Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 14:06:17 (8920)

2004-05-25 14:06:17# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, BJJ
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[14:06]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál og er borið hér fram af hæstv. félmrh.

Í frv. er boðuð kerfisbreyting sem felur í sér að húsbréfakerfið eins og það lítur út nú verður að öllum líkindum lagt niður frá og með 1. júlí nk. og við munum hverfa yfir í peningalánakerfi eða svokölluð íbúðabréf af hendi Íbúðalánasjóðs.

Eins og segir í markmiðsgrein frumvarpsins er markmiðið hjá hæstv. ráðherra að tryggja landsmönnum hagkvæmari húsnæðislán hjá Íbúðalánasjóði með ódýrari fjármögnun á almennum lánamarkaði. Það er gert í þessu frumvarpi með því að einfalda fjármögnunarleiðir Íbúðalánasjóðs. Það sem fjárfestar hafa sett út á á hinum almenna markaði er útdráttarfyrirkomulagið sem hefur verið á húsbréfunum fram á þennan dag. Með því að fara úr húsbréfakerfi yfir í peningalánakerfi eða íbúðabréf eru skilmálar bréfanna einfaldaðir að því leyti að útdráttarfyrirkomulagið sem hefur verið við lýði á umliðnum árum verður það ekki áfram og bæði sérfræðingar á markaði og aðrir búast við að eftirspurn eftir þessum fjármögnunarbréfum muni aukast í kjölfarið. Þar af leiðandi mun ávöxtunarkrafa íbúðabréfa lækka í kjölfarið og þannig munu neytendur eða íbúðarkaupendur hér á landi njóta ávinningsins í lægri vöxtum.

Það frumvarp sem hér um ræðir er ein birtingarmynd þess sem við framsóknarmenn töluðum um fyrir síðustu kosningar og er hluti af loforði okkar þá um 90% húsnæðislán sem við munum standa við. Breytingin er til meðhöndlunar hjá Eftirlitsstofnun EFTA og við eigum von á því að á næstu missirum kveði Eftirlitsstofnunin upp um það hvort okkur er heimilt að veita 90% húsnæðislán.

Ég held að við hljótum öll að vera sammála um það að í löggjöf og öðru slíku viljum við vera nokkuð trygg gagnvart Evrópureglum og þess háttar. Því á ég bágt með að trúa öðru en allir hér inni séu sammála um að mjög mikilvægt sé að fyrir liggi álit Eftirlitsstofnunarinnar um að þetta sé heimilt. Persónulegt mat mitt er að það sé nokkuð í hendi að við fáum grænt ljós frá stofnuninni.

Í störfum félmn. var farið mjög ítarlega yfir málið og fengið fólk á fundi sem gaf umsagnir um málið. Ef við horfum heildrænt á umsagnirnar voru þær í flestum tilvikum mjög jákvæðar og menn bundu vonir við að breytingarnar sem við beitum okkur fyrir hér leiði til lækkandi vaxta og þar af leiðandi til bættra kjara almennings og íbúðarkaupenda hér á landi.

Til nefndarinnar kom fólk frá Íbúðalánasjóði og gerði grein fyrir vinnunni sem þar hefur átt sér stað við innleiðinguna. Í fyrsta lagi var nefnt að búið er að fá Deutsche Bank til þess að annast þau miklu skuldabréfaskipti sem verða með tilkomu kerfisbreytingarinnar. Ég þarf ekki að taka fram að Deutsche Bank er þaulreynt fyrirtæki á þessu sviði og er mjög virt um víða veröld, enda er mjög mikilvægt að skiptin sem fram undan eru, menn hafa nefnt upphæðir líkt og 300 milljarða kr. sem eru engir smápeningar, fari mjög vel fram og að engir hnökrar verði á framkvæmdinni. Ég hef enga ástæðu til að ætla að svo fari af samtölum mínum við þessa menn, þeir eru bjartsýnir á að þetta muni ganga giftusamlega fyrir sig, enda eru þar fagmenn á ferðinni.

Í annan stað hefur Íbúðalánasjóður leitað til sænsks fyrirtækis sem heitir Capto og hefur unnið að áhættugreiningu fyrir Íbúðalánasjóð gagnvart vaxtaáhættunni sem sjóðurinn þarf vissulega að bera í framtíðinni með nýju kerfi. Fyrirtækið er mjög reynt í slíkri ráðgjöf. Sú vinna stendur yfir, m.a. mun fyrirtækið koma að því að endurbæta hugbúnað sjóðsins og annað slíkt auk almennra ráðgjafarstarfa. Ég hef trú á því að Íbúðalánasjóður, ásamt þessum tveimur aðilum, muni standa mjög vel að þessu mikilvæga máli, enda er afar mikilvægt að hér takist vel til.

Ég vil segja almennt um starfsemi Íbúðalánasjóðs að hún er mjög mikilvæg fyrir landsmenn alla. Ríkið tengist lánveitingum til íbúðarkaupenda með því að veita ríkistryggingu á húsnæðislán, sem gerir það að verkum að vextir Íbúðalánasjóðs eru 1--1,5% eða 2% lægri en gengur og gerist á almennum markaði.

