Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 13:31:00 (8919)

2004-05-25 13:31:00# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[13:31]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem á undan mér mæltu fyrir upplýsandi og góða yfirferð um þetta ágæta mál sem beinir sjónum okkar að sjálfsögðu að húsnæðismálum í hinu stóra samhengi, almennt og yfirleitt, enda um meginbreytingu á íbúðalánakerfinu að ræða. Líkt og kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem mælti fyrir nál. minni hluta félmn., þá eru vissulega margir kostir við þessa breytingu þar sem um endurskipulagningu á verðbréfaútgáfunni er að ræða og peningalánakerfi tekið upp í stað húsbréfa og húsnæðisbréfa, þó svo að ýmsar blikur séu á lofti og ekki einsýnt um að allt sé gott við þessa breytingu þótt flest bendi til þess. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom sérstaklega inn á hluti sem Alþýðusambandið og fleiri hafa bent á í sambandi við heimild til uppgreiðslu og ég tek undir það með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að skuldari geti greitt upp lán sín án aukakostnaðar. Það á að vera sjálfsagður réttur hvers skuldara, sérstaklega í opinberu íbúðalánakerfi sem er til þess gert að gera því sem næst öllum kleift að koma sér upp eigin húsnæði. Hið opinbera á ekki að skattleggja þá sem vilja létta á skuldum sínum. Ef þeir hafa einhvern tíma á lífsleiðinni tækifæri til þess að greiða upp íbúðalánaskuldir sínar, þá á að sjálfsögðu ekki að skattleggja það sérstaklega eða taka af því gjald. Ítreka ég mikilvægi þess að þetta verði endurskoðað og sú tillaga sem hv. þm. mælti fyrir af hálfu minni hlutans verði tekin til skoðunar og samþykkt. Þetta er mjög brýnt og mikilvægt mál og eitt af grundvallaratriðum þess kerfis sem við viljum sjá og eigum að sjá.

Eins og þingmaðurinn gat um einnig í sinni góðu yfirferð fyrir hádegið er heldur alls ekki um það að ræða að afföllin heyri sögunni til. Til kemur ýmiss konar önnur óvissa um vaxtakjör og vaxtaálag og fleira sem því tengist.

Þá vil ég líka taka undir það að þegar kemur að nýbyggingum og lánveitingum til nýbygginga er þeim málum vel háttað í núverandi kerfi þar sem þeim er skipt í þrennt. Fyrsti hluti lánsins fæst þegar húsnæðið er fokhelt, annar hluti þegar það er tekið út af byggingarfulltrúa og þriðji hlutinn þegar framkvæmdum er að fullu lokið. Þetta er að mörgu leyti mjög hentugt fyrirkomulag. Þess vegna höfum við stjórnarandstæðingar gagnrýnt það harðlega ef svo verður staðið að málum að til einnar greiðslu komi. Það er ekki gott fyrir íbúðabyggjendur eins og fram kemur í nál. minni hlutans og ég vil taka sérstaklega undir það. Einnig hefur þetta sætt mikilli gagnrýni hjá ASÍ, BSRB, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja og Seðlabanka Íslands þannig að nokkuð breið samstaða er um að því beri alls ekki að breyta.

