Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 15:11:00 (8923)

2004-05-25 15:11:00# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Ég ætla aðeins að víkja að nokkrum atriðum varðandi þetta frv. til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál sem hér er til 2. umr.

Það er alveg hægt að taka undir það meginmarkmið frumvarpsins sem er tilgreint í athugasemdum með því en þar segir, með leyfi forseta:

,,Það frumvarp sem hér er lagt fram hefur það að markmiði að tryggja landsmönnum hagkvæmari húsnæðislán í gegnum Íbúðalánasjóð með ódýrari fjármögnun á almennum lánamarkaði. Þessu markmiði á að ná með endurskipulagningu á verðbréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs sem eykur hagkvæmni fjármögnunar, sníður af helstu agnúa sem eru á núverandi útgáfu og skapar grundvöll fyrir traustri verðmyndun á frum- og eftirmarkaði íbúðabréfa.``

Þetta markmið er í sjálfu sér ágætt og hægt er að taka undir það.

Eins og rækilega hefur verið bent á í umræðunni eru húsnæðismál hluti af þeim frumrétti fólks að hafa þak yfir höfuðið og það í viðunandi búnaði og á viðunandi kjörum, hvort sem húsnæðið er í eigu viðkomandi eða er á leigu.

Það er samt athyglisvert í þessari lagaumgjörð um húsnæðismál að krafan eða skyldan er í rauninni sett á sveitarfélögin, sjálfsagt sem liður í gamalli framfærsluábyrgð á íbúum sveitarfélagsins. Krafan er sett á sveitarfélagið en ríkið leggur aftur á móti upp lagaumgjörðina.

Það sem ég hefði einmitt viljað sjá skýrt nánar í þessu frumvarpi hér og breytingunum sem hér eru gerðar á húsnæðiskerfinu er hvort staða sveitarfélaganna breytist, hvort fjárhagsleg ábyrgð eða fjárhagslegar skyldur sveitarfélaganna breytast með einhverjum hætti í kjölfar þessa frumvarps. Við þekkjum það hér að Alþingi er nógu gírugt að setja lög sem miða oft að því að vísa ábyrgð til annarra og fjárhagslegum skuldbindingum á aðra og ekki síst á sveitarfélögin. Ég er í sjálfu sér ekkert að mælast til þess að sveitarfélögin víkist undan því að ábyrgjast að allir þegnar sveitarfélagsins hafi viðunandi og gott húsaskjól og íbúðarhúsnæði til þess að fullnægja eðlilegum þörfum í samfélaginu. Mér finnst eðlilegt í sjálfu sér að sveitarfélögin hafi þá ábyrgð en þá þarf líka að vera skýrt í svona lagasetningu hver staða þeirra er í hinu nýja lagaumhverfi.

Ég hef blaðað lauslega í gegnum þetta og sé hvergi minnst á sveitarfélögin í þessum lagabreytingum öllum. Kannski er þess ekki þörf en þó finnst mér það nokkuð kyndugt þar sem ábyrgðin gagnvart þegnunum hvílir þar. Mér finnst kyndugt að hvergi sé vikið að því í frumvarpinu.

[15:15]

Ég ítreka að ég óska eftir því að hæstv. ráðherra geti greint frá því í ræðu sinni síðar í dag hver staða sveitarfélaganna er, hver ábyrgð þeirra er og hvort hún breytist og hverjir möguleikar þeirra eru til þess að standa undir ábyrgðinni sem á þau er lögð.

