Almennar stjórnmálaumræður

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 21:10:09 (8876)

2004-05-24 21:10:09# 130. lþ. 124.1 fundur 587#B almennar stjórnmálaumræður#, GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 130. lþ.

[21:10]

Gunnar Örlygsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Það skal ekki flúið hvort í senn ofríki einstakra manna innan herbúða Sjálfstæðisflokksins né þann harm sem einkennir íslenskan landbúnað, íslenskan sjávarútveg og síðast en ekki síst þann viðsnúning sem orðið hefur á utanríkisstefnu þjóðarinnar.

Eina flóttaleiðin undan slíkum hörmungum eru verðandi alþingiskosningar á því herrans ári 2007. Margur kjósandinn sá til sólar með innkomu nýrra þingmanna og þeirrar miklu endurnýjunar sem varð á liði stjórnarliða í síðustu kosningum. En því miður virðist drifkraftur ekki fylgja þeirri endurnýjun. Þess í stað er lamandi óttinn allsráðandi. Hver og einn nýr þingmaður óttast um sínar heldri brækur og lætur djarfar hugsjónir frá síðasta ári fara lönd og leið. Göldrótt frumvörp eru keyrð í gegnum Alþingi Íslendinga. Það er líkt sem um dásefjun sé að ræða og við hin sem þekkjum ekki þennan ótta né búum við herstjórnaragann drögum hökuna langar leiðir. Allt er þetta með eindæmum og íslenskri þjóð til mikils vansa.

Það vill svo til að kjósandinn er fljótur að gleyma. Umdeildum ráðstjórnarfrumvörpum er skellt fram á fyrri hluta kjörtímabils svo að tryggja megi öfluga varðveislu valdsins þegar að næstu alþingiskosningum dregur. Á seinni hluta kjörtímabils er blásið til sóknar. Mildari og vinsælli frumvörpum er varpað fram og þau hafin upp til guðlegra verka. Fyrir næstu alþingiskosningar verður komin ró og stilla á landslýðinn. Allir hafa gleymt ráðstjórnarfrumvörpum fyrri ára og við tekur fjársöfnun pólitíkusa á bak við luktar hirslur stjórnarflokkanna. Þegar buddan bólgnar er farið á stúfana og hæfustu markaðs- og auglýsingarmanna leitað. Þeim er skipað í skjóli peningavaldsins að tryggja fallega, heiðarlega og glaðlega ímynd.

Þau kunna sitt fag í ríkisstjórninni, setja lög á fjölmiðla sem ekki vilja dansa eftir þeirra höfði og snúa höfðinu undan tillögum Frjálslynda flokksins um opið bókhald stjórnmálaflokka.

Sá sem hér stendur hefur oft og einatt gagnrýnt áherslur stjórnarflokkanna. Væntanlegar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar þar sem um flata prósentulækkun verður að ræða munu skila margfalt fleiri krónum í pyngju auðmanna en þeirra sem sárast þurfa við. Sjálfstæðisflokkurinn boðaði skattalækkanir sem draga munu saman tekjur ríkissjóðs um rúma 20 milljarða íslenskra króna á hverju ári. Að mínu mati væri skynsamlegra fyrir ríkisstjórnina í samvinnu við sveitarfélögin að bjóða ungum fjölskyldum gjaldfrjálsan leikskóla 12 mánuði á ári. Enn fremur væri hægt að koma til móts við eldri borgara, en flestir búa þeir við afar bág kjör.

Hér kemur gagnrýni mín á boðaðar framkvæmdir en ekki gerðar. Ég gagnrýni harðlega lög sem heyra undir fæðingar- og foreldraorlofssjóð feðra. Að svo komnu tel ég það rangt í þjóðhagslegum skilningi að hvetja unga feður að taka sér frí frá störfum í þrjá mánuði eftir fæðingu barna sinna. Ég er jafnréttissinnaður í hjarta mínu og vil veg og vanda dóttur minnar sem mestan. En ég er jafnframt upplýstur um þá staðreynd að móðirin gegnir mikilvægara umönnunarhlutverki en faðirinn á þeim tíma sem börnin eru að stíga sín fyrstu skref í lífinu. Því tel ég aðrar leiðir árangursríkari til að rétta við óréttlátan launamun kynjanna á íslenskum atvinnumarkaði.

Svokölluð fæðingarorlofslög kosta þjóðina fleiri milljarða íslenskra króna á ári. Ég tel rétt að slíkir fjármunir mundu nýtast betur til handa þeim sem óvænt missa atvinnu sína eftir margra ára heiðarleg og góð störf, til að mynda með greiðslu atvinnuleysisbóta þar sem fyrstu fjóra til sex mánuðina kæmi til tekjutenging á fyrri störf á meðan viðkomandi leituðu nýrra atvinnutækifæra.

Að mínu mati er atvinnustefnu núverandi stjórnarflokka mikið ábótavant. Fé til nýsköpunar er ekki í takt við þá öflugu þróun sem kemur af fjölgun háskólamenntaðra einstaklinga í landinu. Þúsundir langskólagenginna Íslendinga búa aldeilis ekki í landi tækifæranna. Um margt má líkja stefnu núverandi ríkisstjórnar við hættulegan perónisma en öllu hugsandi fólki er kunnugt um efnahagsleg afdrif argentínsku þjóðarinnar.

Takmarkanir eru algerar í stærstu atvinnuvegum þjóðarinnar og fátt um fína drætti er kemur að uppbyggingu iðnaðar í landinu ef frá er talin stóriðja. Ég tel brýnt fyrir ríkisstjórnina að hvati sé myndaður fyrir íslensk og erlend fjármálafyrirtæki, hvati sem eflir áhuga slíkra félaga til fjárfestingar í íslenskri nýsköpun. Það hlýtur að teljast til tækifæra fyrir íslenskan iðnað þegar einstök fjármálafyrirtæki hagnast um 4 milljarða íslenskra króna á einum ársfjórðungi. Mikilvægast er að íslensk stjórnvöld sofni ekki á verðinum þegar slík tækifæri líta dagsins ljós.

Góðir áheyrendur. Góðar stundir.