Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 10:41:54 (8900)

2004-05-25 10:41:54# 130. lþ. 125.5 fundur 750. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (dótturfélög sparisjóða, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 77/2004, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[10:41]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu sem ég hef flutt við frv. um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Hér er á ferðinni sanngirnismál, afar lítil tillaga sem engu mun breyta fyrir ríkissjóð að því er varðar útgjöld en skiptir máli fyrir sennilega örfáa örorkulífeyrisþega sem þannig stendur á að geti lagt eitthvað til hliðar af litlum lífeyri sínum. Tillagan er ekki stærri í sniðum en svo.

Hér er fyrst og fremst um það að ræða að opnað er fyrir möguleika að vísu bæði fyrir elli- og örorkulífeyrisþega á því að viðbótarlífeyrissparnaður þeirra verði frádráttarbær frá skatti eins og er hjá öðrum sem geta lagt til hliðar viðbótarlífeyrissparnað. Hér er um að ræða jafnræði milli borgaranna og eins og ég sagði eru þetta örfáir aðilar. Ég veit til þess að a.m.k. einn aðli sem hefur verið að reyna að fá slíkt jafnræði í gegn hefur leitað til skattyfirvalda en ekki fengið því framgengt. Ég taldi því að hér væri á ferðinni mikið sanngirnismál sem auðvelt væri að fá í gegn hjá stjórnarflokkunum sem alltaf hafa allt á hornum sér þegar um er að ræða þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.

Ég tel ástæðu til að ræða aðeins um aðdraganda tillögunnar og af hverju hún er flutt með þeim hætti sem hér er gert vegna orða hv. formanns efh.- og viðskn. áðan. Hv. formaður efh.- og viðskn. talar um að tillagan sé óskyld því efni sem verið er að ræða um í frv. um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og það er alveg rétt, en hv. þm. gat þess ekki að ég hef í allan vetur reynt að ná samstöðu með hv. formanni nefndarinnar um flutning á slíku máli, að nefndin sjálf tæki málið upp og flytti það inn í þingið sem sérstakt mál. Ég hafði ætlað mér að flytja það sjálf sem sérstakt mál en taldi það betra fyrir framgang málsins að reyna að ná samstöðu með stjórnarmeirihlutanum í þessu litla máli, en það tókst ekki. Það er auðvitað fyrirsláttur að bera fyrir sig að það hafi verið svo mikið að gera í efh.- og viðskn. og draga fram áminningarmálið, að það hafi tekið svo langan tíma og þess vegna hafi ekki unnist tími til að skoða þetta mál. Það er miklu lengra síðan ég færði málið í tal við hv. formann nefndarinnar þannig að það er fyrirsláttur og ómerkilegt af hv. formanni nefndarinnar að bera það fyrir sig.

Ég hafði ekki ætlað mér, herra forseti, að hafa neitt sérstaklega mörg orð um þetta litla sanngirnismál, hafði meira að segja ætlað mér að draga breytingartillöguna til baka til 3. umr. til að nefndin sem fundar á morgun, efh.- og viðskn., gæti þá fjallað um tillöguna og tekið afstöðu til hennar. Hv. formaður nefndarinnar vissi mætavel að ég var opin fyrir öllum breytingartillögum sem hann hafði m.a. ámálgað við mig varðandi þetta litla mál sem skiptir kannski máli fyrir fimm örorkulífeyrisþega ef þeir eru þá svo margir sem geta lagt eitthvað til hliðar. En hér er fyrst og fremst um að ræða jafnræði milli borgaranna, að þeir örfáu einstaklingar sem gætu hugsanlega sparað sitji við sama borð og aðrir sem geta lagt til hliðar viðbótarlífeyrissparnað. Við erum þó að tala um þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.