Eins og ég gat um áðan í sambandi við uppgreiðslurnar er mjög mikilvægt að lántakendur geti nýtt sér að greiða upp húsbréf eða aukaafborganir án gjaldtöku eða sérstaks vaxtaálags. Því er um að ræða breytingu frá núverandi kerfi sem er lántakendunum verulega í óhag og því tökum við í stjórnarandstöðunni og minni hluti félmn. undir það sjónarmið ASÍ að það hljóti að vera réttur skuldara að greiða upp skuldir sínar án sérstakrar skattlagningar. Það er nefnt sem dæmi að árið 1999--2003 voru uppgreiðslur í húsbréfakerfinu um 18 milljarðar kr. og samtals 34 milljarðar kr. á tímabilinu ef litið er til húsnæðislánakerfisins í heild. Þetta eru því verulegar uppgreiðslur og háar fjárhæðir fyrir þá sem skulda í kerfinu og taka íbúðalán til að koma sér upp húsnæði og það á að vera sjálfsagður réttur þeirra að greiða upp lánið. Skora ég á hæstv. félmrh. að svara spurningum um þetta. Ég vil þakka honum sérstaklega fyrir að sýna umræðunni þann sóma að sitja hana alla. Það ætti kannski að vera sjálfsagt en er það nú ekki af því að ráðherrar eru misduglegir að sitja umræður. En hæstv. félmrh. sýnir þessari umræðu þann sóma og mun að mér skilst taka til máls hér að lokum og svara þeim spurningum og tilmælum sem til hans er beint. Það er mjög jákvætt og gefur þessari umræðu talsvert meira gildi heldur en ef hæstv. ráðherra sæi sér ekki kost að vera við hana.

Áður en ég fer út í aðra sálma langar mig sérstaklega að staldra við 90% lánin sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom einnig inn á. Þetta var eitt af meginmálunum í síðustu kosningabaráttu og óhætt er að fullyrða að Framsóknarflokkurinn hafi fengið töluvert fylgi út á loforð sín um 90% lán meðal yngra fólks og þeirra sem voru að huga sérstaklega að þessum málum. Í þeim auglýsingum og kosningaáróðri sem rak á mínar fjörur fyrir síðustu kosningar og þar sem þau mál voru tíunduð og kynnt af Framsóknarflokknum var ekkert talað um að þetta ætti að gerast eftir mörg ár eða að þakið væri lágt o.s.frv. Þess vegna vil ég nota tækifærið af því að þetta tengist augljóslega órofaböndum þeim lagabreytingum sem er fjallað um hérna þar sem verið er að gjörbreyta húsbréfakerfinu gamla og óvissa er um það hvort þessar breytingar séu nauðsynlegar eða hvort þær séu til góðs. Við munum þó með fyrirvara um nokkur atriði og brtt. styðja málið enda leyfum við því að njóta vafans og sjáum hvort þetta verður neytendum til hagræðis, bæði kaupendum og seljendum. En um það hlýtur málið að snúast að breyta kerfinu í þá veru og í þá átt að það sé kaupendum og seljendum húsnæðis til sem allra mests hagræðis. Við vonum að hér sé ekki á ferðinni breyting sem hafi það að undirliggjandi markmiði að einkavæða íbúðalánakerfið og þetta sé skref í þá átt að koma því frá ríkinu og setja það alfarið inn í bankana. Það þarfnast miklu vandaðri og yfirgripsmeiri umræðu, enda hef ég ekki heyrt þær nótur slegnar af framsóknarmönnum að svo eigi að vera þó svo að þær raddir hafi verið háværar í Sjálfstæðisflokknum. Sérstaklega varð vart við það þegar umræðan um 90% lánin var hávær hérna fyrir ári síðan og rúmlega það og mætti að manni fannst þá talsverðri mótstöðu í samstarfsflokki Framsóknar, Sjálfstæðisflokknum.

Þess vegna hlakka ég til að heyra hæstv. félmrh. gera okkur grein fyrir stöðu mála með 90% húsnæðislánin og langaði bara að bæta við þær spurningar og ítreka þær spurningar sem fram komu hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um það hvenær 90% lánin komi að fullu til framkvæmda, í hvaða skrefum og hvort ráðherra sér fyrir sér að sú framkvæmd verði að fullu stigin. Sjáum við það í einhverjum skilgreindum skrefum á næstu árum að 90% lánin verði tekin upp? Hvaða þak er fyrirhugað á 90% lánin? Hvaða þak er heppilegt að mati hæstv. ráðherra á 90% íbúðalán? Er verið að tala um lága upphæð þannig að einhver geti sagt að 90% loforðið hafi verið hálfgerður blekkingarleikur í aðdraganda kosninga þar sem þakið væri sett á 12--14 millj. kr. og skipti kannski engu verulegu máli frá því sem nú er? Eða erum við að tala um þak á verð á íbúðarhúsnæði og 90% lán á eitthvað sem er á bilinu 20--30 millj. kr.? Þá væri náttúrlega um að ræða meginbreytingu á íbúðalánakerfinu. Því nota ég þetta tækifæri til að beina þessum spurningum til hæstv. ráðherra:

Hvernig sér hann framkvæmd 90% lánanna fyrir sér?

