Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 16:17:41 (8925)

2004-05-25 16:17:41# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[16:17]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það er búið að halda langar og miklar ræður um þetta frv. og hef ég ekki miklu viti þar við að bæta og ekki ætla ég að endurtaka það sem sagt hefur verið í ágætum og ítarlegum ræðum, en sem kunnugt er þá er meginbreytingin sem þetta frv. hefur í för með sér að í stað húsbréfa verða framvegis gefin út íbúðabréf sem seld verða í sameiginlegum útboðum og koma lántakendur til með að fá lán sín greidd í peningum í stað bréfa.

Húsnæðismálin hafa verið mjög til umræðu á undanförnum árum. Það var mjög umdeilt þegar gagngerar breytingar voru gerðar á húsnæðiskerfinu undir aldarlokin og þá þótti mönnum vegið að hinum félagslega þætti húsnæðiskerfisins. Ég vil taka undir þær ábendingar sem fram hafa komið frá verkalýðssamtökunum um að ástæða sé til þess og hefði verið til þess að forgangsraða á annan hátt að taka hinn félagslega hátt betur og betur fyrir. Þá eru menn að sjálfsögðu að hugsa um stuðning við leigjendur og þá hópa sem standa lakast að vígi.

Í umsögn BSRB um þetta frv. segir, með leyfi forseta:

,,Þótt margt megi gott segja um húsbréfakerfið, hafa engu að síður fylgt því ýmsir ókostir og vegur þar þungt sú óvissa sem fylgir gengi bréfanna hverju sinni, en þegar eftirspurn hefur verið lítil hafa afföll verið umtalsverð að sama skapi. Auðvitað verður óvissa enn fyrir hendi með tilkomu nýs fyrirkomulags, því vextir íbúðabréfa munu ráðast af niðurstöðu úr sameiginlegum útboðum. Hins vegar er líklegt að með stórum útboðum megi ná vöxtum niður. Þar með verður áhætta lántakandans minni.``

Hér er dregið saman í stutt mál sú meginbreyting sem þetta frv. hefur í för með sér og eins og heyra má þá er BSRB almennt hlynnt þessum kerfisbreytingum. Hið sama gildir um afstöðu Alþýðusambandsins þótt í báðum tilvikum setji samtökin fyrirvara við einstaka þætti frumvarpsins. ASÍ gerir alvarlegar athugasemdir við 11. og 12. gr. frv. og hefur það verið rækilega tíundað hér við umræðuna og ég ætla ekki að endurtaka það. Hið sama á við um BSRB. Það er 12. gr. sem er þar gagnrýnd. Ég ætla ekki að endurtaka það sem fram hefur komið um þau mál.

Það er tvennt sem mig langar til að nefna og þætti vænt um að fá svör við. Það er hvernig stendur á því að meiri hlutinn er að föndra við 5. gr. laganna. Þykist ég þar kenna fingrafara Sjálfstæðisflokksins sem hefur eins og við vitum árum saman viljað koma þessari starfsemi út á markað, á þar samleið með bönkum og verðbréfasjóðum, sem hafa sýnt þá furðulegustu framkomu í þessu máli sem dæmi eru um í seinni tíð. Samtök banka og verðbréfasjóða hafa kært eða kvartað yfir starfsemi Íbúðalánasjóðs og þar með þessu frumvarpi og þessum lagabreytingum til EFTA og telja að þetta standist ekki EFTA-reglur. Það sem vakir fyrir þessum aðilum er að grafa undan húsnæðiskerfinu til þess að geta ginið sjálfir yfir því og haft af því arð og hagnað. Í ljósi þeirra frétta sem við erum að fá núna nær dag hvern um milljarða gróða viðskiptabankanna, þá spyr maður sjálfan sig hvernig stendur á því að þeir geta ekki séð þetta kerfi í friði?

Í 5. gr. frv. sem ég ætlaði að víkja lítillega að, eins og það var upphaglega lagt fram segir, með leyfi forseta:

,,Íbúðalánasjóði er heimilt að eiga viðskipti með fjármögnunarbréf sín og önnur verðbréf. Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um áhættuviðmið, áhættustýringu, innra eftirlit og viðskipti sjóðsins með verðbréf, að fenginni umsögn stjórnar Íbúðalánasjóðs og Fjármálaeftirlitsins.``

Í lögunum eins og þau eru núna er Íbúðalánasjóði skylt að eiga viðskipti við aðila á markaði. Nú reyndu frumvarpshöfundar að breyta þessu og setja þarna inn heimildarákvæði. Það líkar Sjálfstæðisflokknum ekki. Það er ekki nógu gott að leggja það í sjálfsvald stjórnar Íbúðalánasjóðs og þeirra sem stýra þar för að hafa sjálfir dómgreind á málinu og meta málin hverju sinni. Nei, nú á að þvinga þá, það á að þvinga þá út á markað jafnvel þótt það stríði gegn hagsmunum sjóðsins. ,,Þeir skulu út á markað eftir því sem kostur er ...`` heitir það í brtt. meiri hlutans núna.

Það væri fróðlegt að fá skýringu á þessu frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni hvað valdi því að Sjálfstæðisflokknum sé svo umhugað um að knýja þessa breytingu í gegn. Af hverju er ekki hægt að leggja það í vald stjórnar Íbúðalánasjóðs hvað hún fer með út á markað og hvað hún sýslar með innan dyra hjá sér? Er þetta ekki spurning um sjálfstæði þessarar stofnunar, sjálfstæði þessarar stjórnar og sjálfstæði þeirra sem starfa við Íbúðalánasjóð að komast að niðurstöðu sem er best fyrir sjóðinn og þar með eigendur hans, íslenska skattborgara?

Þetta er atriði sem ég tel að við þyrftum að fá skýringu á. Þetta er ekki mjög stórvægilegt. En einmitt vegna þess að það er ekki stórvægilegt, þá vil ég fá skýringu á því hvers vegna meiri hlutinn getur ekki sætt sig við orðalagið sem er í frumvarpstextanum um að Íbúðalánasjóði sé veitt þessi heimild til að meta sjálf hvað hún sýslar með innan dyra og hvað hún fer með út á markað. Síðan væri fróðlegt fyrir pólitíska áhugamenn að heyra mat Sjálfstæðisflokksins á kæru banka og verðbréfafyrirtækja, þar sem þessir aðilar eru að reyna að grafa undan félagslegri viðleitni til að hafa húsnæðismál þjóðarinnar í sæmilegu horfi. Telur Sjálfstæðisflokkurinn og fulltrúar hans þessa stefnu vera félagslega ábyrga? Er það félagslega ábyrg stefna að bankarnir taki þessa starfsemi algerlega undir sinn hatt? Við þekkjum hvernig þeir síðan haga sér t.d. gagnvart landsbyggðinni, þeim sem búa í hinum dreifðu byggðum. Þeir mundu aldrei fá þjónustuna sem félagslegt kerfi og Íbúðalánasjóður veitir.

Það væri fróðlegt að heyra álit Sjálfstæðisflokksins á þessu tvennu áður en við ljúkum við umræðuna því hún er senn á enda. Annars vegar spyr ég hann um breytingartillöguna sem liggur fyrir og hins vegar þætti mér skemmtilegt að heyra afstöðu hans til hinnar óábyrgu nálgunar Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja sem hafa kært íslenska húsnæðiskerfið til Brussel.