Ráðning landvarða

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 10:20:30 (8891)

2004-05-25 10:20:30# 130. lþ. 125.91 fundur 588#B ráðning landvarða# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[10:20]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Þessu máli verður ekki lokið á þremur mínútum en ég vil aðeins rekja nokkur efnisatriði. Þessi atburður átti sér stað 19. júlí. 21. júlí berst yfirlandverði í Herðubreiðarlindum bréf þar sem segir m.a., með leyfi forseta, ,,að opinber stofnun gæti ekki liðið starfsmönnum sínum að mótmæla á vinnustað ákvörðun ríkisstjórnar og Alþingis Íslendinga``. Síðan er nokkrum fyrirspurnum beint til starfsmannsins, m.a.: ,,Hvaða starfsmenn Umhverfisstofnunar tóku þátt í aðgerðum? Voru viðkomandi starfsmenn í vinnutíma að undirbúa aðgerðir?`` --- Við erum að tala um að draga íslenska fánann í hálfa stöng. --- ,,Voru verkfæri eða annað sem Umhverfisstofnun leggur starfsmönnum til, þar með talinn einkennisfatnaður, notuð við undirbúning aðgerða eða við aðgerðina sjálfa eða kynningar á henni?``

Síðan berst bréf 25. ágúst þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Umhverfisstofnun hefur í hyggju að veita þér áminningu vegna framangreinds háttalags í starfi, sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996. Það skal tekið fram að framangreind tilvik, sbr. 6. tölulið, geta öll saman eða hvert og eitt verið tilefni áminningar. Umhverfisstofnun veitir þér hér með færi á að koma að athugasemdum og andmælum vegna fyrirhugaðrar áminningar.``

Síðan berst umhverfisyfirvöldum bréf frá verkalýðsfélaginu þar sem þessum spurningum er öllum svarað. Þá berst að nýju bréf frá umhverfisyfirvöldum þar sem mótmælum er andmælt, sagt að það sé ekki í ráði að veita áminninguna en Umhverfisstofnun standi engu að síður við málflutning sinn í málinu.

Síðan kemur það á daginn núna að þeir landverðir sem tóku þátt í þessum aðgerðum --- og aðgerðirnar eru að draga íslenska fánann í hálfa stöng --- fá ekki ráðningu. Það þýðir ekki fyrir hæstv. umhvrh. að reyna að drepa þessu máli á dreif.