Ráðning landvarða

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 10:11:10 (8886)

2004-05-25 10:11:10# 130. lþ. 125.91 fundur 588#B ráðning landvarða# (aths. um störf þingsins), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[10:11]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég hrökk í kút í gærkvöldi við eldhúsdagsumræðurnar þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson flutti ræðu sína og greindi frá þessu máli (Gripið fram í: ... Steingrímur.) og trúði því varla að þetta væri satt. Nú heyrðum við skýringar hæstv. umhvrh. áðan og þær voru hreinlega mjög ótrúverðugar. Hún verður að útskýra m.a. bréf sem við höfum hér þar sem greinilega kemur fram að einn ákveðinn starfsmaður hafi gert eitthvað, verið aðili að einhverjum atburði sem sé með öllu óásættanlegur. Hér stendur m.a., með leyfi forseta:

,,Af hálfu Umhverfisstofnunar skal þó áréttað að tilgreind framkoma þín var að mati stofnunarinnar mjög ámælisverð og ósamrýmanleg því starfi sem þú hafðir með höndum.`` Undir þetta skrifar forstjóri Umhverfisstofnunar, Davíð Egilson. Umhverfisstofnun, hvaða batterí er það? Jú, þetta er stofnun sem á að stuðla að velferð almennings með því að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi, öruggum neysluvörum og verndun á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Að sjálfsögðu getum við deilt um hvað er sjálfbær nýting náttúruauðlinda. En er ekki mjög alvarlegt mál ef starfsmenn svona stofnunar mega ekki hafa skoðun á því og láta þá skoðun í ljósi hvað sé verndun og sjálfbær nýting náttúruauðlinda? Hér skilst manni að þeir hafi dregið fána í hálfa stöng vegna þess að þeir voru ósammála þeirri ákvörðun að farið yrði í virkjunarframkvæmdir við Kárahnjúka. Má þetta fólk ekki hafa þá skoðun? Hvers konar þjóðfélag er þetta eiginlega?

Hvað er að gerast á Íslandi? Í gær voru það fjölmiðlalögin. Ég minnist þess að fyrir nokkrum vikum var viðtal við einn ágætan borgara í Reykjavík, fyrrv. alþingismann, Ólaf Hannibalsson, sem greindi frá því að eiginkona hans hefði misst sæti sitt í einhverri opinberri nefnd vegna þess að hann vogaði sér að lýsa því yfir að Frjálsl. væri kannski ekki svo vitlaus valkostur við síðustu kosningar. Hvað sagði þessi ágæti maður, fyrrv. alþingismaður? Hann sagði: ,,Þeir kunna að berja á fólki án þess að sjáist á því.``

Það kunna stjórnarflokkarnir.