Almennar stjórnmálaumræður

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 21:28:08 (8879)

2004-05-24 21:28:08# 130. lþ. 124.1 fundur 587#B almennar stjórnmálaumræður#, SJS
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 130. lþ.

[21:28]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Vanitas vanitatum, omnia vanitas. Allt er hégómi, aumasti hégómi, segir predikarinn. Panta rei, eða allt streymir fram, er runnið frá gríska heimspekingnum Heraklítosi frá Efesos sem lifði 500 árum fyrir Krist. Þannig er hugsunin um að allt sé breytingum undirorpið, allt taki enda að lokum nema eilífðin sjálf, aldeilis ekki ný af nálinni.

Nú þegar Davíð Oddsson situr undir sínum síðustu eldhúsdagsumræðum sem forsrh. eftir rúm 13 ár á valdastóli, sem gerir það að verkum að fólk sem komið er með bílpróf man ekki aðra tíma, þá má segja að þetta hið fornkveðna eigi vel við. Og þá er spurningin: Eru endalokin að verða eins glæst og hæstv. forsrh. hafði hugsað sér? Ja, því getur hann einn svarað, en eitt er víst og það er að vanti eitthvað þar upp á er við hann sjálfan að sakast. Það er þá sjálfskaparvíti. Völdin hafa verið hans og hans er ábyrgðin á því hvernig með þau er farið.

Ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa verið valdboðsstjórnir og nú undir það síðasta meira en nokkru sinni. Formenn stjórnarflokkanna beggja, sem gamansamir teiknimyndasöguhöfundar telja meira og minna sama manninn, hafa foringja- eða formannavætt stjórnmálin og eru enn að. Leitun mun að jafnauðsveipum þingmeirihluta að baki stjórnarherrum og þeim sem nú sem labbar götuna. Þingið sjálft og þingræðið er veikara en löngum áður. Yfirgangur framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarvaldinu keyrir úr öllu hófi. Virðingarleysið við þessa stofnun, elstu stofnun Íslands, Alþingi sjálft, er algert, ráðherrar hunsa að mæta í þingsalinn, þeir svara ekki spurningum, embætti forseta Íslands liggur undir meiðingum, dómstólar eru áreittir og rændir starfsfriði. Og þjóðinni ofbýður.

[21:30]

Það þarf engar skoðanakannanir til að sannreyna það. Göngutúr hér um bæinn eða heimsóknir í nokkur fyrirtæki í landinu nægir hverjum þeim sem eitthvert pólitískt nef hefur til að skynja það. Og hvað er það sem mönnum ofbýður? Jú, mönnum ofbjóða m.a. vinnubrögðin í fjölmiðlamálinu, mönnum ofbýður stuðningurinn við Íraksstríðið, mönnum ofbjóða afturhaldssinnuð útlendingalög, mönnum ofbjóða embættisfærslur dómsmrh., mönnum ofbjóða afskipti forsrh. af embætti umboðsmanns Alþingis, mönnum ofbýður að náttúra landsins skuli vera á útsölu handa erlendum stórfyrirtækjum og mönnum ofbýður ekki síst viðhorf og viðmót og það hvernig menn fara með vald sitt.

Það sem við þurfum nú eru kosningar á morgun. Það væri raunverulegt lýðræði. Menn eru það sem þeir gera og það sem þeir standa fyrir í stjórnmálum en ekki það sem þeir lofa fyrir kosningar. Ef kosið yrði á morgun yrði kosið um raunveruleg verk ríkisstjórnarinnar, um fjölmiðlafrv., um niðurskurðinn á Landspítalanum, um svikin loforð um aðgerðir í þágu landsbyggðarinnar. Þá yrði kosið um reginhneykslin sem viðgangast við Kárahnjúka, þar sem svínað er á erlendum farandverkamönnum, þar sem menn án tilskilinna réttinda vinna við stórhættulegar aðstæður og þar sem náttúruspjöllin eru niðurgreidd með skattsvikum. Á morgun yrði kosið um ábyrgð Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar, síamstvíburanna í íslenskum stjórnmálum, á því sem er að gerast í Írak. Og það stoðar lítt, hæstv. utanrrh., að hlaupa hér í felur meðan stuðningsyfirlýsingin stendur og engin er afsökunarbeiðnin til íslensku þjóðarinnar.