[10:45]

Ég er satt að segja mjög hissa á orðum formanns efh.- og viðskn. þar sem hann býður upp á það að nefndin vinni í þessu litla máli í sumar. Við höfum haft allan veturinn til þess að skoða málið sem engu breytir fyrir útgjöld ríkissjóðs, ekki nokkru. Ég taldi mig sýna formanni efh.- og viðskn. sanngirni með því að bíða í allan vetur með að flytja slíkt mál til að freista þess að nefndin gæti náð saman um það. Ég lét meira að segja hv. formann efh.- og viðskn. vita að ég væri orðin óróleg þar sem gengi á tíma þingsins fram að þinghléi og ég mundi þá freista þess að flytja breytingartillögu við það frv. sem við ræðum nú þó um óskylt efni væri að ræða, og hv. formaður nefndarinnar vissi það mætavel. Við ræddum einmitt um þá málsmeðferð að skoða málið á milli umræðna sem ég hélt satt að segja að hv. formaður nefndarinnar byði upp á í ræðustól þegar hann mælti fyrir nál. við 2. umr. En svo er ekki, herra forseti. Það á greinilega að fella tillöguna, ekki gefa neinn séns á að ræða hana í efh.- og viðskn. á morgun, sem ég er búin að kalla eftir í allan heila vetur, og vísa málinu inn í sumarið, að efh.- og viðskn. taki sér tíma í sumar að fjalla um þetta litla mál. Ég er aldeilis hissa, virðulegi forseti, á slíkum vinnubrögðum.

Það að ríkisstjórnin, sem í stjórnartíð sinni hefur hvað eftir annað sparkað í fólk, sparkað í fólk sem minnst má sín í þjóðfélaginu með því að skammta því minna en öðrum, skuli ekki láta svo lítið að geta samþykkt þessa litlu tillögu sýnir auðvitað hug stjórnarflokkanna til elli- og örorkulífeyrisþega og atvinnulausra. Af því að ég sé að hv. þm. Pétur Blöndal glottir yfir þessu er ástæða til að nefna það að frá árinu 1998 til ársins 2002, en það er alltaf verið að tala um að kaupmáttur hafi aukist svo mikið, jókst kaupmáttur láglaunafólks vissulega um 10%. Það er auðvitað ástæða til að fagna því, en kaupmáttur atvinnulausra jókst um 1% á því tímabili og kaupmáttur lífeyrisþega jókst um 2%. Það er líka ástæða til að halda því til haga að þessir hópar greiddu engan skatt á árinu 1995 en byrjuðu á því þegar þessi ríkisstjórn tók við á árinu 1996 að greiða skatt af sínum litlu tekjum og t.d. árið 2001 gerði Þjóðhagsstofnun úttekt á því að þeir sem voru með undir 90 þús. kr. í tekjur greiddu einn milljarð í tekjuskatt. Þannig er það sem stjórnarflokkarnir fara með þessa hópa.

Ég skil því ekkert í mér að hafa verið svo bjartsýn að halda að stjórnarflokkarnir samþykktu þá litlu breytingartillögu sem hér liggur fyrir. Þeir ættu auðvitað að gera það af því að það er útgjaldalaust fyrir ríkissjóð. Horfum líka til þess að fyrir utan það að búið er að skattpína þetta fólk og það hefur fengið minna í sinn hlut af góðærinu, eins og ég nefndi og kaupmáttartölurnar staðfesta það, þá hefur gjaldtakan í gegnum heilbrigðiskerfið bitnað með mestum þunga á þessum hópum, öryrkjunum og ellilífeyrisþegunum, og gjaldtakan er í vaxandi mæli að verða aðgangshindrun í heilbrigðiskerfinu. En það er ekki hægt að samþykkja litla tillögu sem skiptir máli fyrir örfáa einstaklinga.

Ég lýsi megnustu skömm minni á því hvernig stjórnarflokkarnir fara með þessa hópa. Ég mun auðvitað ekki draga tillöguna til baka til 3. umr., það mun bara reyna á hana við atkvæðagreiðslu. En þetta sýnir svo sannarlega hug stjórnarflokkanna til þeirra sem minnst bera úr býtum í þjóðfélaginu.