Í hvaða skrefum og á hvaða tímabili verður þeim komið á og hvaða þak telur hann heppilegast að setja á 90% lánin?

Lokaspurningin sem þessu tengist:

Hvaða áhrif telur ráðherrann hæstv. að slík breyting hafi á verð á íbúðarhúsnæði, að fullu til framkvæmda komin og með það þak sem hann skilgreinir í sínum hugmyndum?

Margir hafa haldið því fram að 90% lánin að fullu til framkvæmda komin leiði til verulegrar hækkunar á íbúðarhúsnæði. Þess vegna hafa ýmsir goldið varhuga við þessum breytingum. Sjálfur er ég þannig stemmdur í þessu máli að ég vil ræða það í botn áður en ég kveð upp úr um það hvernig ég stend í því. Mér hefur þótt margt mjög varhugavert við það og sérstaklega það sem getur hækkað verð á íbúðarhúsnæði verulega eins og ýmsir hagfræðingar og sérfræðingar á húsnæðismarkaði hafa haldið fram. Þá tel ég að betur væri heima setið en af stað farið.

Til að loka þessu með 90% lánin, þá ætla ég að lokum, með leyfi forseta, að vitna í álit minni hluta félmn., í kafla sem heitir ,,Hækkun hámarkslána og bætt staða leigjenda``:

,,Félagsmálaráðherra lofaði því að í upphafi þessa þings yrði sett fram áætlun um hvernig hrinda ætti í framkvæmd hækkun á lánshlutfalli húsnæðislána í 90%. Var því m.a. lýst að fyrsta skrefið yrði tekið 1. desember 2003 ...``

Ber sérstaklega að geta þess að sú dagsetning er liðin. Áfram, með leyfi forseta:

,,... um að hækka lánshlutfallið í 90% sem að fullu ætti að vera komið til framkvæmda á árinu 2007. Ekkert liggur enn fyrir um hvernig staðið verði að framkvæmdinni og skákað í því skjóli að leita hafi þurft umsagnar Eftirlitsstofnunar EFTA. Það er auðvitað hreinn undansláttur í málinu enda telja sérfræðingar engar líkur á að stofnunin mótmæli framgangi málsins. Framsóknarflokkurinn taldi þó enga ástæðu til að kanna álit þeirrar stofnunar á málinu áður en kjósendum var lofað hækkun á lánshlutfalli og hámarksfjárhæðum lána. Ástæða er til að stíga skref í átt til þessarar hækkunar á lánshlutfalli með því að heimila að þeir sem eru að kaupa sér íbúð í fyrsta sinn fái allir hækkun á lánshlutfalli í 90% þegar 1. júlí. Það hefur óveruleg áhrif á stöðu Íbúðalánasjóðs því að stór hluti þeirra sem er að koma sér upp húsnæði í fyrsta sinn fær þegar 90% lán. Minni hlutinn gagnrýnir líka að ekkert hefur verið gert til að bæta stöðu leigjenda og tekur undir með ASÍ um að það sé algjört forgangsverkefni hjá stjórnvöldum að endurskoða félagslega íbúðakerfið, sérstaklega með tilliti til þeirrar miklu hækkunar sem orðið hefur á húsaleigu á undanförnum árum og sívaxandi fjölda þeirra sem eru á biðlistum eftir félagslegum leiguíbúðum.``

Þetta segir í áliti minni hlutans og ætla ég að láta það verða lokaorð mín um 90% lánin, enda hef ég komið þeim spurningum til hæstv. ráðherra og vona að hann svari þeim öllum og efast ekkert um að hann svari þeim öllum hér á eftir með glöðu gleði eins og hans er von og vísa.