Það er í sjálfu sér margt gott í þessu frumvarpi og ég hygg að gott eitt hafi vakað fyrir þeim sem sömdu það og unnu. Þó hlýt ég að hnjóta um orðalag í áliti minni hluta félmn., ágætu og ítarlegu áliti minni hluta félmn., þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Þær breytingar sem felast í þessu frumvarpi eru endurskipulagning á verðbréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs með því að taka upp peningalánakerfi í stað húsbréfa og húsnæðisbréfa. Bankarnir hafa fagnað þeirri breytingu að leggja niður húsbréfakerfið og taka upp peningalán enda gengur breytingin mjög í átt til þess sem bankarnir hafa sjálfir lagt til. Ástæða er til að benda á að hér er verið að taka enn eitt skrefið í átt til einkavæðingar á Íbúðalánasjóði.``

Þetta upphaf á áliti minni hluta félmn. hlýtur að vekja nokkra tortryggni og spurningar um framhaldið. Við þekkjum það hvernig ríkisstjórnin hefur laumast skref fyrir skref til að taka hvern félagsþáttinn, grunnalmannaþjónustuþáttinn, á fætur öðrum og einkavæða hann í áföngum, oft dulbúinn fyrst en síðan grímulausan þegar nær dregur.

Við þekkjum öll umræðuna sem hefur verið á undanförnum vikum og mánuðum og missirum um ósk og löngun bankanna til að komast yfir íbúðalánasjóðskerfið, ná því með ríkisábyrgð líkt og nú er, og geta síðan rekið hér gríðarleg fjármálaumsvif með ábyrgð ríkisins. Það sér hver sjálfan sig í því ef hann er þannig innrættur að þetta er náttúrlega fundið fé ef almennar bankastofnanir komast í það og við höfum fengið að kynnast því á undanförnum vikum og mánuðum að stofnanir á slíkum markaði hafa það markmið eitt að hámarka arð hluthafa sinna og tilgangurinn helgar oft meðalið í þeim efnum.

Sú breyting að leggja niður húsbréfakerfið og taka upp peningalánakerfi gæti því að mati minni hlutans verið skref í átt að því að íbúðalánasjóðskerfið yrði einkavætt í áföngum eða auðveldað það. Ég vara við öllum hugmyndum í þá átt og er því náttúrlega alfarið andvígur. Íbúðarhúsnæði er hluti af grunnalmannaþjónustu í samfélaginu, frumþörf íbúanna, og það á ekki að leyfa því að verða að féþúfu stofnana sem hugsa um það eitt að hámarka peningalegan arð sinn. Það má ekki gerast en ég veit að þrýstingurinn verður nægur og við höfum þegar orðið vör við löngun bankakerfisins til þess að komast yfir þetta kerfi og maka síðan krókinn. Ég vara við því að stigin verði skref sem geti leitt til þess. Ábyrgð ríkisins á fjármagni til húsbyggjenda sem hefur verið í ýmsum kerfum á undanförnum árum hefur þó leitt til þess að stór hluti Íslendinga hefur átt þess kost að koma sér upp eigin húsnæði. Fólk hefur þurft að leggja mikið á sig en engu að síður hefur þetta í flestum tilfellum verið kleift. Hitt kerfið er leiguíbúðakerfið, þar sem einnig var gert mögulegt að byggja upp leiguíbúðakerfi á félagslegum grunni sem hentaði þeim sem gátu nýtt sér það. Þannig höfum við verið með tiltölulega virkt eignaíbúðakerfi og leiguíbúðakerfi sem hið opinbera hefur borið ábyrgð á. Þess vegna hefur verið hægt að halda kostnaði niðri, bæði við fjármögnun og rekstur slíks kerfis, sem hefur komið samfélaginu til góða.

Þessum sjónarmiðum má alls ekki víkja til hliðar á neinn hátt. Það er sjálfsagt að skoða einhverjar nýjar útfærslur ef þær gætu styrkt kerfið, gert það markvissara, gert það auðveldara í meðförum og ódýrara, en það má alls ekki víkja frá þessari grunnskyldu og þessari grunnhugsjón sem við höfum byggt samfélag okkar upp á. Það eru nægir til þess að bora í svona hugsjónir, svona félagshyggju, sem við höfum byggt upp, það eru næg öfl og sterk öfl til að bora í þær og gera sér þær að féþúfu, því höfum við kynnst á undanförnum vikum og missirum. Þess vegna verður brýningin aldrei óþörf hvað þetta varðar. Þess vegna vara ég við því að hér séu stigin skref í einkavæðingu á íbúðalánasjóðskerfinu og legg áherslu á að samfélagið, ríki og sveitarfélög, verði áfram ábyrgðaraðilar fyrir því að íbúarnir geti komið sér upp húsnæði, annaðhvort til eignar eða leigu.

