Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 10:23:47 (8954)

2004-05-26 10:23:47# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, Frsm. meiri hluta GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[10:23]

Frsm. meiri hluta félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, og laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, o.fl.

Þetta mál hefur verið í nokkuð mikilli umræðu og er eitthvað sem bæði þingheimur og þjóð þekkja. Ég held að flestir séu sammála um að þau lög hafi sannað sig sem sett voru um fæðingar- og foreldraorlof árið 2000 sem miðuðu að því að bæta stöðu barnafjölskyldna og þó fyrst og fremst að koma á auknu jafnrétti og jöfnu vali, ef þannig má að orði komast, á milli karla og kvenna til töku fæðingarorlofs. Markmið laganna eins og menn þekkja er fyrst og fremst að jafna stöðu karla og kvenna. Flestir hljóta að vera sammála um að þetta sé eitt stærsta skrefið sem stigið hefur verið í jafnréttisátt á Íslandi á seinni tímum og er nokkuð sem við getum verið stolt af og margar þjóðir horfa til og líta á sem gott fordæmi.

Ef við lítum á hlut karla í fæðingarorlofi hefur hann aukist frá 30% upp í 80% frá því að þessi lög tóku gildi. Það sem hefur hins vegar gerst og er í sjálfu sér mjög ánægjulegt er að það hefur verið afskaplega mikil ásókn í sjóðinn. Margir hafa viljað nýta sér þetta tækifæri til að vera með börnum sínum nýfæddum og það er eðli málsins samkvæmt hið besta mál og eins og ég vitna í hefur aukningin þá sérstaklega verið meðal karlmanna. Það hefur einfaldlega þýtt það að ásókn í sjóðinn er slík að miðað við núverandi lagaramma gengur sú staða ekki upp til lengdar. Þá er ekkert annað í boði fyrir ábyrg stjórnvöld en að taka á því máli að því gefnu að menn vilji sjá sjóðinn áfram. Þess vegna var farið út í þá vinnu og kom þetta frv. fram frá hæstv. félmrh. sem miðar að því að styrkja grundvöll sjóðsins. Það sem hér er verið að gera er fyrst og fremst að ganga þannig frá málum að við getum áfram notið þessarar góðu löggjafar og þessara góðu reglna sem hafa verið til staðar. Við höldum þá áfram að reyna að ná þeim markmiðum sem í lögunum eru.

Mjög margir kostir fylgja sjóðnum og ég vildi leyfa mér, virðulegi forseti, aðeins að fara yfir þá. Menn hafa eðli málsins samkvæmt litið mjög til þess hvaða jákvæðu áhrif þetta hefur á jafnrétti kynjanna en ég held að fleiri þættir skipti gríðarlega miklu máli þótt þeir hafi kannski ekki verið mikið í umræðunni. Ég leyfi mér að fullyrða að þetta styðji líka mjög fjölskylduna. Það eru ekki einungis yngstu börnin eða nýfædd börn, nokkurra mánaða, sem njóta þessa fyrirkomulags. Ég held að þegar annað foreldri eða bæði eru heima njóti þess líka aðrir fjölskyldumeðlimir, og í þeim tilfellum þegar fyrir eru á heimilinu eldri börn njóti þau þess líka. Við erum komin í nokkuð sérkennilega stöðu sem er kannski ekki oft rædd en hér á Íslandi er atvinnuþátttaka beggja kynja mjög mikil og meiri en gengur og gerist í flestum öðrum löndum sem við berum okkur saman við. Það er ekki jafnmikill tími sem gefst með fjölskyldunni og tíðkaðist kannski þann tíma sem við sem erum hér á löggjafarsamkundunni alla jafna ólumst upp við.

Ég hef það eftir könnun sem virtur sálfræðingur vitnaði í hvað foreldrar tala að jafnaði lengi við börnin sín. Þá er ég ekki að vísa til þess að foreldrar segi börnum sínum hvað þau eigi að gera, veki þau og annað slíkt heldur bara spjalla eins og gengur milli foreldra og barna, til þess að kynnast börnunum sínum og vera í samskiptum við þau. Niðurstöðurnar sem hann vitnaði í voru sláandi. Almennt spjölluðu foreldrar innan við 15 mínútur á viku við börnin sín. Ég held að þetta sé umhugsunarefni og það sé í rauninni verkefni okkar kynslóðar sem er að stofna fjölskyldur eða er með fjölskyldur að huga að þessum þáttum. Fátt er mikilvægara en gott fjölskyldulíf og það er án nokkurs vafa hornsteinninn í samfélagi okkar.

