Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 14:18:23 (8921)

2004-05-25 14:18:23# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, KJúl
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[14:18]

Katrín Júlíusdóttir:

Virðulegi forseti. Í morgun heyrði ég frétt í útvarpinu um að íbúðaverð hefði tvöfaldast frá því snemma á árinu 1997, þ.e. á sjö árum. Þegar verið er að ræða grundvallarbreytingu á húsnæðislánakerfinu finnst mér að við eigum að taka góða umræðu um stöðu húsnæðismála hér á landi og hvernig það er fyrir ungt fólk að komast inn í kerfið. Staðan er þannig að það er hreinlega ekki einfalt vegna þess að húsnæðisverð er gríðarlega hátt og fer hækkandi. Í sömu frétt kom fram að gert er ráð fyrir að verðið hækki enn frekar á næstu árum sem gerir það enn erfiðara fyrir ungt fólk að kaupa íbúð og líka fyrir þá sem koma inn í kerfið í fyrsta sinn.

Leiguverð er einnig gríðarlega hátt eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson nefndi áðan. Það er alveg ljóst að við eigum við mikinn vanda að etja í húsnæðismálum. Þarna er ég aðallega að tala um unga fólkið sem er líka lágtekjufólkið.

Það var svolítið gaman að öllum þessum loforðaflaumi framsóknarmanna vegna þess að þeir komu út úr kosningabaráttunni síðast með þá ímynd að þeir væru svolítið poppaðir og ætluðu að gera ýmislegt í húsnæðismálum. Þeir voru með ágætis auglýsingar um það sem ég held að hafi samt aðallega snúist um það hvernig foreldrar ætluðu að reka börnin sín að heiman og fyrir hvað. Það var ákveðin tvíræðni í því en ég ætla ekki að dæma það sérstaklega.

Mér þótti samt nokkuð merkilegt að heyra hv. þm. Birki Jón Jónsson nefna það áðan að þessi 90% lán sem framsóknarmenn lofuðu standi og falli með því hvað Eftirlitsstofnun EFTA segir um málið og verið sé að bíða eftir því að stofnunin kveði upp úr um hvort ríkið getur gert þetta. Í gær var samþykkt hér frumvarp, fjölmiðlafrumvarp, og allsherjarnefnd sem fjallaði um það mál var ekki einu sinni boðið upp á slíkt hið sama. Það leikur líka mjög mikill vafi á því að fjölmiðlafrumvarpið standist ákveðnar reglur og gerðir í EES-samningnum. Þess vegna þykir mér undarlegt að þegar Framsóknarflokkurinn er núna áfram um að efna kosningaloforð sín verði fyrst að tala við Eftirlitsstofnun EFTA.

Auðvitað styð ég vönduð vinnubrögð, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, það geri ég ávallt. Þess vegna samþykkti ég heldur ekki fjölmiðlafrumvarpið í gær.

Ég ætla aðeins að fjalla um frumvarpið sjálft, virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði, þá erum við í Samfylkingunni nokkuð jákvæð gagnvart þessari kerfisbreytingu en teljum þó að í frumvarpinu séu ýmis atriði, aðallega framkvæmdaratriði, sem vert er að hafa áhyggjur af og ég ætla að nefna nokkur sem er reyndar fjallað ítarlega um í nefndarálitinu.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að hætta er á því að vextir geti breyst frá einu útboði til annars og þar með að sjálfsögðu lánskjörin. Talið er að þetta geti skekkt verðmyndun á fasteignamarkaði. Það kemur einnig fram í nefndarálitinu að fulltrúi Félags fasteignasala sem mætti á fund nefndarinnar tók undir þessi sjónarmið. Ég tel rétt að þetta atriði verði skoðað nánar.

Í öðru lagi vil ég nefna að því er haldið fram hér að afföllin muni hverfa með öllu en eins og kemur fram í nál. minni hlutans skiptast afföllin sem nú koma fram á markaði yfirleitt á milli kaupenda og seljenda. Þetta er jöfn ábyrgð en eins og fram kemur í nefndarálitinu munu þau að öllum líkindum lenda á lántakandanum í nýju kerfi, koma fram í hærri vöxtum og dreifast á allan lánstímann. Þetta atriði tel ég að við verðum að skoða betur vegna þess að affallakerfið nú er það vont og kemur sér það illa fyrir þá sem lánin taka að við megum ekki breyta því heldur eigum við að reyna að afnema það. Við eigum ekki að breyta farvegi fjárins sem kemur úr höndum kaupenda og seljenda.