Ég vil víkja aðeins að nokkrum þáttum í frumvarpinu sjálfu og vil spyrja hæstv. félmrh. út í 5. gr. frumvarpsins þar sem gerð er breyting á 11. gr. laganna sem fjallar um heimild Íbúðalánasjóðs til þess að semja við lánastofnanir um afgreiðslu og innheimtu lána eða einstakra flokka þeirra. Samkvæmt brtt. meiri hlutans á að standa þarna, með leyfi forseta:

,,Stjórn Íbúðalánasjóðs skal eftir því sem kostur er, og að fengnu samþykki félagsmálaráðherra, semja við aðila á markaði um afgreiðslu og innheimtu lána eða einstakra flokka þeirra.``

Í brtt. er vikið frá orðalaginu lánastofnanir, orðið gert almennara og sagt ,,semja við aðila á markaði um afgreiðslu og innheimtu lána eða einstakra flokka þeirra``. Sem betur fer er áfram kveðið skýrt á um að þetta skuli vera á ábyrgð Íbúðalánasjóðs. Hann framselji ekki þessa ábyrgð, eða ég skil það svo. Þetta verði skilyrðislaust áfram á ábyrgð Íbúðalánasjóðs.

Ég vil fyrir forvitni fá að vita hvað opnað er á með því að semja skuli við ótilgreinda aðila, geta það þess vegna orðið vátryggingafélög eða lyfjafyrirtæki eða bankastofnanir, hvaða aðila er verið að tala um sem mega fá þessi verkefni og hægt er að semja við?

Ég vildi líka spyrja ráðherrann hæstv. hvort þær breytingar sem hér eru lagðar til hafi nokkur áhrif á starfsemi Íbúðalánasjóðs, hlutverk hans og eigin störf, bæði innan sjóðsins sjálfs og einnig hvort þær hafi nokkur áhrif á verkefni Íbúðalánasjóðs á Sauðárkróki, hvort nokkur hætta sé á að hér séu framseld einhver verkefni eða gefin eða opnað fyrir að hætta sé á að þau verkefni sem hafa þegar verið vistuð þar séu sett í uppnám eða þeim teflt í einhverja tvísýnu. Ég hefði frekar viljað að það væri horft til þess hvernig t.d. mætti færa hluta af starfsemi Íbúðalánasjóðs til Sauðárkróks til þess að styrkja þá ágætu einingu sem þar er komin upp og ég er viss um að það ætti að vera mögulegt að flytja stærri hluta af verkefnum sjóðsins þangað. Og ég vil spyrja hvort þessar breytingar sem hér eru lagðar til hindri það nokkuð eða takmarki eða hvetji kannski til þess. Sömuleiðis verkefni sem t.d. hefur verið samið við Sparisjóð Hólahrepps um að annast, útsending innheimtuseðla og annað því um líkt. Gefa þessar breytingar nokkurt tilefni til þess að ætla að verið sé að rokka því? Ég vona svo sannarlega að svo sé ekki og ítreka þau sjónarmið, sem ég hef lagt áherslu á, að Íbúðalánasjóður og verkefni hans eru hluti af grunnalmannaþjónustunni hér og eiga ekki að verða hinum hráu markaðslögmálum að bráð.