[10:30]

Ég held að með fæðingarorlofinu og því að báðir foreldrar nýti sér það séu stjórnvöld með beinum hætti að styrkja þessar undirstöður og gera það að verkum að foreldrar geti nýtt betur tíma með börnum sínum sem ég er ekki í nokkrum einasta vafa um að muni skila sér bæði í nútíð og framtíð.

Bent hefur verið á aðra þætti sem ákveðinn galla en ég vona að við sjáum breytingar á því á næstunni. Við vorum sömuleiðis að ganga frá ákveðinni jafnréttisáætlun í félmn. sem tengist þessu máli ekki beint en þó þannig að gert er ráð fyrir því að kanna sérstaklega áhrif þessara breyttu laga sem mér finnst skipta gríðarlega miklu máli. Ég held að þetta hafi mörg áhrif. Þau hafa ekki verið rannsökuð sem skyldi en við erum vonandi að sjá breytingu á því á næstunni. Það eru ýmsir jákvæðir þættir sem þessi lög hafa leitt af sér. Ég er t.d. ekki í nokkrum vafa um að þetta hafi jákvæð áhrif á atvinnustig. Í gögnum frá 2003 sem voru kynnt fyrir nefndinni kemur fram að 9 þús. manns hafi nýtt sér þetta fæðingarorlof. Það er ekki á vinnumarkaðnum á sama tíma en er að sinna fjölskyldunni þess í stað. Í það minnsta ætti það ekki að ýta undir atvinnuleysi þótt eðli málsins samkvæmt megi færa rök fyrir því að þar sem sjóðurinn er fjármagnaður af sköttum á atvinnulífið hafi taka fæðingarorlofs svo sem líka áhrif. Launaskattar eru notaðir til að fjármagna sjóðinn og því gæti það haft áhrif. Það kæmi mér þó ekki á óvart að stærri vinnustaðir sem eru með margt fólk á barneignaraldri væru farnir að gera ráð fyrir því í áætlunum sínum að ákveðinn hluti af fólki þar sé alltaf í fæðingarorlofi.

Einn þáttur sem skiptir líka miklu máli sem lítið hefur verið til umræðu hér er að við erum það lánsöm, Íslendingar, að við erum ein af fáum þjóðum í Vestur-Evrópu sem fjölgar hjá. Það er vandi hjá mörgum þjóðum. Ef við berum okkur t.d. saman við Evrópusambandslöndin, stærstu og öflugustu ríkin þar, er það vandi sem þau horfa fram á og geta ekki tekist á við. Vandinn tengist að vísu stærri málum eins og lífeyrismálum og öðru slíku. Þá er ég að vitna til landa eins og Þýskalands og Frakklands og fleiri væri hægt að nefna þar sem það er hreint og klárt vandamál að fólki fjölgar ekki. Fólk er ekki að eignast börn og stofna fjölskyldur eða hefur í það minnsta ekki börn í fjölskyldum sínum. Það er bara hreinn og klár valkostur og hefur mikil þjóðhagsleg áhrif, sérstaklega þó í þeim löndum sem hafa ekki verið jafnlánsöm og -skynsöm og við að vera með sjóðasöfnun í lífeyrissjóðakerfi sínu. Það gerir það að verkum að það er tiltölulega lítill hópur sem vinnur bæði fyrir þá sem yngri eru og þá sem eldri eru. Það fjölgar ekkert í þeim hópi, fækkar jafnvel.

Þegar við erum með sjóð eins og þennan eru mörg álitaefni uppi. Þetta gengur eðli máls samkvæmt út á það að við erum að færa fjármuni til, í þessu tilfelli til barnafjölskyldna. Til þess eru margar leiðir og mörg álitamál koma upp. Þau koma svo sannarlega upp í því ágæta starfi sem fór fram í nefndinni og þrátt fyrir að nefndin hafi lokið umfjöllun um þetta mál í bili efast ég um að því starfi sé lokið. Þetta er þannig mál að það má skoða ýmsa hópa og ýmsar útfærslur hvað það varðar. Aðalatriðið er að menn eru að taka á þessu af ábyrgð. Menn sýna ábyrgð í meðferð opinberra fjármuna og sjá í leiðinni til þess að við munum sjá þennan sjóð og þetta fyrirkomulag vera til staðar um vonandi alla framtíð.