Í þriðja lagi verð ég að koma aðeins inn á það sem hv. þm. og framsögumanni minni hluta félmn., Jóhönnu Sigurðardóttur, var tíðrætt um en það er uppgreiðsla lána.

Það er mjög mikilvægt að lántakendur geti stólað á að geta borgað upp lánin sín án þess að borga fyrir það formúur. Það hlýtur að vera réttur hvers manns sem tekur lán að fá að greiða þau hraðar upp að fullu en gert var ráð fyrir upphaflega. Því eigum við að fagna, við eigum ekki að taka fyrir það gjald.

ASÍ hefur nefnt þetta og við höfum tekið undir þau sjónarmið að það hljóti að vera réttur skuldara að greiða upp skuldir sínar án þess að verða fyrir verulegri gjaldtöku.

Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom líka aðeins inn á nýbyggingarlánin, en mér er það mikið áhyggjuefni ef við ætlum að breyta út af þeirri braut að þau séu greidd í þrennu lagi, þ.e. jafnt og þétt á byggingartímanum, og breytum yfir í kerfi þar sem þetta er eingreiðsla í lok framkvæmdatímabils. Við hljótum að hafa áhyggjur af því vegna þess að gert er ráð fyrir því að þeir sem þessi lán taka hafi þurft að sækja sér lán annað með gríðarlegum fjármagnskostnaði. Ég spyr hvort Framsóknarflokkurinn ætli með einhverjum hætti að bæta það upp eða hvernig því verði hagað?

Jafnframt segir í þessu ágæta minnihlutaáliti að hjá fulltrúum ASÍ sem mættu á fund nefndarinnar hafi komið fram miklar áhyggjur af víðtækum heimildum ráðherra til gjaldtöku. Það kemur líka fram að ASÍ styðji frumvarpið að því gefnu að tekið verði tillit til sjónarmiða þess um að skuldari eigi að geta greitt upp skuldir sínar án sérstaks álags. Það er nógu dýrt að taka þessi lán núna. Ef við ætlum að breyta kerfinu, þá eigum við að reyna að gera það almennilega og ekki þannig að skildar séu eftir víðtækar heimildir fyrir ráðherra til aukinnar gjaldtöku af lántakendum.

Virðulegi forseti. Það sem ég sakna í þessu frumvarpi og það sem ég sakna við gjörðir ríkisstjórnarinnar eins og þessa sem hefur bein áhrif á fjölskyldurnar í landinu, á ungt fólk og þá sem eru að koma sér upp þaki yfir höfuðið, er að ekki er litið heildrænt á málin. Mér finnst vanta við svona lagasetningar, ekki síst hjá félmrn., að gerðar séu almennilegar rannsóknir á því hvaða afleiðingar svona lagagjörðir, þar sem gerð er grundvallarbreyting á húsnæðiskerfi landans, hafa á ákveðnar gerðir fjölskyldna hér á landi.

Árið 1998 var stofnað opinbert fjölskylduráð. Rannveig Guðmundsdóttir gerði tillögu um það á sínum tíma og hún var síðan framkvæmd í tíð hv. fyrrverandi ráðherra, Páls Péturssonar, gríðarlega gott mál þar á ferð. Markmið þessa fjölskylduráðs var að móta opinbera fjölskyldustefnu, taka á móti frumvörpum, vera ráðgefandi fyrir ríkisstjórnina og gera úttekt á því hvaða áhrif ákveðnar stjórnvaldsaðgerðir hefðu á fjölskyldur í landinu. Ég kem inn á þetta hér, virðulegi forseti, vegna þess að ég tel gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld fari loksins að opna augun fyrir því að t.d. millitekjufjölskylda, ungt fólk sem hugsanlega á eitt til tvö börn og er að koma úr námi, mjög klassísk ung fjölskylda, situr uppi með þær gjörðir þessarar ríkisstjórnar á undanförnum árum að allir opinberir aðilar líta á samtöluna á skattskýrslunni þeirra. Svo er kroppað í hana en það er aldrei litið á hlutina í samhengi. T.d. borgar ein og sama fjölskyldan tugi þúsunda á mánuði í leikskóla. Sama fjölskylda borgar tugi þúsunda á mánuði af námslánum. Sama fjölskylda borgar af húsnæðisbréfum, borgar af húsnæðislánum, og er þar að sjálfsögðu með háa vexti og verðbætur í ofanálag þannig að ef ríkið ákveður að hækka brennivínið, þá hækka lánin líka. Þetta fólk á ekki mikið eftir þegar af öllu hefur verið tekið vegna þess að enginn skoðar samhengið í útgjöldum þessara fjölskyldna. Hins vegar eru þær gríðarlega skattlagðar, barnabæturnar hafa verið skertar og þær lenda harkalega í tekjutengingum barnabóta.