Þá ætla ég að koma aðeins að því sem ég endaði á hér áðan í tilvitnuninni í minnihlutaálit félmn. og kemur mjög skýrt fram í umsögn Alþýðusambands Íslands um þetta mál, en það eru áhyggjur manna af stöðunni á leigumarkaðnum. Fyrir marga hópa er hún mjög þröng. Það er ekki verið að nota nein stóryrði úr samhengi við samfélagsástandið þegar fólk talar um neyð margra á húsnæðismarkaði.

[13:45]

Það er einfaldlega svo að mjög margir eiga erfitt með að standa straum af hárri leigu, fólk sem hefur ekki aðstæður til að kaupa sér húsnæði og þarf að þreyja þorrann á leigumarkaði. Hér ætti auðvitað að vera leigumarkaður sem fólk gæti verið á alla sína tíð ef það kysi, þannig að fólk liti ekki á það sem neyðarkost að vera á leigumarkaði, enda á það að geta verið alveg prýðilegur kostur. Þess vegna þurfum við að koma upp góðum og sanngjörnum leigumarkaði þar sem fólk getur verið alla sína búskapartíð án þess að kaupa sér húsnæði ef það kýs að haga sínum málum svo. En til að sú draumsýn rætist þarf mjög mörgu að breyta og vona ég að eitt af meginviðfangsefnum stjórnmálanna og félagsmálanna á næstu árum verði að breyta leigumarkaðnum verulega þannig að hann verði miklu sanngjarnari og skilvirkari heldur en nú og raunhæfur kostur fyrir Íslendinga, samhliða öðrum kerfum sem við höfum hér í sambandi við húsnæðiskaup eða búsetakerfi o.s.frv. Við þurfum að byggja upp leigumarkað sem virkar þannig að það verði komin upp kjölfesta, svo að það verði eins sjálfsagður, eðlilegur og góður kostur að leigja sér íbúð og að kaupa hana.

Í því tilliti ætla ég að vitna hérna í hina ágætu umsögn Alþýðusambands Íslands sem er undirrituð með kveðju frá Gylfa Arnbjörnssyni, framkvæmdastjóra ASÍ, með leyfi forseta.

,,ASÍ vill í upphafi koma tvennu á framfæri. Í fyrsta lagi hafa samtökin talið það algjört forgangsverkefni hjá stjórnvöldum að endurskoða félagslega íbúðakerfið, sérstaklega með tilliti til fjölda félagslegra íbúða og þeirrar miklu hækkunar sem orðið hefur á húsaleigukerfinu á undanförnum árum. Kannanir ASÍ og annarra staðfesta að þessi hækkun húsaleigu er ein af meginástæðum aukinnar fátæktar hér á landi.``

Ég undirstrika það sem ég sagði áðan að þessi himinháa húsaleiga fyrir lágtekjufólk og fátækt fólk á Íslandi er ein af meginástæðum þeirrar auknu fátæktar sem við vitum öll að er á Íslandi. Það væri mikið strandhögg í baráttunni gegn fátæktinni sem ég held að flestir stjórnmálamenn, ég segi flestir af því að fram hefur komið að það eru ekki allir, flestir stjórnmálamenn telja að sé eitt af meginverkefnum og aðalviðfangsefnum okkar sem hér störfum fyrir utan að vernda stjórnarskrána, mannréttindin og tjáningarfrelsið. En áfram segir hér, með leyfi forseta:

,,Í öðru lagi hefur Alþýðusambandið talið að minna liggi á að endurskoða almenna húsnæðiskerfið, þ.e. húsbréfakerfið. Engu að síður tilnefndi ASÍ fulltrúa sinn í nefnd félagsmálaráðherra sem fjalla átti um breytingarnar á almenna húsnæðiskerfinu. Nefnd þessi var skipuð sumarið 2003 og hefur lítið verið kölluð saman og alls ekkert til að fjalla um þetta frumvarp ...`` segir hér í þessari umsögn ASÍ um þetta.

