðaleikur. Tökum til að mynda Framsfl. sem sagði: Fólk í fyrirrúmi, manneskjulegra þjóðfélag. Alveg rétt, þeir lugu engu þar um, en aðeins fyrir það fólk sem þeim er þóknanlegt. Sjálfstfl. með frelsið og minni ríkisafskipti og hvatningu til athafna manna og kvenna. Hvað stendur eftir? Frelsi fyrir kunningja og vini og öðrum er gert erfitt fyrir.

[20:45]

Ríkisafskipti hafa sjaldan verið meiri. Þeir eru bókstaflega með puttana alls staðar. Meira að segja átti að ganga frá heimild til að hlera heimilis- og vinnusíma fólks án dómsúrskurðar. Ríkisstjórnin afgreiddi lög sem gera suma útlendinga að annars flokks borgurum. Hún lagði fram frv. um fullnustu refsinga sem var svo vont að dómsmrh. var sendur með það aftur upp í ráðuneyti. Og þegar hæstv. dómsmrh. brýtur lög bregst hann við með því að kalla lögin vitlaus og gamaldags. Hæstv. dómsmrh. hefur alltaf verið vel að sér um vinnubrögð ráðamanna í fyrrum kommúnistaríkjum, góður lærisveinn sem hefur nú gert þau að sínum.

Hvað með athafnamennina og -konurnar? Jú, ef þau eru stjórnarherrunum þóknanleg. Öðrum er gert ókleift að vinna eða byggja upp fyrirtæki, jafnvel svo að menn íhuga að fara með starfsemi sína af landi vegna valdhroka ríkisstjórnarinnar. Valdið sem stjórnarflokkunum var trúað fyrir samkvæmt vilja meiri hluta þjóðarinnar í síðustu kosningum hefur verið gróflega misnotað, vegið að mannréttindum, lýðræði og frelsi. Hér ríkir að hluta til svipað andrúmsloft og á tímum McCarthys í Bandaríkjunum og í fyrrum kommúnistaríkjum.

Höfum í huga að frelsið og mannréttindin skerðast ekki allt í einu, hverfa ekki í einu vetfangi. Það gerist smám saman, hægt og hægt og yfirleitt án þess að við tökum sérstaklega eftir því. Smám saman eykst yfirgangur stjórnvalda, smám saman eykst ofbeldið og smám saman er grafið undan persónufrelsi, friðhelgi einkalífs og borgaralegum réttindum sem við höfum talið heilög.

Forustumenn ríkisstjórnarinnar segja: Annaðhvort ertu með mér eða á móti. Og þeir sem eru á móti, þeim er eins gott að vara sig. Hér ríkja ekki lýðræðislegir stjórnarhættir. Hér er einræði formanna stjórnarflokkanna. Umræða um mikilvæg mál fær ekki að þroskast á eðlilegan hátt. Hún fær ekki að þroskast í samfélaginu, mál eru ekki einu sinni rædd í þingflokkum stjórnarflokkanna eins og fram kom í viðtali við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson í Fréttablaðinu í gær. Hann segir að það sé aðeins um tilkynningar forustumanna að ræða, málamyndaafgreiðslur sem þingmenn verði að kyngja. Hann segir að með þessu sé verið að grafa undan lýðræðinu.

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í skoðanakönnunum að meiri hluti þjóðarinnar er andvígur því fjölmiðlafrumvarpi sem í dag var samþykkt á Alþingi. Óháð innihaldi þess er fólk fyrst og fremst að mótmæla vinnubrögðum, mótmæla misbeitingu valds, aðför að tjáningarfrelsi. Fólkið í landinu er að standa vörð um stjórnarskrána. Fólkið í landinu er að vakna til vitundar um þá valdníðslu og valdhroka sem einkennir stjórnarhætti þessarar ríkisstjórnar. Það vill breytingar. Þeir sem vilja breytingar eiga samleið með Samf.

Við munum berjast af hörku fyrir breyttum stjórnarháttum. Við ætlum að standa vörð um lýðræðið, við viljum sjá lýðræðislega rökræðu dafna. Við stöndum vörð um tjáningarfrelsið, við viljum sjá fjölmiðlana blómstra, líka þá sem gagnrýna stefnu okkar og verk. Við viljum sanngirni, réttlæti og jöfnuð fyrir þegna þessa þjóðfélags.

Góðir áheyrendur. Ég tel að brýnasta verkefni stjórnmálanna í dag sé að snúa af þeirri braut sem núverandi stjórnarflokkar hafa kosið að fara. Þeir misnota það vald sem mörg ykkar sem eruð að hlusta á okkur kusuð þá til að fara með. Ég spyr: Er þessum mönnum sjálfrátt? Eru þeir svo blindaðir af valdinu, hafa þeir fjarlægst svo fólkið í landinu að þeir skynja ekki lengur samtíma sinn, skynja ekki að sumt gerir maður ekki bara af því að maður hefur völdin?

Ég er í hjarta mínu viss um að ykkur, góðir áheyrendur, er ofboðið. Við viljum öll standa vörð um lýðræðið, um réttindi fólksins í landinu til þátttöku í mótun öflugs samfélags. Það er ykkar og okkar að veita ríkisstjórninni öflugt aðhald, beina stjórn landsins inn á manneskjulegri og umfram allt lýðræðislegri brautir. Þar eigum við samleið, þið og við í Samf. Við höfum verk að vinna.

Góðar stundir og gleðilegt sumar.