Afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 10:14:13 (8950)

2004-05-26 10:14:13# 130. lþ. 127.91 fundur 594#B afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[10:14]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Dagurinn í gær var svikadagurinn mikli. Þetta var ekki neinn merkisdagur og það er ósatt sem hv. þm. Guðjón Hjörleifsson heldur fram, að stjórnarandstaðan hafi reynt að tefja fyrir þessu máli í nefndinni. Hann hefur sjálfur með miklum vanheilindum og vanhæfi troðið því í gegnum nefndina.

Sárast af þessu öllu finnst mér að þrír þingmenn sem ég í dag tel vera klára svikara, hv. þm., sitja í sjútvn. Við höfum orð þeirra, bæði frá kosningabaráttunni og fundum, m.a. á Vestfjörðum, þar sem þeir sögðust allir styðja að það yrði varið gólf fyrir þessa dagabáta. Nú hafa þessir menn svikið þessi loforð sín og þeir hafa svikið kjósendur sína. Ég hef skömm og fyrirlitningu á þeim. Þetta eru svik, ekkert annað en svik og þetta er grafalvarlegt mál.

Ég lýsi því yfir að minn flokkur mun berjast af fullri einurð gegn því að þetta frv., sem samið er af sjútvrh., af framkvæmdarvaldinu og síðan blessað yfir það af forsvarsmönnum Landssambands smábátaeigenda sem hafa mjög vafasamt umboð í þessu máli, (Gripið fram í.) verði lagt fyrir hið háa Alþingi. Nú á það að fara í gegn undir því yfirskini að ekki hafi verið neitt samkomulag fyrir því að það yrði gólf fyrir dagabátana. Heyr á endemi!

Auðvitað var meiri hluti fyrir því. Ef menn hefðu haft kjark til að standa í lappirnar, ef þrír þingmenn sem nú sitja í sjútvn. plús einn í viðbót hefðu haft þann manndóm að standa við orð sín hefði þetta farið í gegn. Það hefði flogið í gegnum þingið og það hefði verið full sátt um það úti í þjóðfélaginu. Það vitum við. Við höfum umsagnir félaga smábátaeigenda allt í kringum landið, 300 smábátaeigenda, sem nánast eru allir sammála því að það átti að verja þetta kerfi. Lítill þrýstihópur sem komst inn í sjútvn., fjórir menn með 20 menn á bak við sig, fjórir menn sem eru að reyna að væla út kvóta til að geta braskað með hann, kvóta fyrir tugmilljónir króna, er látinn komast upp með þetta. Þetta er svívirðing.