Hér er mjög sterkt að orði kveðið og nota ég þetta til að undirstrika orð mín um leigumarkaðinn og mikilvægi þess að félagsmálayfirvöld og Alþingi ráðist í samstillt átak. Lögð hafa verið fram prýðileg þingmál um átak til að efla leigumarkaðinn, t.d. af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur á síðasta kjörtímabili. Ég held að menn ættu að geta tekið höndum saman um það mikilvæga mál ef mönnum er alvara um að vinna sérstaklega gegn fátækt á Íslandi, af því að það eru fyrst og fremst hinir efnaminni og fátækari sem þvælast á milli misgóðs og misdýrs leiguhúsnæðis. Oft er þetta unga fólkið eða öryrkjar, þeir sem verða einhvern veginn utangarðs í lífinu, eða hafa lent í því ungir að eignast börn og kannski ekki náð að ljúka námi, þannig að þeir hafa ekki náð þeim heimilistekjum sem nauðsynlegar eru til að standa undir húsnæði og fjölskyldurekstri og barnauppeldi. Allir sem búa á Íslandi í dag vita að það er verulega erfitt mörgu ungu fjölskyldufólki að koma sér upp húsnæði. Því tekst það misvel og lendir oft í því að leigja húsnæði sem hýsir millistóra fjölskyldu sem er bæði mjög vondur kostur að því leyti að það er mjög óstöðugt og ótryggt að vera leigjandi. Hér tíðkast ekki einhvers konar langtímasamningar til leigu, þá er ég að tala um samninga sem taka jafnvel til áratuga og á sanngjörnu verði, þannig að fólk geti bara lifað sínu lífi og unað við það að vera í leiguhúsnæði.

Þetta hefur sérstaklega komið illa við ungt fólk. Næsti kafli ræðu minnar hér fjallar einmitt um hugmynd sem við í Samfylkingunni kynntum að hluta til fyrir síðustu kosningar og ég skrifaði töluvert um í blöð og á vef minn, björgvin.is, fyrir tveimur árum í aðdraganda kosninganna. Hugmyndin gekk undir heitinu ,,Íbúðir fyrir ungt fólk``. Við í Samfylkingunni munum leggja hana fram sem þingmál við upphaf þings í haust og erum að vinna að þessu með þeim sem mest og gjörst til þekkja. Kjarninn er sá að lítið sem ekkert hefur verið byggt af smáíbúðum á Íslandi undanfarin ár. Ungt fólk á þar af leiðandi erfitt með að finna sér stað til að slá niður tjöldum vegna skorts á heppilegu húsnæði. Allt of margir ráðast í vonlausar fjárfestingar og eyða næstu árum og áratugum í glórulausan lífróður við að ná landi vegna allt of mikilla skulda við það eitt að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Það verður að grípa til róttækra aðgerða í húsnæðismálum ungs fólks. Því erum við að vinna að tillögu sem ég kynni hér í fyrsta sinn á hinu háa Alþingi.

Það hefur skapast ófremdarástand, hvort sem horft er til leigu- eða eignarhúsnæðis. Öruggt húsnæði og viðráðanlegir valkostir fyrir ungt fólk eru grundvöllur að allri velferð og þúsundir ungs fólks eru nú í miklum vanda vegna úrræðaleysis í húsnæðismálum og eru annaðhvort upp á ættingja komnar eða þurfa að hírast í litlum og lélegum kompum á rándýrum leigumarkaði. Það er mikilvægt að grípa til brýnna aðgerða sem duga til frambúðar og skapa varanlegan og góðan valkost í húsnæðismálum fyrir ungt fólk og fjölga smáíbúðum til leigu eða eignar.

Sænskir jafnaðarmenn fóru snjalla leið til að umbylta aðgengi ungs fólks að húsnæði. Sú leið hefur reynst mjög farsæl í Svíþjóð og hefur Samfylkingin mótað tillögur sínar að hluta með þær til hliðsjónar, tillögur sem gætu hentað okkar ástandi, okkar markaði hér á Íslandi.

