Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 10:52:48 (8902)

2004-05-25 10:52:48# 130. lþ. 125.5 fundur 750. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (dótturfélög sparisjóða, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 77/2004, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[10:52]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta var satt að segja mjög skrýtin ræða, að fara að blanda fjölmiðlafrumvarpinu inn í þessa litlu breytingartillögu sem snýr að því að koma á jafnræði í viðbótarlífeyrissparnaði þannig að öryrkjar geti fengið hann frádráttarbæran til skatts eins og aðrir. Hvað kemur það fjölmiðlafrumvarpinu við? Hvers lags barnaskapur er þetta?

Ef hv. þm. kýs að orða störf efh.- og viðskn. með þeim hætti að þar sé sandkassaleikur á ferðinni þegar efh.- og viðskn. hittist þá spyr ég: Hver á mestan þátt í því? Ég hef setið lengi í efh.- og viðskn., að vísu undir formennsku annars en hv. þm. Péturs H. Blöndals, og þar hafa oft verið erfið mál á ferðinni alveg eins og hefur verið í vetur en ég man aldrei eftir öðrum eins átökum og hafa verið í efh.- og viðskn. í vetur. Það skyldi þó ekki vera að það hafi eitthvað með forustu þess sem stýrir þeirri nefnd að gera? Mér finnst mjög sérkennilegt að blanda vinnubrögðum í efh.- og viðskn., vinnubrögðum formannsins og þessu máli.

Það er alveg rétt að við höfum átt samtöl um málið og hann hefur sýnt því áhuga en hvers vegna hefur formaðurinn aldrei tekið það upp í efh.- og viðskn. í vetur? Ég byrjaði snemma í vetur að ræða það við formanninn af því ég hafði ætlað mér að flytja þetta frv. Ég heyri að það þýðir ekkert að ræða málið við formann efh.- og viðskn., hann hagar sér hreinlega eins og krakki og segir: Af því að þið hafið verið svo vond við mig ætla ég bara að vera vondur við öryrkja og ekki vera með ykkur í því að samþykkja hér lítið mál til hagsbóta fyrir lítinn hóp öryrkja.