Ég verð að viðurkenna að það mál sem mér þótti þó verst er þakið á greiðslurnar. Mér finnst það ekki vera í samræmi við það sem farið var af stað með á sínum tíma þar sem við þurftum að taka á og varð niðurstaða þingmeirihlutans. Miðað við þá afstöðu sem minni hlutinn hefur gerði hann ekki athugasemdir við það heldur. Ég hef áhyggjur af því hvernig það kemur niður út frá þeim jafnréttissjónarmiðum sem það er sett fram með. Ég ætla ekki að fara í neinar grafgötur með það að sú hætta er fyrir hendi. Hugmyndin með þessum sjóði er einföld. Hún gengur út á það að þegar þeir aðilar sem ráða fólk í störf og hafa kannski meðvitað eða ómeðvitað litið til þess að það sé meiri hætta á því að konur fari frekar í fæðingarorlof megi vita að það sé jafnlíklegt að karlar geri það. Það er í rauninni hugmyndin með þessum sjóði. Það sem okkur hefur fundist vanta og menn hafa bent á, a.m.k. í ákveðnum stöðum, er að ekki hefur verið jafnhátt hlutfall af konum og körlum. Þótt ég sjái í sjálfu sér ekki neitt sérstakt markmið í því að það verði jafnmargir karlar og konur í öllum störfum finnst mér að við eigum að skapa þá umgjörð að konum sé gert kleift á við karla að njóta hæfileika sinna og þess krafts sem þær hafa til jafns við okkur karlmenn. Í hálaunastörfunum hefur verið nokkur misbrestur á jafnræði hvað þetta varðar. Ég get ekki séð annað en að ef við setjum þak á þessar greiðslur muni það hafa neikvæð áhrif í því tilliti. Ef við trúum því sem ég held að sé, hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað, að menn líti til þess þegar þeir ráða í slíkar stöður hvort þeir aðilar sem þar vinna séu ávallt til staðar eða hvort þeir hugsanlega þurfi að fara í einhvers konar orlof eða vera frá vinnu eins og í fæðingarorlofi segir það sig sjálft að þegar við setjum þak á greiðslurnar minnka líkurnar á að fólk nýti sér fæðingarorlofið. Þá er ég að gefa mér þá forsendu sem ég held að sé til staðar að einn sá þáttur sem fólk líti til sé sá fjárhagslegi þegar það metur það hversu mörg börn það ætlar að eiga og hversu mikinn tíma það ætlar að nýta með þeim í einhverju sem heitir fæðingarorlof.

Svo að því sé til haga haldið vil ég líka segja að mér finnst það skylda númer eitt, tvö og þrjú í þessu máli, sem og öllum öðrum, að sýna ábyrgð í fjármálum. Ég hef svo sannarlega séð til annarra stjórnvalda sem hafa ekki haft það að leiðarljósi. Þótt það væri mun skemmtilegra að útvíkka og hækka greiðslur eða gera einhverja slíka hluti finnst mér það vera okkar stóra verkefni í þessu máli, sem og öllum öðrum, að sýna ábyrgð og ráðdeild. Í þessu tilfelli finnst mér skipta gríðarlega miklu máli að við sjáum þessa löggjöf eins og hún hefur verið í framkvæmd vera til staðar áfram. Þess vegna verða menn að grípa til aðgerða sem geta verið óþægilegar og þar er ég að vísa t.d. til hámarksins.

Eins og ég sagði líka er af mjög mörgu að taka. Margar hugmyndir komu upp í nefndinni sem menn vildu skoða, bæði af hálfu minni hluta og meiri hluta. Mér þótti starfið vera mjög gott í nefndinni enda lýsti ég áður að mér þykja þeir aðilar sem sitja þar, að sjálfsögðu af hálfu meiri hlutans og líka sannarlega af hálfu stjórnarandstöðunnar, málefnalegir og koma með góð innlegg í þessa umræðu sem og aðra. Þeir eru það þrátt fyrir að þeir séu miklir málafylgjumenn og tali sannarlega fyrir viðhorfum sínum eins og menn þekkja.

Það er þó eitt mál sem ég verð að ræða hér sem mér finnst hreinlega vera þess eðlis að mér finnst að menn ættu aðeins að hugsa það. Mér þykir slæmt að hv. þm. Ögmundur Jónasson sé ekki hér en minni hlutinn tók upp frv. úr hugmyndum hans sem vísar í það að Fæðingarorlofssjóður eigi að greiða orlof á orlof. Ég vil biðja þingheim, virðulegur forseti, aðeins að hugsa þetta.