Sú leið sem ég tel að við eigum að fara og gera að einu af okkar stóru málum er að stofna sérstök húsnæðisfélög til að ráðast í átak í uppbyggingu smáíbúða fyrir ungt fólk með þátttöku félagasamtaka, ríkis, fyrirtækja og/eða sveitarfélaga. Smáíbúðirnar væru hvort heldur er til leigu á félagslegum markaði eða til eignar. Það hefur skapast brýn þörf á varanlegum og raunhæfum úrbótum í þessum málum, enda mætti líkja stöðu margs efnalítils fólks á leigumarkaði við neyðarástand. Það er skylda samfélagsins að hlúa vel að unga fólkinu sem í okkar alþjóðavædda heimi velur sér búsetu eftir því hvar er gott að búa en sest ekki sjálfkrafa að á Íslandi. Stjórnvöld hafa brugðist þessari skyldu sinni, sérstaklega hvað varðar það unga fólk sem hefur ekki aðgang að digrum sjóðum við að koma undir sig fótunum eða komast inn í það hefðbundna íbúðakaupakerfi sem við höfum.

Þetta er eitt af meginmálunum til þess að jafna raunverulega lífskjörin á Íslandi, það er að ráðast í slíkt átak til að efla leigumarkaðinn og til að byggja sérstaklega íbúðir fyrir ungt fólk með stofnun sérstakra húsnæðisfélaga, ráðast í átak til byggingar smáíbúða með þátttöku félagasamtaka, ríkis, fyrirtækja, sveitarfélaga o.s.frv. og byggja íbúðir sem væru hvort heldur er til leigu á félagslegum markaði eða til eignar. Þetta gæti skipt miklu máli og það væri þess virði að við skoðuðum hér á hinu háa Alþingi að vinna að einhverjum slíkum tillögum sem gætu skipt miklu máli við að bæta úr þörfinni fyrir leiguhúsnæði og smáíbúðir. Það er byggt mikið af stærra húsnæði en víða um land og í mörgum sveitarfélögum er tilfinnanlegur skortur á smáíbúðum og húsnæði sem er heppilegt fyrir þá sem eru að hefja búskap.

Þetta mál mun ég að sjálfsögðu ræða aftur hér á Alþingi síðar og kynna sem ítarlega tillögu til þál. næsta haust.

Þá ætla ég að nefna hér að lokum nokkuð merkilega rannsókn sem var unnin af fimm nemendum í háskólanum á Bifröst, Hjálmari Blöndal og fjórum öðrum nemendum. Þar eru bornar saman verðtryggingar og gengistryggingar og er rannsóknin mjög merkileg fyrir margra hluta sakir. Hún hefur vakið töluverða athygli og höfundar kynna hana örugglega ítarlega og vel og vandlega á næstunni. Borið var saman tíu ára tímabil, annars vegar miðað við gengistryggingu og hins vegar verðtryggingu. Kom þar fram að á þessu 10 ára tímabili var verðbólgan hérlendis u.þ.b. 40% en gengisbreytingin á þessum sama tíma var 6%. Höfundar velta því upp í skýrslunni hvort það sé til muna hagstæðara fyrir almenning að taka t.d. húsnæðislánin sín sem gengistryggð lán en ekki verðtryggð og velta mjög mörgum athyglisverðum og ögrandi spurningum upp í skýrslunni. Mjög gott og fróðlegt er að skoða þetta í þessu samhengi og þegar við erum að ræða þessi mál og þessar meginbreytingar á húsnæðiskerfinu, þar sem lánin taka mið af breytingum á gengi. Dregin eru upp nokkur dæmi þarna. Eitt dæmi sem rammar mjög vel inn þessa þróun á þessum tíu árum er ein milljón íslenskra króna sem var tekin að láni hjá Íbúðalánasjóði fyrir tíu árum. Staðan á því láni núna tíu árum seinna var sú að það var búið að borga 800 þús. kr. af láninu en það stóð í einni milljón og sautján þúsundum. Sem sagt --- ein milljón tekin fyrir tíu árum hjá Íbúðalánasjóði á þeim kjörum sem þar eru stendur í milljón og sautján þúsund og afborgunin er 800 þúsund. Milljónarlán tekið eftir hinu kerfinu, sem sagt gengistryggt í erlendri og blandaðri mynt, stóð eftir 10 ár í 700 þús. kr. og búið var að borga af því 700 þús. kr. Samkvæmt þessum rannsóknum og niðurstöðum á samanburði á þessu 10 ára tímabili, þá er augljóslega til muna hagstæðara að taka gengistryggða lánið.

