Almennar stjórnmálaumræður

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 21:36:47 (8880)

2004-05-24 21:36:47# 130. lþ. 124.1 fundur 587#B almennar stjórnmálaumræður#, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 130. lþ.

[21:36]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Hv. þm. Ögmundi Jónassyni varð það á í lok ræðu sinnar að segja að við skyldum halda uppbyggingunni áfram. Með því viðurkenndi hann í lok einhverrar mestu svartagallsræðu sem heyrst hefur á Alþingi nema ef sú sem síðast var haldin hafi toppað hana, að hér hafi átt sér stað uppbygging.

Já, það hafa átt sér stað miklar og jákvæðar breytingar, t.d. á íslensku viðskiptalífi, á síðustu árum. Aflvaki breytinganna er án nokkurs vafa þær róttæku umbætur og lagabreytingar sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir. Árangurinn talar sínu máli. Samkeppnishæfni þjóðarbúsins er hin fimmta mesta í heimi samkvæmt athugun virtrar alþjóðastofnunar og lífskjör eru hér í fremstu röð.

En er þá allt í lagi? Ég hef áður sagt og segi enn að þess hefur gætt að viðskiptalífið hafi teygt og togað frelsið og á stundum gengið lengra en sómi er að. Áhyggjur mínar sem viðskrh. lúta að fimm þáttum:

að hagræðing í atvinnulífinu sé ekki ætíð drifkraftur breytinganna heldur valdabarátta,

að flókið net fyrirtækjasamsteypna minnki gagnsæi og geri yfirsýn stjórnenda og eftirlitsaðila erfiða,

að stjórnunarhættir fyrirtækja séu ekki eins og best verður á kosið,

að fyrirtækjasamsteypur geti knúið fram óeðlilega lágt verð í krafti stærðar, og

að bankar séu í krafti afls síns að sækja hraðar fram í atvinnulífinu en eðlilegt getur talist.

Þessi mál hafa oft verið rædd á Alþingi og það eru höfð uppi stór orð. Þingmenn hafa hrópað úr þessum ræðustóli og þá aðallega að þeirri sem hér stendur: Samþjöppun á fjármálamarkaði, samþjöppun á lyfjamarkaði, samþjöppun á tryggingamarkaði, samþjöppun á matvælamarkaði. Það er ótrúlegt en þetta sama fólk hefur líka hrópað gegn samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Ég kem betur að því síðar.

Hæstv. forseti. Mikil umræða hefur farið fram víða erlendis um stjórnunarhætti fyrirtækja. Það að vel takist til í gerð regluverks og lagasetningar á því sviði er grundvallaratriði um þróun frjáls markaðar. Þess vegna var tekin um það ákvörðun í viðskrn. að vinna skýrslu um stjórnunarhætti fyrirtækja og leggja fyrir Alþingi. Skýrslunni var dreift til þingmanna þann 31. mars sl. Við teljum nauðsynlegt að leggja fram mikilvæg gögn til þess að umfjöllun geti þróast, bæði á hv. Alþingi og innan viðskiptalífsins. Þessi gagnasöfnun kemur einnig að notum í þeirri vinnu sem nú fer fram á vegum nefndar um málefni viðskiptalífsins sem ég skipaði í janúar. Niðurstöður verða kynntar í haustbyrjun og ég vonast eftir málefnalegri umræðu um það mikilvæga mál.

Víkjum þá að lögunum sem samþykkt voru í dag frá Alþingi, um eignarhald á fjölmiðlum, sem Össur Skarphéðinsson segir að enginn framsóknarmaður treysti sér til að verja.

Það sem er aðalatriði þess máls er hvort menn vilja setja lög og reglur um eignarhald á fjölmiðlum eða ekki, hvort þingmenn vilja bregðast við samþjöppun á fjölmiðlamarkaði eða ekki. Ég sagði fyrr í ræðu minni og endurtek það að svo vill til að allir þeir stjórnmálaflokkar sem fulltrúa eiga á Alþingi hafa talað fyrir því að svo skuli gert. En þegar til kastanna kemur eru allir stjórnarandstöðuflokkarnir á móti. Þeir eru á móti af því að lagasetningin kemur við starfandi fjölmiðlafyrirtæki í landinu. Það fjölmiðlafyrirtæki hefur 44% hlutdeild á útvarpsmarkaði, 37% hlutdeild á sjónvarpsmarkaði og gefur út 67% af upplagi dagblaða. Svo gríðarlega sterk staða eins einkafyrirtækis á fjölmiðlamarkaði í einu landi á sér enga hliðstæðu. Datt einhverjum í hug að hægt væri að minnka samþjöppun á fjölmiðlamarkaði án þess að það kæmi við þetta fyrirtæki? Það sem var hins vegar galli á upphaflegu frv. var að útvarpsleyfin áttu að falla niður, sum hver, löngu áður en gildistími þeirra rann út. Því var breytt ásamt mörgu öðru í meðförum þingsins. Lögin eru því ekki afturvirk.

Talað er um að lögin standist ekki ákvæði EES-samningsins. Mér finnst athyglisvert að það skuli vera orðið stórt mál í hugum Vinstri grænna og Samf. Hversu oft hafa þingmenn þeirra flokka ekki staðið í ræðustól á Alþingi og krafist þess að lögfest yrði dreifð eignaraðild að fjármálafyrirtækjum, sett lög um að enginn megi eiga meira en 8% eða enginn meira en 10%? Þegar ég hef svarað því til að það sé fullkomlega víst að slíkt ákvæði standist ekki ákvæði EES-samningsins þá hafa þessir hv. þm. gert lítið með það og fundist að það megi láta á það reyna. Þetta er allt samræmið í málflutningi þessara þingmanna. Þetta er að mati Össurar Skarphéðinssonar málefnalegasta stjórnarandstaða um árabil.

Ég er sannfærð um að þjóðin notar það tækifæri sem hún fær næst þegar kosið verður og hafnar slíkum stjórnmálamönnum sem segja eitt í dag og annað á morgun, bara eftir því hvernig vindarnir blása og eftir því hvað þeir telja að falli í kramið hverju sinni.

Hæstv. forseti. Framsfl. hefur verið samkvæmur sjálfum sér í þeim málum sem hafa komið upp og varða samþjöppun á markaði. Við leggjum mikla áherslu á frjáls viðskipti. Við viljum öflugt regluverk sem byggir á lögum sem eru í samræmi við það sem ríkir innan Evrópusambandsins. Við viljum öflugar eftirlitsstofnanir sem hafa algjört sjálfstæði. Við viljum styrkja samkeppnisstöðu Íslands enn frekar til hagsbóta fyrir fólkið í landinu. Þannig mun okkur vegna vel.

Ég þakka þeim sem hlýddu.