Afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 10:09:44 (8948)

2004-05-26 10:09:44# 130. lþ. 127.91 fundur 594#B afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), JGunn
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[10:09]

Jón Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Þetta var skrýtin ræða hjá hv. formanni sjútvn., Guðjóni Hjörleifssyni. Ég ætla ekki efnislega að ræða málið hér heldur aðeins að fara í það sem gerðist í gær í sjútvn.

Kannski ég fari aðeins lengra aftur í tímann til að byrja með. Allir í þingheimi vissu að talsvert deilumál væri í gangi varðandi sóknardagabátana og það var búið að boða að hingað kæmi frv. til afgreiðslu á þessu þingi til að leysa úr þeim ágreiningi sem þar var uppi. Þetta frv. kom síðan ákaflega seint fram og þegar það kom fram var það allt annað en boðað hafði verið. Talsverður ágreiningur varð um það í nefndinni og vitað var að málið eins og það lá fyrir og var lagt fram af sjútvrh. hefði ekki þingmeirihluta eins og það var lagt fram. Hvað gerðist þá? Þá var boðað til sjö funda í sjútvn. á sama degi. Síðan biðum við eftir því í nefndinni sem á að hafa málið á forræði sínu að fulltrúar sjútvrn. mættu með brtt. sem nefndarmenn þóttust ekkert vita hverjar yrðu þegar nefndin var orðin fullskipuð. Ekki var hægt að setja fund, heldur þurfti að bíða eftir fulltrúum sjútvrn. þótt málið væri á forræði nefndarinnar. (BH: Þetta er bara eins og í fjölmiðlamálinu.) Þetta er mjög svipað og gerðist í fjölmiðlamálinu, menn setja fram arfavont frv. sem ekki nokkur getur hugsað sér að samþykkja en ná síðan einhverri lendingu sem er allt annars staðar en menn áttu von á í upphafi.

Ég verð að spyrja hv. formann sjútvn.: Telur hann eðlileg vinnubrögð að fram komi brtt. sem algjörlega breytir því frv. sem liggur fyrir? Því er hafnað að leita álits þeirra sem áður höfðu gefið umsagnir um frv. sem lá fyrir þó að við séum hér með allt annað frv. í höndunum ef þessi brtt. nær fram að ganga? Eru þetta eðlileg vinnubrögð, hv. formaður sjútvn.?