Þá vil ég einnig spyrja um ákvæði 12. gr. sem hefur verið gert að umtalsefni hjá öðrum ræðumönnum. Þar er kveðið á um greiðslur lána, en það er einmitt vikið að því í nál. minni hlutans að þar sé opnað á óeðlilegar heimildir Íbúðalánasjóðs til þess að leggja á aukið gjald ef lántakandi vill greiða upp lán sín. Í 12. gr. stendur, með leyfi forseta:

,,Ráðherra er heimilt, við sérstakar aðstæður og að fenginni umsögn stjórnar Íbúðalánasjóðs, að ákveða að aukaafborganir og uppgreiðsla ÍLS-veðbréfa verði aðeins heimilar gegn greiðslu þóknunar sem jafni út að hluta eða að öllu leyti muninn á uppgreiðsluverði ÍLS-veðbréfs og markaðskjörum sambærilegs íbúðabréfs.``

Þarna er allt í einu komið hugtak sem að mínu viti passar ekki inn í þá samfélagslegu hugsjón sem Íbúðalánasjóður annars er byggður á. Hann nýtur ríkisábyrgðar. Hann er fyrst og fremst milligönguaðili og þjónustuaðili. Honum er í sjálfu sér ekki ætlað að reka starfsemi sína á óheftum markaðsbúskap. Ef það á að takmarka möguleika einstaklinga til að greiða lán sín upp án aukins kostnaðar, þá er stigið skref í eins konar einkavæðingu eða markaðsvæðingu Íbúðalánasjóðs eða þess fjármagns sem þarna er í láni. Þá er farið að reikna út hvað hugsanlegur þriðji aðili mundi vilja fá fyrir að hafa ekki lengur ávöxtun þessa bréfs. Þarna er sem sagt kominn inn markaðsaðili sem farið er að hugsa um, ekki bara Íbúðalánasjóður annars vegar og hins vegar lántakandinn, húskaupandinn eða húsbyggjandinn. Enda er vikið rækilega að þessu atriði í ágætu áliti minni hluta félmn. og einnig kemur fram að þær meginathugasemdir sem margir umsagnaraðilar hafa gert við þetta frv. lúta einmitt að þessu, að þarna skuli liggja opinn möguleiki til þess að hleypa ákveðinni markaðsvæðingu inn í íbúðalánasjóðskerfið þegar komið er í veg fyrir að fólk geti greitt lán sín upp nema með ærnum eða óvissum kostnaði.

[15:30]

Það finnast í þessu svona tittir, frú forseti, hortittir, sem miða að ákveðinni einkavæðingu. Alla vega að mínu mati eins og þeir birtast hérna, opna möguleikana fyrir því að svo geti gerst. Það tel ég mikinn ljóð á frumvarpi sem hefur svo góð markmið eins og ég las hér upp áðan. Alþýðusamband Íslands gerði sterkar athugasemdir við þetta, sömuleiðis BSRB. Fulltrúar eða félagasamtök þessara stærstu samfélagshópa, launþegahópa, í þjóðfélaginu gerðu mjög alvarlegar athugasemdir við þetta opna atriði og ég hefði talið að frumvarpið væri betra og sannara markmiði sínu ef þetta yrði tekið út.

Annars vil ég taka undir þau sjónarmið sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir kom inn á í ræðu sinni, mikilvægi þess að líta á málin í heild þegar við erum að breyta lögum varðandi húsnæðismál, varðandi fjármögnun húsnæðiskerfisins, þá er þetta mál sem snýr að einstaklingnum, snýr að fjölskyldunni. Þetta er ekki mál einhverra stórra fyrirtækjasamsteypna. Þetta er mál sem snýr að þeirri grunneiningu sem við byggjum samfélag okkar upp á, sem er fjölskyldan hversu stór sem hún er.

Þess vegna er mjög mikilvægt að hafa þá sýn með í þessari umfjöllun, og í þessum breytingum, að samtímis sé kannað hvaða áhrif þetta hefur á aðra tengda þætti. Það sýnist mér hafa skort í umfjöllun á frumvarpinu. Menn hafa horft alfarið og eingöngu á breytingu á þessum tegundum lána, en alls ekki tekið með eða kannað önnur hliðaráhrif.

Við vitum að þetta er þörf sem nýtur forgangs hjá fjölskyldunni. Húsnæðismálin verða að njóta algjörs forgangs, hvort sem það er til að greiða afborganir af lánum eða greiða leigu. Við erum líka með í gangi kerfi sem snertir þetta með beinum hætti. Við erum með í gangi kerfi um húsaleigubætur. Við erum með í gangi kerfi um vaxtabætur o.s.frv. Síðan erum við líka með tekjutengingar á alla kanta. Við erum með tekjutengdar afborganir af námslánum til viðbótar við þetta sem ég áður nefndi.

