Ráðning landvarða

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 10:15:35 (8888)

2004-05-25 10:15:35# 130. lþ. 125.91 fundur 588#B ráðning landvarða# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[10:15]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér skal tekið undir það sem ræðumenn á undan mér hafa sagt. Það er afar ámælisvert ef tjáningarfrelsinu er slík hætta búin að fólk megi ekki, eins og þessi landverðir sem flögguðu í hálfa stöng síðasta sumar, tjá skoðanir sínar. Við skulum vera minnug þess að þetta sama fólk flaggaði daginn sem Alcoa-samningurinn var innsiglaður, 19. júlí 2002. Þá fékk það áminningu frá Umhverfisstofnun fyrir það að nota eigur og búnað stofnunarinnar á ósæmilegan hátt, af því að fólk hafði flaggað í hálfa stöng. Sumarið á eftir flaggaði það aftur en þá á eigin fánastöngum með eigin fánum til að vera ekki að ögra yfirboðurum sínum.

En hvað gerist? Bréfið sem vitnað hefur verið til er skrifað. Það er verulega ámælisvert að lesa það að forstjóri Umhverfisstofnunar sem er auðvitað í umboði umhvrh. í því embætti skuli leyfa sér að segja að vegna málsins sé verið að vinna að skýrari starfslýsingum og verklagsreglum fyrir landverði, starfslýsingarnar og verklagsreglurnar eigi að kveða á um réttindi og skyldur landvarða með afdráttarlausari hætti en áður. Ber að skilja þetta svo að núna sé búið að setja reglur sem hefta möguleika landvarða á því að tjá tilfinningar sínar, eins og þau gerðu 19. júlí 2003, og það í frítíma sínum?

Það hefur komið fram í ræðustól á Alþingi oftar en einu sinni að yfirvöld, stjórnvöld hér, hafa sýnt gerræðislega tilburði gagnvart tjáningarfrelsi fólks. Þess er skemmst að minnast þegar hæstv. iðnrh. hélt því fram að vísindamenn við Háskóla Íslands væru að láta einhverja pólitík þvælast fyrir niðurstöðum vísindarannsókna sinna. Það eru gerræðislegir tilburðir í gangi hjá þessum stjórnvöldum og þá ber að stöðva. Það verður að tryggja að tjáningarfrelsi almennings sé virt, jafnvel þótt það vinni hjá hinu opinbera.