Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 11:36:41 (8913)

2004-05-25 11:36:41# 130. lþ. 125.5 fundur 750. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (dótturfélög sparisjóða, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 77/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[11:36]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Ég er alveg hættur að skilja hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hann hefur komið hér og lýst yfir að hann telji stefnuna sem felst í tillögu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur góða. Hann hefur sömuleiðis lýst því yfir að hann telji að tillöguna megi bæta. Hann hefur jafnframt lýst því með hvaða hætti megi bæta hana. Hann hefur líka lýst því að hann hafi átt í langvinnum viðræðum eða samtölum við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um málið og hafi fullan skilning á því að það væri þarfaverk að samþykkja meginstefnuna í breytingartillögunni. Ég spyr þá, frú forseti: Hvað kemur í veg fyrir að tillagan verði samþykkt? Er hv. þm. Pétur H. Blöndal reiðubúinn til að lýsa því yfir á fundinum í efh.- og viðskn. á morgun að þá verði málið rætt í þeim tilgangi að reyna að finna sameiginlega lendingu á því? Er hv. þm. tilbúinn til þess? Ef hann er eins mikill maður sátta og komið hefur fram í máli hans hér hlýtur hann að vilja tjá þann sáttarvilja með einhverjum hætti í verki. Það hefur komið fram að hér er um algjört smámál að ræða. Um er að ræða mál sem að mati flutningsmanns breytingartillögunnar varðar hugsanlega fimm öryrkja. Hugsanlega fleiri, hugsanlega marga fleiri, ég veit það ekki. Hv. þm. gefur til kynna með látbragði sínu að svo sé. En ef menn hafa rætt það í heilan vetur og ef hv. þm. Pétur H. Blöndal hefði viljað hefði hann væntanlega getað komist til botns í því hversu marga málið varðar, hversu mikil útgjöld ríkissjóðs yrðu hugsanlega vegna málsins. Það hefur hann ekki gert en hann hefur enn þá tækifæri til að bæta ráð sitt.

Ég ítreka því spurninguna til hv. þm.: Er hann reiðubúinn til þess að taka málið til afgreiðslu í nefndinni á morgun? Ef hann er ekki reiðubúinn til þess, hvaða rök eru fyrir því? Hv. þm. hefur sagt að hann vilji ræða málið í sumar en ef hann og flutningsmaður eru búin að ræða það helftina af vetrinum, hvað meinar þá að leggja fram breytingar sem menn gætu hugsanlega náð sátt um í nefndinni og Pétur H. Blöndal hv. þm. gæti verið aðili að?

Í ræðu minni áðan fór ég nokkrum orðum um 2. gr. frv. og breytingartillöguna sem liggur fyrir frá meiri hluta nefndarinnar. Ég færði mörg rök að því er ég taldi fyrir því að tillagan væri í sínu upphaflega formi að líkindum óþörf. Ég vísaði til orða skattrannsóknarstjóra. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur ekki gert tilraun til þess að hnekkja þeim rökum með einhvers konar mótbárum eða rökstuddum upplýsingum um annað. Ég gerði sömuleiðis þrjár athugasemdir við breytingartillöguna, við orðalag hennar sem ég tel að sé mjög illa fallið til samþykktar. Ég tel að orðalagið sé óskýrt, það geti leitt til misskilnings og það sé með þeim hætti að það sé ákaflega erfitt að framkvæma ákvæðið þannig að fyllsta réttar einstaklings sé í hvívetna gætt.

Ég spyr hv. þm. Pétur H. Blöndal: Ef hann er ósammála þessum rökum mínum, hver eru mótrök hans? Telur hann ekki að það hefði verið þarft af hálfu meiri hlutans að skýra í nefndaráliti með hvaða hætti ber að túlka orðin ,,að forfallalausu``? Sömuleiðis hvaða afleiðingar breytingarnar á tillögunni þar sem orðalagið ,,að færa mann til skýrslugjafar`` er breytt yfir í ,,að færa aðila til skýrslugjafar`` hafa í för með sér? Ég held að það sé þarft, a.m.k. fyrir þá sem eiga hugsanlega eftir að fjalla um þetta fyrir dómi í framtíðinni, að vita hvað það var sem vakti nákvæmlega fyrir löggjafanum. Hv. þm. og formaður nefndarinnar hefur komið með ákaflega loðnar skýringar á því með hvaða hætti eigi að túlka orðin ,,að forfallalausu``. Ég hef bara sagt það hreinskilnislega að mér finnst orðalagið vera svo opið og óskýrt að það sé engan veginn tækt til samþykktar. Ég hef notað þetta í ræðu minni, og reitt hv. þm. til geðshræringar eða reiði, til þess að færa rök að því að vinnulagið í nefndinni er ekki ásættanlegt að mínum dómi. Hv. þm. tekur það sem persónulegar árásir að ég skuli skammast yfir því ítrekað að mál komi frá nefndinni með þessum hætti. Þetta er annað málið í vetur sem hefur slíkan losarabrag á sér. Það er því að gefnu tilefni sem ég færi þetta í tal.

Ég hef ekki fleiri ræður til þess að ganga á eftir því við hv. þm. hvort hann vilji skýra þetta betur. En ég ítreka þær spurningar sem ég hef lagt fyrir þingmanninn:

1. Er hann reiðubúinn til þess að reyna að ná samkomulagi í efh.- og viðskn. um að breyta tillögunni frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þannig að meiri hlutinn treysti sér til þess að mæla með samþykkt hennar?

2. Telur hann ekki rétt að skýra betur hvað felst í orðalaginu ,,að forfallalausu`` sem er óskýrt í nefndarálitinu?

3. Telur hann ekki, eftir þær rökræður sem við höfum átt, að umskiptin á greininni sem leiða til þess að orðið ,,mann`` er tekið út og orðið ,,aðila`` er sett inn leiði til þess að það verði ákaflega erfitt að framkvæma lögin ef frv. verður samþykkt þannig að viðunandi sé og ekki rísi álitamál sem kunni að þurfa að leita úrskurðar og atbeina dómstóla til að skýra?