Ungt fólk sem er að koma sér upp heimili, bæði að koma sér upp húsnæði og að eiga sín börn er kannski líka með námslán sem þarf að greiða upp. Allt þetta kemur á sama tíma og líka getur verið að annað hvort hjónanna verði að hætta vinnu tímabundið meðan verið er að koma öllu þessu upp og þá skerðast tekjurnar. En allir þessir þættir eru tekjutengdir, allir þessir þættir. Þetta fólk sem ekki getur náð sér í skattfríðindi í gegnum arð af hlutabréfaeignum eða miklum peningainnstæðumm, eða náð sér í skattfríðindi eins og viðgengst hjá þeim sem eru búnir að koma sér þannig fyrir, þetta er fólk sem er bundið við sín laun sem öll eru tekjutengd. Mér hefði fundist að það ætti í þessari umfjöllun, í þessari greinargerð, að vísa að því að ástæða væri til að huga að málinu í heild sinni, þó það væri ekki fellt inn í lögin í formi lagagreinar.

Þetta er svo mikið mál að það hefði fyllilega átt rétt á að koma hér inn, eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir nefndi um fjölskylduráðið. Ég tek undir gagnrýnisorð eða ábendingarorð hv. þingmanns að ég held að þingið nýti sér ekki þau ráð sem hafa samt ákveðna stjórnsýslulega stöðu. Ég minnist þess að ég vildi senda áætlun um stefnumál í samgöngumálum og vildi fá umsögn fjölskylduráðs en það þótti ekki þurfa á hinu háa Alþingi, fjölskyldunni kæmi ekki við hvernig samgöngumálum væri skipað. En hver er það sem notar samgöngumannvirkin, hvort sem eru gangstígar, reiðhjólabrautir eða götur og vegir? Er það ekki fjölskyldan? Nei, þá var greinilegt að allir sem höfðu verið kallaðir til áttu yfir 10 eða 15 tonna stóra vörubíla. Ég minnist þess að í nefnd eða hópi sem settur var til að marka stefnu í samgöngumálum, voru ekkert nema karlar, góðir og gildir miðaldra karlar, sem allir voru tengdir einhverjum fyrirtækjarekstri á þungum bílum eða þungavinnuvélum. En fjölskyldan, fólkið sem átti að nota vegina, það var hvergi tengt umræðunni. Ég minnist þess, frú forseti, úr þessari umræðu um samgöngumálin.

Sama er líka um íbúðamálin, fyrir hverja erum við að byggja íbúðarhús? Er það ekki fyrir fjölskylduna? Erum við að gera það bara til að græða á þeim? Nei, við erum ekki að gera það. Við erum að byggja þetta fyrir fjölskylduna og því hefði verið eðlilegt að minnst væri á það í frumvarpi að leitað hefði verið umsagnar um málið og það unnið í samráði við fjölskylduráð. Ég tek undir orð hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur í þessum efnum. Við gleymum því æðioft fyrir hverja við erum að setja lög í raun.

Það var líka annað sem ég vildi víkja að. Það kom fram í umræðunni að fólk stæði yfirleitt betur í skilum með íbúðalán sín nú en áður, hins vegar væri meira um að fólk leitaði ráðgjafar. Það er afar ánægjulegt ef fólk nær því að standa í skilum með húsnæði sitt, því fátt er dapurlegra og skaðlegra, bæði fjölskyldunni og þjóðfélaginu, en verða að sjá á bak húsnæði sínu vegna þess að maður getur ekki greitt húsaleiguna eða ekki greitt afborgun af lánunum og missi því íbúðina frá sér. Eitt slíkt tilvik er einu tilviki of mikið.