Hvað yrði úr Framsókn ef kosið yrði á morgun? Þá er enginn tími til að hengja upp brosgrímurnar. Á þá að lofa 100% húsnæðislánum eða kannski 110% eins og í togarakaupunum í Færeyjum í gamla daga? Mundi Framsókn rúlla út öllum gömlu auglýsingunum og sýna þær alla kosninganóttina? Umskiptin yfir í brosleitan, söngelskan félagshyggjuflokk í stjórnarandstöðu yrðu þá ansi snögg.

Hvað með Sjálfstfl.? Mundi hann hækka skattalækkunarloforðin í 40 eða 50 milljarða? Og mundu þá hinir loforðaflokkarnir fylgja á eftir? Talandi um skattalækkanir, hvaða vit er í því að halda áfram undirbúningi undir tugmilljarða skattalækkanir? Efnahagslega er það óráð, allir hagfræðingar með einhverja glóru í kollinum ráða frá því. Þegar áhyggjuefnin eru viðskiptahalli, verðbólga og skuldasöfnun erlendis þá er augljóslega ekki rétti tíminn til að sleppa milljarðatugum út úr ríkissjóði og setja það fé í umferð. Þegar svo við bætist að hallarekstur blasir við á flestum heilbrigðisstofnunum landsins, þrátt fyrir grimmilegan niðurskurð, og flaggskipið sjálft, Landspítali -- háskólasjúkrahús er að segja upp fólki, loka deildum, draga úr þjónustu hvað sem talsmenn ríkisstjórnarinnar segja hér. Og skólarnir, hvað er rætt í skólunum? Skólagjöld og fjöldatakmarkanir. Framhaldsskólakerfið ræður ekki við aukningu nemenda. Einhver best heppnaða aðgerð í byggðamálum og menntamálum síðustu áratugina, uppbygging Háskólans á Akureyri, rekst nú upp undir þak, er að stöðvast af því að ekki eru veittir fjármunir til að mæta aukinni aðsókn og eftirspurn.

Nei, góðir landsmenn, við skulum segja við þessa herra: Það er ekki forgangsverkefni að lækka enn meira skatta á því fólki og þeim fyrirtækjum sem hafa góða afkomu. Látið okkur í staðinn hafa betra heilbrigðiskerfi, sleppum skólagjöldum og fjöldatakmörkunum af því að við viljum jafnrétti til náms. Gerum betur við aldraða, öryrkja, unga barnafólkið, látum það hafa gjaldfrjálsan leikskóla sem ný skýrsla sýnir að væri einhver besta kjarabót sem fólk gæti fengið. Leggjum fjármuni í raunverulega nýsköpun í atvinnulífinu, styrkjum frumkvæði kvenna, útrýmum kynbundnum launamun í stað þess að einblína á gamaldags þungaiðnað.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð setti þann merkimiða á baráttu sína fyrir síðustu alþingiskosningar að við vildum mynda velferðarstjórn. Sú ætlun okkar er óbreytt. Skoðanakannanir gefa skýrar vísbendingar um það nú að ef kosið yrði á morgun væri sá möguleiki raunhæfur að mynda hér sterka meirihlutastjórn tveggja flokka til vinstri, stjórn Vinstri grænna og Samf. Aðild okkar að slíkri stjórn og hvaða stjórn sem er mun tryggja að hér verði róttæk stefnubreyting, ekki síst á sviði velferðarmála, umhverfismála og utanríkismála.

Herra forseti. Góðir landsmenn. Stjórnarflokkarnir báðir eru mengaðir og spilltir af langri valdasetu. Það er ódaunn í bakherbergjunum þar sem helmingaskiptin og hrossakaupin fara fram. Hleypum vorloftinu inn. Nú er tími til að moka út. Á haugana með ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. Þar á hún heima eins og aðrir útslitnir og óendurnýjanlegir hlutir.

Ég þakka þeim sem hlýddu. --- Gæfuríkt sumar og góðar stundir.