Uppfinningar starfsmanna

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 10:25:41 (8893)

2004-05-25 10:25:41# 130. lþ. 125.2 fundur 313. mál: #A uppfinningar starfsmanna# frv. 72/2004, Frsm. KHG
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[10:25]

Frsm. iðnn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Við athugun málsins eftir 2. umr. kom í ljós að orðalag í 8. gr. frv. eins og hún er nú er að nokkru leyti óskýrt. Til þess að taka af allan vafa um þá meiningu sem hv. iðnn. hefur á þessari málsgrein 8. gr. leyfi ég mér að flytja brtt. við niðurlag 1. mgr. 8. gr. frv. þannig að ekki fari á milli mála efnisinnihald málsgreinarinnar. Málsgreinin er svohljóðandi í frv., með leyfi forseta:

,,Uppfinning sem 4. gr. tekur til telst hafa orðið til á starfstíma ef sótt er um einkaleyfi fyrir henni innan sex mánaða frá raunverulegum starfslokum nema líkur megi leiða að því að uppfinningin hafi orðið til fyrr.``

Hér er lagt til að í stað orðsins ,,fyrr`` komi: eftir raunveruleg starfslok. Þá hygg ég að engin geti velkst í vafa um hvað fyrir hv. iðnn. vakir með þessari tillögu, herra forseti.