Almenna reglan um orlof er einfaldlega sú að menn fá ákveðna daga fyrir hvern þann mánuð sem þeir vinna þótt það sé misjafnt eftir starfsaldri hversu langur tíminn er. Til einföldunar, virðulegi forseti, fá menn eftir ákveðinn starfsaldur t.d. tveggja daga orlof fyrir hvern mánuð sem þeir vinna. Ég held að flestum finnist það sanngjarnt og eðlilegt og ég held að það sé skynsamlegt að fólk fái góð frí þannig að það geti hlaðið batteríin sín og komið tvíeflt til starfa á ný og það sé út frá öllum forsendum mjög skynsamlegt. Við erum að ræða hér fæðingarorlof, feðraorlof, og við erum að veita fólki tækifæri til að vera með fjölskyldum sínum á afskaplega skemmtilegum tíma hjá hverri fjölskyldu, þ.e. þegar nýtt barn fæðist. Þá erum við að skapa þær aðstæður að fólk geti verið saman, að fjölskyldan geti verið saman sem allra mest. Ég er tilbúinn að berjast fyrir því og hef stutt það. Það að menn fái orlofsdaga út á það að vera með fjölskyldu sinni finnst mér hins vegar vera fyrir neðan allar hellur. Nú geta menn samið um það í frjálsum samningum en aldrei skal ég taka undir þá svokölluðu kröfu að fjölskyldufólk fái frídaga fyrir að vera með fjölskyldunni. Ég spyr: Út á hvað gengur þessi hugmynd? Eiga menn þá að nýta þá frídaga sem þeir fá fyrir að vera með fjölskyldu sinni til að vera í fríi frá fjölskyldunni?

Þessi sjóður er fjármagnaður af fólkinu í landinu. Hann er fjármagnaður af atvinnulífinu og í rauninni af launþegum með einum eða öðrum hætti. Mörg sjónarmið eru uppi sem þarf að líta til. Þegar menn eru hins vegar farnir að ganga það langt að fara fram á að fólk fái frí út á það að vera með fjölskyldu sinni erum við búin að ná einhverri slíkri fullkomnun í þessa löggjöf sem og aðra að það er ekkert eftir, ekkert réttlætismál til að berjast fyrir. Ég verð að viðurkenna að mér þykir þetta algjörlega ábyrgðarlaust hjá stjórnarandstöðunni, virðulegi forseti. Þeir vísa í það í minnihlutaáliti sínu að ef þetta hefði verið til staðar hefði Fæðingarorlofssjóður þurft að greiða 700 millj. meira. Við erum ekki að tala um neinar smáupphæðir, virðulegi forseti. Ég hvet menn í leiðinni til að líta til þess prinsipps hvort menn vilji í fullri alvöru, virðulegi forseti, koma því fyrirkomulagi á að fólk fái sérstaka frídaga út á það að njóta samvista með fjölskyldunni.

Að öðru leyti vísa ég í það sem ég hef áður sagt. Ástæðan fyrir því að við förum í þessar breytingar er fyrst og fremst sú að við erum að sýna ábyrgð og ráðdeild. Sá sem hér stendur áttar sig alveg á því að það eru mörg sjónarmið í þessu máli og af mörgu að taka. Þrátt fyrir að nefndin hafi farið ágætlega yfir þetta mál, farið vel yfir það að mínu áliti á tiltölulega skömmum tíma, fer því víðs fjarri í mínum huga að hér höfum við náð einhverri fullkomnun eða endanlegri lendingu. Svo er ekki. Margt það sem kom fram hjá stjórnarandstöðunni er eitthvað sem ber að skoða og má færa réttlætisrök fyrir en, virðulegi forseti, ég vil nota tækifærið og hvetja menn til að skoða þetta mál. Ég sé að hv. þm. Ögmundur Jónasson er kominn og það er vel því að ég hefði viljað skiptast á skoðunum við hann. (ÖJ: Og búinn að hlusta á hvert einasta orð.) Hann er búinn að hlusta á hvert einasta orð upplýsir hann hér. Ég fagna því þar sem ég vildi gjarnan taka þessa umræðu við hann um þetta mál. Ég verð að segja eins og er, eins og ég hef oft lýst yfir, að það er ekki með nokkru einasta móti hægt að finna nein réttlætisrök fyrir því að menn fái sérstaka frídaga fyrir það að vera með fjölskyldu sinni.