Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 11:24:11 (8908)

2004-05-25 11:24:11# 130. lþ. 125.5 fundur 750. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (dótturfélög sparisjóða, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 77/2004, Frsm. meiri hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[11:24]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég fór inn á þing tók ég þá ákvörðun að ræða ekki um persónu manna eða leggja mat á hana, heldur taka tillit til skoðana manna sem oft byggjast á heimssýn þeirra og virða þær skoðanir. Ég hef reynt að vanda mig við að gera það á Alþingi. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur ítrekað og aftur og aftur ráðist að persónu minni, jafnvel þannig að sumir þingmenn hafa sagt mér að ég eigi að bera af mér sakir og þá hef ég sagt að ég geri það ekki þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson er með ákúrur. Það er nefnilega svo að sá hv. þm. hefur ekki bara ráðist að mér einum, þeir eru fleiri sem hafa orðið fyrir því.

Það er dálítið erfitt að sitja undir slíkum ádeilum aftur og aftur þegar maður veit betur og maður hefur reynt að vinna að framgangi ákveðinna mála, t.d. eins og þess máls sem við ræðum hér. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir getur borið um það að ég hef tekið mjög jákvætt í þessa tillögu og ég er búinn að ræða við hana ítrekað í vetur. Það er því með ólíkindum að heyra slíkan málflutning, ekki bara í ræðu hv. þm., heldur líka áðan, herra forseti, undir liðnum um stjórn fundarins þar sem hv. þm. notaði lungann úr ræðu sinni til að ræða persónu mína, að ég sé ekki hæfur sem formaður nefndarinnar o.s.frv. Það getur vel verið að það sé svo en mér finnst svona orðræða alltaf lýsa hv. þm. betur en mér.