Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 16:50:54 (8930)

2004-05-25 16:50:54# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[16:50]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það skortir ekki á vilja til framkvæmda hjá þeim sem hér stendur. Hins vegar hef ég tamið mér þá reglu í störfum mínum, hvort sem er sem ráðherra eða á öðrum vettvangi, að eins og háttar í þessu tilviki að ég hef skipað nefnd til að fara sérstaklega yfir þetta mál og gera tillögur um aðgerðir, þá hvarflar ekki að mér að taka fram fyrir hendurnar á nefndinni með yfirlýsingum um það sem ég teldi að ætti að gera. Ég vil bíða, hæstv. forseti, eftir niðurstöðum nefndarinnar. Ég hef óskað eftir því að hún hraði störfum sínum. (JóhS: Hvenær átti hún að skila ...?) Henni var ekki, hv. þm., settur sérstakur tímarammi í því. Hins vegar hef ég óskað eftir því að nefndin ljúki störfum sínum hið fyrsta, þannig að ég geti þá sett fram mínar áætlanir og gert tillögur um það hér á hinu háa Alþingi.

Hvað varðar 90% lánin og þá ákvörðun að óska eftir áliti Eftirlitsstofnunar EFTA á rekstri húsnæðislánakerfis okkar og þeim breytingum sem við áformum, þá hef ég sjálfur sem hér stendur ekki neinar efasemdir um það, hv. þm., að kerfið standist samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Ég er hins vegar ekki stóri dómur í því efni. Ég tel algjörlega nauðsynlegt að við fáum úr því skorið hvort svo er ekki til allrar framtíðar, því það er óþolandi staða, hæstv. forseti, að reka hér jafnmikilvægt kerfi og húsnæðislánakerfið í einhverri óvissu um að svo sé.