Ég vil bara benda á að þetta ástand er kannski ekki svo öruggt. Sú staða hefur jú verið á fasteignamarkaðnum að fasteignir hafa hækkað mjög ört í verði, þar hafa orðið mun meiri verðhækkanir en annars staðar, og þá hefur verið rými til að skuldsetja þær meira, og taka aukin lán út á fasteignirnar til að leysa úr vanda skammtímalána. En hagfræðingar segja að við getum ekki búist við að fasteignaverð hækki stöðugt eða jafnmikið og hratt og gerst hefur á undanförnum missirum. Þegar það stoppar við og skuldsetningin er orðin mjög mikil eins og nú er eða jafnvel hækkar enn, eða jafnvel lækkar, sem vonandi gerist ekki, þá er mikil alvara á ferðum. Mikil skuldsetning er ekkert sem neinn óskar sér. Þó við tölum um að geta farið upp í 90% lán á einhverjum íbúðum eða jafnvel hærra, þá er mikilvægt að svo mikil skuldsetning sé á góðum kjörum, sé ekki á markaðsvöxtum þar sem lántakandinn hugsar um það eitt hvernig hann megi hámarka arð af því hlutafé sem hann hefur lagt í viðkomandi lánasjóð. Það er þá eins gott að þetta húsnæðislánakerfi sé í opinberri forsjá, frú forseti.

Eitt vildi ég svo heyra hjá hæstv. ráðherra hvort hækkun á þessu lánshlutfalli og breytingar á því, hafi einhver áhrif á lánamöguleika og fjármögnunarmöguleika íbúða t.d. úti á landi á þeim stöðum þar sem söluverð þeirra eða endursöluverð er ekki eins hátt eins og hér. Hérna er gengið að því vísu að íbúð sem við kaupum á 10 milljónir í dag verði komin á 11 milljónir eftir hálft ár. Á stöðum þar sem menn byggja íbúðarhús, kannski íbúðarhús á 10--15 milljónir en söluandvirðið er kannski ekki nema 10 milljónir, mun lægra en byggingarkostnaðurinn er, hvernig kemur þá þessi lánveiting til þeirra aðila? Íbúðarbyggingar úti um land hafa víða stöðvast vegna þess að fjárfestingin er svo kostnaðarsöm og endursöluverðið hefur verið mun lægra en stofnkostnaðurinn og þó að byggingarlán hafi fengist í upphafi, þá hefur verð íbúðarinnar getað rýrnað og ekki staðið einu sinni undir veðum sem á því hafa hvílt. Ástæður sem ef til vill eru tengdar byggða- og atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar með beinum og óbeinum hætti eins og við þekkjum. Hvernig kemur þetta nýja kerfi út gagnvart fólkinu úti um hinar dreifðu byggðir sem getur ekki reitt sig á það að húsnæði þeirra hækki um kannski 10--15% á ári eins og við höfum lifað hér? Ég vildi fá að heyra það hjá hæstv. ráðherra.

Ég vil síðan taka undir það sem fundið er að í nál. minni hlutans og það er að ekkert skuli vera tekið á málum leigjenda eða leiguhúsnæðis. Fyrir nokkrum áratugum síðan var það aðalsmerki húsnæðisstefnunnar og félagsleg skylda að koma upp leiguíbúðakerfi fyrir þá sem ekki áttu tök á því að fjármagna og kaupa eða byggja eigin húsnæði eða þeir sem ekki vildu það, heldur vildu búa í hinu kerfinu, þá var það aðalsmerki húsnæðisstefnunnar eða lánastefnunnar að tryggja það að nægilegt framboð væri af leiguhúsnæði, ekki bara hér í Reykjavík, heldur um allt land. Ég held að þetta leiguíbúðakerfi eigi núna verulega undir högg að sækja. Á mjög ósanngjarnan hátt hefur það verið gagnrýnt að sveitarfélögin víða um land byggðu leiguíbúðir og áttu þar með möguleika á því að bjóða íbúa velkomna í sveitarfélagið í öruggt en nokkuð ódýrt húsnæði. Nú er verið að þrengja að þessu kerfi, það er nánast verið að pína sveitarfélögin til þess að selja þessar íbúðir, láta þær af hendi sé þess nokkur kostur. Framboð, t.d. á félagslegu húsnæði, leiguhúsnæði úti um land, er að minnka stórlega og húsnæðisskortur stendur nú þróun byggðar fyrir þrifum í mörgum byggðarlögum. Þar er sú staða óbreytt að einstaklingar telja það ekki vænlegan fjárfestingarkost að byggja eigið húsnæði, ekki a.m.k. í öllum tilvikum.