Þetta er athyglisverð rannsókn sem er gott að hafa til hliðsjónar og velta því sérstaklega fyrir sér með tilliti til gengisáhættu og allra slíkra hluta hvort það gæti verið vænlegur kostur fyrir íslenska húsnæðiskaupendur að taka lánin sín frekar með þessum hætti heldur en verðtryggð lán sem gengur ákaflega hægt að borga niður. Maður getur ímyndað sér 90% lán og að þakið á þeim verði hátt, 20 milljarðar og yfir. Niðurgreiðslan er óhemjuhæg og spurning hvort ekki sé mikið vænlegri leið að taka húsnæðislánin beint með öðrum hætti í erlendri mynt.

Auðvitað er áhætta í því en þessi rannsókn á síðustu 10 árum leiðir í ljós að það er miklu hagstæðara, það hleypur á verulegum upphæðum og því er þess virði að skoða málið mjög vel og vandlega í þessari umræðu um breytingar á húsnæðiskerfinu af því að markmiðið er að sjálfsögðu eins og segir í upphafi minnihlutaálitsins, með leyfi forseta:

,,Þegar breytingar eru gerðar á húsnæðislöggjöfinni er grundvallaratriði að þær tryggi betur hag almennra neytenda, þ.e. bæði kaupenda og seljenda húsnæðis. Þær breytingar sem felast í þessu frumvarpi eru endurskipulagning á verðbréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs með því að taka upp peningalánakerfi í stað húsbréfa og húsnæðisbréfa. Bankarnir hafa fagnað þeirri breytingu að leggja niður húsbréfakerfið og taka upp peningalán enda gengur breytingin mjög í átt til þess sem bankarnir hafa sjálfir lagt til. Ástæða er til að benda á að hér er verið að taka enn eitt skrefið í átt til einkavæðingar á Íbúðalánasjóði.

Umsagnaraðilar hafa yfirleitt tekið undir að þessi breyting geti verið jákvæð en tilgangur hennar á að vera að auka hagkvæmni fjármögnunar og skapa grundvöll fyrir trausta verðmyndun á frum- og eftirmarkaði. Til þess er litið að endurskipulagning á skuldabréfaútgáfunni muni stuðla að frekari lækkun á langtímavöxtum í framtíðinni en vextir hafa lækkað verulega að undanförnu. Vísbendingar eru nú um að vextir fari hækkandi og hægt er að draga það í efa að tímasetning þessara kerfisbreytinga sé rétt. Óljóst er hvernig háttað verður áhættugreiningu og áhættustýringu og hafa komið í ljós ýmsir óvissuþættir í því sambandi við meðferð málsins í nefndinni.

Ein helsta gagnrýni sem fram hefur komið snýr að heimild til uppgreiðslu lána og ljóst að ýmsir telja hana mikinn flöskuháls í þessu nýja kerfi. Ljóst er að vaxtaáhætta Íbúðalánasjóðs eykst verulega eftir því sem meiri líkur eru á uppgreiðslu af hendi lántakenda, sem gæti orðið ef mikið misvægi skapast í vöxtum á nýjum lánum og gömlum.``

Þetta segir í aðvörunarorðum í nál. minni hlutans sem er vel úr garði gert og tekur með mjög uppbyggilegum, gagnrýnum en góðum hætti á þessu annars ágæta máli sem flest bendir nú til að sé breyting til hins betra.