[14:30]

Þessar sömu fjölskyldur lenda svo í því núna á haustdögum að vaxtabæturnar til þeirra eru skertar um 600 millj. kr. Fyrirgefðu, herra forseti, ég verð bara að koma þessu að hérna vegna þess að það er til fyrirbæri sem heitir fjölskylduráð og maður hefði haldið að hæstv. félmrh. mundi sjálfur leita til þess þegar frumvarp sem hefur áhrif á afkomu fjölskyldna er til umræðu.

Ég get ekki annað en vitnað í svar frá félmrh. við fsp. Rannveigar Guðmundsdóttur um fjölskylduráð og opinbera fjölskyldustefnu. Ég ætla að að lesa 2. lið fyrirspurnarinnar í heild sinni, með leyfi forseta, og svarið síðan þar á eftir. Spurningin er þessi:

,,Hafa stjórnvöld leitað eftir ráðgjöf frá fjölskylduráði vegna áforma um stjórnvaldsaðgerðir til að bæta stöðu fjölskyldunnar í samfélaginu og í hvaða tilfellum og hvernig hafa stjórnvöld brugðist við ábendingum fjölskylduráðs um úrbætur í fjölskyldumálum?``

Virðulegi forseti. Svarið segir hugsanlega allt um áhugann á því að líta heildrænt á málefni fjölskyldunnar. Það er eftirfarandi:

,,Stjórnvöld hafa einkum leitað eftir ráðgjöf frá fjölskylduráði vegna þingmála og þátttöku í fundum og ráðstefnum. Að öðru leyti hefur lítið verið leitað til ráðsins nema af hálfu félagsmálaráðuneytis en nokkrar umræður um verkefni hafa farið fram í samtölum milli ráðherra, starfsmanna ráðuneytisins og formanns og starfsmanns fjölskylduráðs.``

Með öðrum árum, frá árinu 1998 hefur ekkert frumvarp verið sent til þessarar nefndar. Ekki eitt einasta lagafrumvarp. Það eru nú lagafrumvörpin sem hafa áhrifin á barnafjölskyldur, ekki ráðstefnur og þingsályktanir, ekki með jafnbeinum hætti.

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta segja allt sem segja þarf um áhugann eða áhugaleysi stjórnvalda á að líta heildrænt á málefni barnafjölskyldna, vegna þess að við eigum farveg til þess.

Þá vil ég einnig nefna gott frumkvæði frá þessu fjölskylduráði sem er fyrirbæri sem heitir fjölskylduvog og á að vera mælikvarði á stöðu barnafjölskyldna og fjölskyldna hérlendis hverju sinni. Enn sem komið er og allt of lengi hefur þetta eingöngu verið góð hugmynd vegna þess að fjármagn hefur ekki fylgt til þess að þetta megi gerast og ganga sem best. Frá 1998 hefur ekkert svona orðið til. Mér finnst það ábyrgðarhluti. Ef hæstv. félmrh. setur slíkt ráð á laggirnar á að sjálfsögðu að senda þangað frumvörp sem snerta fjölskyldur hérlendis. Mér er algjörlega óskiljanlegt hvers vegna það er ekki gert.

Ég vil hvetja hæstv. ríkisstjórn til þess að fara í eitt skipti fyrir öll að líta heildstætt á stöðu fjölskyldunnar og fara að láta mæla áhrif frumvarpa á fjárhagsstöðu barnafjölskyldna vegna þess að róður þeirra er gríðarlega þungur. Ég get fullyrt að þegar ríkisvaldið hefur kroppað af fjölmörgum millitekjufjölskyldum úr ýmsum áttum og tekjutengt barnabæturnar og skert þær, þá eiga þær ekki mikið eftir til þess að lifa af og eiga fyrir nauðsynjum. Að auki er matarverð gríðarlega hátt hér á landi. Ríkið tekur stóran bita af þeirri köku með virðisaukaskattinum. Fleiri svona atriði mætti tína til.

Virðulegi forseti. Ég ákvað að nota tækifærið til þess að koma inn á málefni barnafjölskyldna vegna þess að ég tel að í hvert eitt og einasta skipti sem stjórnvaldsaðgerð tengist málaflokkum sem snerta fjölskyldurnar beint, þá verði að gera úttekt og láta hana fylgja með frumvarpi sem þessu, úttekt á áhrifunum á einstæðar mæður, á einstæða feður, á millitekjufjölskyldur, á eldri hjón á ellilífeyri o.s.frv. Þetta verður að liggja fyrir þegar svona stjórnvaldsaðgerðir eiga sér stað.