Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 16:44:21 (8927)

2004-05-25 16:44:21# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[16:44]

Frsm. minni hluta félmn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svörin, en það er langt frá því að ég hafi fengið fullnægjandi skýringar á því hvers vegna ekki hefur verið hægt á umliðnum mánuðum og sl. ári að lækka viðbótarlánin meira, sem eru peningalán, að það skuli hafa verið 1% munur á útboðunum og svo lánakjörum viðbótarlána. Það er ekki trúverðugt fyrir það nýja kerfi sem hér er verið að taka upp. Sömuleiðis finnst mér ekki traustvekjandi skýringar sem ráðherrann gefur þegar ég spurði um og hafði það eftir forsvarsmönnum Íbúðalánasjóðs að það hefði verið hægt að fara með húsbréfavextina niður í 4% á sl. ári. Hún er sannarlega ekki sannfærandi sú skýring sem ráðherrann gefur á því.

[16:45]

Ég verð að segja að mér fannst svör hæstv. ráðherra mjög fátækleg að því er varðar 90% lánin og eitt meginloforð framsóknarmanna í kosningabaráttunni. Það gefur tilefni til þess að ætla að það sé bullandi ágreiningur milli stjórnarflokkanna um þessi 90% lán. Það er ekki hægt að skýla sér á bak við ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að það sé verið að bíða eftir svörum frá henni, ekki síst í ljósi þess að ráðgjafar hæstv. ráðherra telja engar líkur á því að Eftirlitsstofnun EFTA geri einhverjar athugasemdir við þessi 90% lán.

Hæstv. ráðherra ætlaði að leggja fram áætlun í upphafi þessa þings. Nú talar ráðherrann um í fyllingu tímans, hvað sem það nú þýðir. Þannig að mér finnst að hæstv. ráðherra sé að hlaupa frá loforðum sínum. Það reynir á það núna í atkvæðagreiðslunni við þessa litlu breytingartillögu, sem er einungis smáskref í áttina að þessu 90% láni, hvort framsóknarmenn meini eitthvað með þessu.

Síðan finnst mér mjög fátæklegt þetta svar varðandi félagslega íbúðakerfið. Við vitum að það eru á þriðja þúsund manns í biðröðum eftir leiguíbúðum. Það á enn að bíða, enn að bíða fram á haustið eftir einhverri skýrslu frá ráðherrunum og ráðherrann orðaði það síðan svo að þá kæmu hugsanlega fram úrbætur. Mér finnst þetta mjög köld kveðja, virðulegi forseti, til þeirra á þriðja þúsund einstaklinga og fjölskyldna sem bíða eftir úrlausnum í leiguíbúðunum.