Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 17:09:26 (8937)

2004-05-25 17:09:26# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, Frsm. meiri hluta GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[17:09]

Frsm. meiri hluta félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég las bara nákvæmlega þá brtt. sem hér er uppi, það er ekkert flóknara en það, virðulegi forseti. Hér segir, svo ég lesi byrjunina aftur, með leyfi forseta:

,,Stjórn Íbúðalánasjóðs skal eftir því sem kostur er, og að fengnu samþykki félmrh., semja við aðila á markaði um afgreiðslu og innheimtu lána eða einstakra flokka þeirra.``

Eins og ég svaraði áðan, virðulegi forseti, miðar þetta eins og margt annað að því að skilgreina hvert hlutverk Íbúðalánasjóðs er og hvað Íbúðalánasjóður á að gera og hvað ekki. Síðan geta menn haft allar skoðanir á því hvort hlutverk hans á að vera víðfeðmara eða ganga skemur o.s.frv. En þetta er sú niðurstaða sem varð í nefndinni.

Hins vegar, virðulegi forseti, þá sleppur hv. þm. Ögmundur Jónasson ekki frá því að ræða húsnæðismálin í langstærsta sveitarfélagi landsins. Það þýðir ekkert að slá hér einhverju fram um að þetta hefði verið með skárra móti eða verra móti ef einhverjir aðrir hefðu verið við völd. Staðreyndin er sú, virðulegi forseti, að menn hafa með skipulegum hætti verið með lóðaskortsstefnu í langstærsta sveitarfélaginu. Hvað þýðir það? Það er sambærilegt við ef hér væri einokun á innflutningi bíla og það væri ákveðið að flytja inn fáa bíla og ekki aðeins að flytja inn fáa bíla, heldur bjóða upp þá fáu bíla sem komu inn til landsins. Hvað þýðir það? Það þýðir ekki bara hækkun á þeim bílum, heldur öllum öðrum bílum á markaðnum. Það er nákvæmlega það sem var gert í húsnæðismálunum.

Nú er það þannig, virðulegi forseti, að ég er með viðtalstíma sem borgarfulltrúi, hef haft það frá því ég byrjaði í borgarstjórn Reykjavíkur. Það liggur fyrir að þessi markvissa stefna að hækka húsnæðisverðið og þar af leiðandi leiguverðið í Reykjavíkurborg, hefur komið verulega illa niður á þeim sem minnst mega sín. Þarna, virðulegi forseti, eru vinstri menn á ferðinni. Þeir hafa með skipulegum hætti, virðulegi forseti, staðið að þessum málum.