[15:45]

Eina leiðin til þess að nýtt fólk geti sest að er að aðgangur sé að íbúðarhúsnæði á sanngjörnu verði. Mér finnst þetta kerfi sveitarfélaganna, sem nú er verið að mola niður, mjög rangt og ósanngjarnt. Því þótt erfiðleikatímabil hafi komið í rekstri á félagslega húsnæði sveitarfélaganna, sem að meginhluta mátti rekja til stefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnu- eða byggðamálum, þá er nú verið að reka sveitarfélögin til að láta félagslega húsnæðið af hendi, án þess að nokkurt kerfi komi í staðinn.

Ég vil taka undir gagnrýnina sem hefur komið fram á þetta frumvarp af hálfu félagasamtaka eins og Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, að hér sé gjörsamlega horft fram hjá þörfinni fyrir leiguhúsnæði og stöðu leigjenda. Ég tel að frumvarp sem ekki tekur á leigumálunum, leiguhúsnæðinu, en þykist samt vera að fjalla um íbúðarhúsnæði almennt og að leysa þarfir fyrir íbúðarhúsnæði en tekur ekki á þessu sé afar takmarkað Ég harma það og vona að það sé ekki tákn um stefnu að hér eigi ekki að vera leiguhúsnæði eða félagslegt leiguhúsnæði sem náttúrlega mundi alls ekki samrýmast þeim skyldum sem sveitarfélögin bera, en samkvæmt lögum er sveitarfélögunum skylt að hafa til reiðu íbúðarhúsnæði fyrir íbúa sína. Þau verða að hafa kerfi sem þau geta beitt og notað í því skyni. Mér finnst verið að mola það kerfi niður, illu heilli.

Frú forseti. Ég held ég hafi komið að flestum atriðum sem ég vildi koma að í þessu máli. Ég vil ítreka spurningar mínar varðandi stöðu húsbyggjenda í dreifbýli, gagnvart þessari nýju fjármögnun. Ég vil ítreka að ég sakna sárlega að hér skuli ekki vera rætt eða tekið á málum leigjenda eða leiguhúsnæðis og ekki sé tekið á auknum og nýjum möguleikum sveitarfélaga til að standa undir þeim skyldum sem á þeim hvíla að hafa í boði fullnægjandi húsnæði fyrir íbúa sína. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort þetta frumvarp sé einn liður í að mola það kerfi niður. Ég tel nauðsynlegt að það sé við hliðina á eignaríbúðakerfinu.

Frú forseti. Það er alveg sjálfsagt að endurskoða mál um fjármögnun á húsnæðiskerfinu, en markmiðið verður að vera alveg skýrt. Það verður að vera það að við ætlum okkur að standa að þeirri frumþörf hvers íbúa landsins að hann eigi aðgang að húsnæði, annaðhvort eigin húsnæði eða leiguhúsnæði, viðunandi húsnæði á viðunandi kjörum. Sú þörf á ekki að verða háð lögmálum markaðarins með þeim hætti að þeir sem hugsa fyrst og fremst og eingöngu um arð hlutabréfa sinna geti gert sér þessa frumþörf fólksins að féþúfu. Þess vegna er mjög mikilvægt að hvert einasta skref sem við stígum hér varðandi fjármögnun Íbúðalánasjóðskerfisins og íbúðakerfisins í landinu standi vörð um þennan félagslega þátt. Hið opinbera, ríki og sveitarfélög, verða að búa fjármögnun og lagaumgjörð þannig að þessi frumþörf sé virt og henni sinnt, að hún verði ekki að féþúfu þeirra sem hugsa bara um peninga og ekkert annað.