Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 10:50:32 (8901)

2004-05-25 10:50:32# 130. lþ. 125.5 fundur 750. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (dótturfélög sparisjóða, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 77/2004, Frsm. meiri hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[10:50]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er ekki endilega um lágan lífeyri að ræða. Hjá Lífeyrissjóði sjómanna gætu menn verið með 300 eða 400 þús. kr. í örorkulífeyri. Örorkulífeyrisþegar eru því ekkert endilega með lágan lífeyri.

Tillagan er gölluð að því leyti að ég nefni hér að það vantar að maka- og barnalífeyrisþegar geti sparað líka því það er líka tekjuígildi sem menn fá greitt. En það vantar aðallega að menn geti sparað af lífeyri frá lífeyrissjóðum því tillagan gerir eingöngu ráð fyrir því að menn geti sparað af lífeyri frá Tryggingastofnun. Tillagan er því að mörgu leyti gölluð og hefði þurft miklu meiri umræðu.

Herra forseti. Í efh.- og viðskn. hafa verið slagsmál sem aldrei fyrr, sandkassaleikur alla daga. Þar hafa menn spilað í valdaspili og umræðan á Alþingi undanfarna daga hefur enn frekar sýnt manni að umræðan er ekki málefnaleg, engan veginn. Hún gengur út á sandkassaslag. Ekki einn einasti þingmaður stjórnarandstöðunnar studdi eða sat hjá við atkvæðagreiðslu um fjölmiðlafrumvarpið þótt búið væri að taka tillit til nánast allra atriða sem þeir nefndu í upphafi. Slíkur var sandkassaslagurinn. Svo búast menn við að litið sé með velvilja til tillögunnar sem hv. þm. flutti og ég hef sannarlega tekið vel í hana, hv. þm. getur vitnað um það að ég er búinn að ræða við hana um málið aftur og aftur í vetur. En að búast við því eftir allt sem á undan er gengið að menn leggi lykkju á leið sína til þess að taka inn mál sem er óskylt því máli sem rætt er og er auk þess brot á þeirri reglu að þeir geti sparað sem eru með tryggingagjald af launum sínum. Það er líka stílbrot. Af þessum launum er ekki greitt tryggingagjald. (KolH: Er ástæðan hefnigirni?)