Ég vil líka segja það sem þingmaður Norðaust. sem er landsbyggðarkjördæmi að tilvera Íbúðalánasjóðs er líka mjög mikilvægt fyrir landsbyggðina því að Íbúðalánasjóður mismunar ekki íbúðarkaupendum eftir því hvort þeir búa norður á Akureyri, austur á Egilsstöðum, í Reykjavík eða á Ísafirði, allir eru jafnsettir gagnvart Íbúðalánasjóði. En við höfum orðið vitni að því að mörg sveitarfélög víða um land og margir íbúðarkaupendur þar hafa fengið 65% eða 70% lán hjá Íbúðalánasjóði en síðan hafa bankar, almennar bankastofnanir, neitað að lána meira til íbúðarkaupanna þar sem þeir telja veðhlutfall húsnæðisins ekki nógu tryggt. Því gegnir sjóðurinn mjög mikilvægu hlutverki. Það er mikið hagsmunamál að lánshlutfallið sem við ræðum hér, breyting úr 65% upp í 90%, verði að veruleika því að það er sérstaklega mikið réttlætismál fyrir íbúa landsbyggðarinnar að geta keypt sér húsnæði á eins hagkvæmum kjörum og mögulegt er.

Það er samdóma álit þeirra sem um málið hafa fjallað að breytingin sem við horfum hér fram á stuðli að lækkun vaxta. Vextir húsbréfa hafa myndað vaxtagólf á lánamarkaði hér á landi og hafa verið þeir lægstu sem um getur á markaðnum. Nú hafa ýmsir í þjóðfélaginu verið að ræða það að lækkun vaxta getur orðið frá 0,5% upp í 1,5--2% samkvæmt þeim sem dýpst taka í árinni.

Mig langar að vitna í blaðagrein eftir Harald Johannessen, sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi áðan og vil, með leyfi forseta, vitna orðrétt í hana. Þar segir að í mánaðarútgáfu Barclays Capital komi fram að ...:

,,... möguleikinn til að fjárfesta miðað við 4% raunvexti þegar mikilvægar umbætur og aukinn seljanleiki séu fram undan sé eftirsóknarverður fyrir stofnanafjárfesta og muni líklega vega þyngra en efasemdir um að fjárfesta í fremur lítið seljanlegri mynt. Talið er sérstaklega jákvætt að losna við útdráttinn, þ.e. endurkaup bréfanna, og að flokkunum muni fækka úr 38 í 4. Barclays Capital telur litla ástæðu til að ætla að ávöxtunarkrafan muni ekki lækka enn meira en orðið er.``

Það þýðir jafnvel lækkun vaxta upp á allt að 1%. Ef við höfum í huga að skuldir íslenskra heimila eru samkvæmt síðustu tölum sem ég hef heyrt um 800 milljarðar kr., þá þýðir þetta að ávinningurinn fyrir íslensk heimili verður um 8 milljarðar kr. á hverju einasta ári ef við höfum 1% til viðmiðunar sem er svo sem ekki heilög tala. Ef við ætlum að átta okkur á því í hvers konar samhengi við erum að ræða svona háar upphæðir, því hér er vissulega um háar upphæðir að ræða, þá má taka sem dæmi að útgjöld ríkissjóðs til barnabóta, sem skipta margar barnafjölskyldur mjög miklu máli hér á landi, eru um 5,4 milljarðar kr. og útgjöld ríkissjóðs til vaxtabóta eru um 4,5 milljarðar kr. 8 milljarðar kr. í því samhengi eru þess vegna gríðarlega háar upphæðir og munu þar af leiðandi skipta fjölskyldurnar í landinu gríðarlega miklu máli.

[14:15]

Það er mitt mat að vextir lækki í kjölfar þessara breytinga.

Ég ætla að vitna áfram í grein Haraldar Johannessens. Í niðurlagi hennar segir, með leyfi forseta:

,,Horfur um sölu á íslenskum verðtryggðum skuldabréfum eru því góðar og fátt sem bendir til að Íslendingar þurfi að hafa áhyggjur af því að erlendir fjárfestar missi áhuga á bréfunum á næstunni.``

Þetta er því mjög jákvæð úttekt á breytingunni sem við ræðum hér og flestir sem ræddu málið fyrir nefndinni voru einnig mjög jákvæðir í garð þessara breytinga.

Mig langar að segja að lokum, hæstv. forseti, að 90% húsnæðislánin voru mjög jákvæð breyting á sínum tíma. Það hefur sýnt sig að vanskil þeirra sem hafa tekið 90% lán hjá Íbúðalánasjóði hafa verið um 0,12% en vanskil annarra, sem hafa þá verið með önnur lán, hafa oft verið á bilinu 0,2--0,3%. Því má segja að 90% húsnæðislán hafi virkað vel og hafi haft mikla þýðingu fyrir mjög marga sem eru að ljúka námi og koma úr skóla. Þeir hafa þá getað keypt húsnæði fyrir fjölskyldu sína.

Það er eðlilegt að þetta mál fái góða og mikla umfjöllun eins og það hefur fengið í hv. félmn. og mjög mikilvægt er að vel verði að þessari framkvæmd staðið. Ég hef trú á því að Íbúðalánasjóður standi undir þeim væntingum. Það mun reyna á framkvæmd laganna og ábyrgð Íbúðalánasjóðs á framkvæmdinni er mjög mikil. Eins og ég hef dregið fram er því mjög mikilvægt að sjóðurinn skuli hafa leitað til fagaðila hvað þetta varðar, Capto og Deutsche Bank. Ég tel að það styrki framkvæmdina og auki trú aðila á markaðnum á það að við stöndum vel og rétt að málum. Þetta eru skuldabréfaskipti upp á jafnvel nokkur hundruð milljarða, kannski 300 milljarða kr., og því mjög mikilvægt að vel sé að öllu staðið.

Að lokum vil ég segja að ég hef þá trú að með þessu frv. sem við erum vonandi að fara að samþykkja sé stigið fyrsta skrefið í þá átt að lækka vaxtastigið verulega hér á landi, í átt til þess sem gengur og gerist annars staðar í Evrópu, til hagsbóta fyrir íbúðakaupendur og til hagsbóta fyrir almenning hér á landi.