Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 10:59:08 (8905)

2004-05-25 10:59:08# 130. lþ. 125.5 fundur 750. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (dótturfélög sparisjóða, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 77/2004, ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[10:59]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég á varla orð yfir það sem hv. þm. sagði hérna. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom hér og sagði eftir að hafa lýst þokkalegum velvilja gagnvart þessari breytingartillögu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að vegna þess hvernig menn hefðu hagað sér í efh.- og viðskn., vegna þess hvernig menn hefðu brugðist við ótrúlegum vinnubrögðum hv. þm. Péturs H. Blöndals sem formanns nefndarinnar, kæmi ekki til greina að fara vinsamlegum orðum og höndum um tillöguna. Ég hef aldrei heyrt slíkt áður, herra forseti. Mér finnst það vera ákaflega mikið umhugsunarefni ef hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efh.- og viðskn., er farinn að láta hefnigirni ráða afstöðu sinni til mála. Hv. þm. kom og sagði að vegna þess að hann teldi að einhverjir þingmenn væru í sandkassaleik og slagsmálum í efh.- og viðskn. væri ekki hægt að taka málefnalega á tillögum sem fram koma. Þá er hv. þm. ekki lengur hæfur til þess að gegna formennsku í efh.- og viðskn. Ef það er svo að þessar lágu hvatir eru farnar að stjórna gerðum hans sem formanns, þá er einfaldlega ekki hægt að búa við verklag af hans hálfu. Ég hef aldrei orðið fyrir því áður, herra forseti, að nokkur formaður komi og segi hluti eins og þessa. Kynni það að vera að hér væri um enn eitt mismælið að ræða úr munni hv. þm. Péturs H. Blöndals?

Staðreyndin er einfaldlega sú að verklag formannsins hefur verið með þeim hætti að ríkt hefur stöðugur ófriður í nefndinni og þar er fyrst og fremst um að kenna skorti hans á vilja eða getu til þess að hafa þokkaleg samskipti við stjórnarandstöðuna. Forverum hans öllum sem ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir störfuðum undir tókst það mætavel. Í gegnum nefndina fara u.þ.b. 60% þeirra frv. sem Alþingi afgreiðir. Það var ekki fyrr en hv. þm. tók við formennsku í nefndinni og tók upp það háttalag sem að það hann kallaði slagsmál brutust út. Við sjáum það bara speglast í þessu tiltekna máli að það er búið að biðja hann um að ræða málið í heilan vetur. Hv. þm. hefur haft góð orð um það en hvað kemur í ljós? Hann er að hefna sín. Það er ekkert annað. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hristir höfuðið en þá verður hann að koma hingað og skýra hvað hann átti við með því þegar hann sagði að það væri vegna þess hvernig þingmenn í efh.- og viðskn. hefðu hagað sér í vetur að þeir gætu ekki búist við því að farið væri vinsamlega með tillögur þeirra. Á hvaða plan er hv. þm. Pétur H. Blöndal að draga þingið niður á? Ég spyr. Þetta er þingmanninum til vansa. Þetta er þinginu til vansa.