Undir það taka vissulega jafnólíkir aðilar og Alþýðusambandið, Hagfræðistofnun og BSRB og ætla ég að grípa hérna að lokum niður í umsögn BSRB um málið til að varpa ljósi á viðhorf þess, með leyfi forseta:

[14:00]

Umsögn BSRB 19. apríl 2004:

,,Meginbreytingin sem frumvarpið hefur í för með sér er að í stað húsbréfa verða gefin út íbúðabréf, sem seld verða í sameiginlegum útboðum og koma lántakendur til með að fá lán sín greidd í peningum í stað bréfa. Þótt margt megi gott segja um húsbréfakerfið hafa engu að síður fylgt því ýmsir ókostir og vegur þar þungt sú óvissa sem fylgir gengi bréfanna hverju sinni en þegar eftirspurn hefur verið lítil hafa afföll verið umtalsverð að sama skapi. Auðvitað verður óvissa enn fyrir hendi með tilkomu nýs fyrirkomulags því vextir íbúðabréfa munu ráðast af niðurstöðu úr sameiginlegum útboðum. Hins vegar er líklegt að með stórum útboðum megi ná vöxtum niður. Þar með verður áhætta lántakandans minni.

Þessa grundvallarbreytingu á kerfinu styður BSRB en hefur fyrirvara gagnvart 12. gr. frumvarpsins þar sem ráðherra er einhliða veitt heimild til að ákveða aukaþóknun, sem renni til sjóðsins ef lántakandi ákveður að hraða greiðslum eða greiða að fullu ÍLS-veðbréf ...``

Þetta segir í umsögn BSRB og er athyglisvert að heyra sjónarmið þess í þessu sambandi.

Við höfum komið víða við og eigum sjálfsagt eftir að gera það áfram í dag, enda nokkrir á mælendaskrá. Ráðherra mun svo loka málinu á eftir og fara yfir það sem til hans hefur verið beint, sérstaklega og ekki síst það sem lýtur að ákvæðum í frumvarpinu um uppgreiðslu lána. Vil ég enn og aftur ítreka það við þingheim og ráðherra hæstv. að það er mjög mikilvægt að þetta verði ekki samþykkt með þessum hætti heldur geti fólk greitt upp lán sín án þess að á það sé lagt sérstakt gjald. Það er mikið réttlætismál að málum verði þannig fyrir komið.

Eins með 90% lánið, það verður fróðlegt að fá svör frá hæstv. ráðherra um hvernig framkvæmdinni verður háttað á næstu árum, hvert þakið verður á lánunum og ekki síst hvaða áhrif hæstv. ráðherra telur að þetta kerfi muni hafa á verð á íbúðarhúsnæði og hvort til grundvallar mati hans og skoðun á málinu liggi einhverjar rannsóknir. Einnig hvaða rannsóknir hæstv. ráðherra styðst við ef hann telur að ekki verði verulegar breytingar á íbúðarverði og hvaða stoðum hann rennir undir það að þetta verði ekki til þess að hleypa verði á íbúðarhúsnæði þannig upp að miklu betur hefði verið heima setið heldur en af stað farið.

Vafalaust þyrstir marga aðra en mig í skýr svör um 90% lán Framsóknarflokksins, enda er vafamál að nokkurt einstakt kosningamál hafi verið meira auglýst eða kynnt með öðrum eins tilþrifum. Margar auglýsingar lifa í minningunni og þykja örugglega nokkuð snilldarlegar út frá sjónarmiðum áróðurstækninnar og auglýsingabrellnanna. Þótt ýmsum hafi þótt þær orka tvímælis voru þær alla vega svo ágætar að menn muna þær enn.

Ráðherrann hæstv. skuldar okkur skýringar á því hvenær og hvernig 90% lánin verða framkvæmd. Dagsetningin 1. desember 2003 er löngu liðin og hann hlýtur að kveða skýrt upp úr um það hvernig hann sér fyrir sér framvindu þessara mála.