Afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 10:21:06 (8953)

2004-05-26 10:21:06# 130. lþ. 127.91 fundur 594#B afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), Flm. JÁ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[10:21]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það var látið svo heita þegar sjútvrh. lagði fram frv. sitt að þarna væru boðnir möguleikar til að halda áfram kerfinu og menn gætu valið á milli kerfa. Hér lýsti hv. þm. Einar Guðfinnsson því yfir að hann ætlaði sér að sjá til þess að mönnum yrðu gefnir jafngildir kostir til að velja á milli, að vera í kerfinu eða vera ekki í því.

Niðurstaðan er sú að nú styður hann tillögu um að loka kerfinu alveg á einu augalifandi bragði. Það eru ekki skilaboðin sem menn fengu fyrir kosningar og ekki heldur þau sem þeir fengu eftir kosningar. Síðan á Alþingi að taka ákvörðun um að loka þessu eina kerfi sem ekki byggist á kvóta, helst á einum eða tveimur dögum. Það á ekki að skoða málið með nokkrum hætti, heldur á að frussa þessu í gegn á örstuttri stundu, frv. sem er samið, líklega á hnjánum á hv. formanni sjútvn., með þeim hætti að hann boðaði sífellt fundi í allan gærdag af því að hann vissi aldrei hvort búið væri að skrifa það. Hvernig halda menn að svona frv. reynist þegar farið verður að grandskoða það? Halda menn að það geti ekki verið einhverjir feilar og veilur í því þó að menn vildu fara þá leið sem þarna er? Það liggur fyrir að það er meiri hluti á Alþingi fyrir því að vernda dagakerfið og koma undir það almennilegum löppum ef þeir þingmenn sem eru búnir að lýsa því yfir og sverja á fundum að þeir vilji varðveita dagakerfið ganga í lið með þeim sem vilja gera það með þeim.

Það er sögufölsun að halda því fram að ekki sé til meiri hluti fyrir þessu á Alþingi. Fyrir því eru fullar sönnur og það verður látið reyna á það í atkvæðagreiðslu hvort menn eru tilbúnir að standa í lappirnar og standa við stóru orðin.