Afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 10:04:10 (8945)

2004-05-26 10:04:10# 130. lþ. 127.91 fundur 594#B afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), GAK
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[10:04]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Á fundi sjútvn. seint í gærkvöldi, sem var sá 5. eða 6. á deginum sem boðaður hafði verið, kom fram tillaga að því að algjörlega yrði horfið frá sóknardagakerfi smábátanna. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnast vinnubrögðin í þessu máli afar undarleg, nánast forkastanlegt hvernig að þessu máli er staðið. Á fundi sjútvn. fáum við örstuttan tíma í stjórnarandstöðunni til að fara yfir málið og það er verið að leggja upp með gjörbreytingu á málinu frá því sem að hafði verið stefnt og einnig frá því sem hv. meirihlutamenn í sjútvn. sögðu hér í desember sl. um hvernig á þessu máli skyldi haldið. Það er alveg ljóst að störf þingsins hafa með þessari afgreiðslu í sjútvn. í gærkvöldi tekið verulegum breytingum og ekki verður séð fyrir endann á því hvernig þessu þinghaldi vindur fram.