Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 10:46:42 (8955)

2004-05-26 10:46:42# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[10:46]

Frsm. minni hluta félmn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. framsögumaður meiri hlutans hefur áhyggjur af því að þak á fæðingarorlofsgreiðslum sem á að setja á með þessu frv. geti leitt til þess að feður fari síður í fæðingarorlof, eða foreldrar sem eru á háum launum. Er þetta sjónarmið út af fyrir sig sem ég ætla að koma inn á í framsögu minni á eftir. Ég heyri hins vegar að hv. þm. hefur engar áhyggjur af því að sú skerðing sem verður á fæðingarorlofinu vegna þess að foreldrar fá ekki orlofsgreiðslur að loknu fæðingarorlofi geti leitt til þess að feður fari síður í fæðingarorlof. Sú held ég að sé samt raunin sem við munum standa frammi fyrir.

Ég vænti þess að hv. þingmaður geri sér grein fyrir því að þeir sem vinna hjá hinu opinbera fá fullar greiðslur í orlofi eftir að hafa tekið fæðingarorlof en hjá hinum sem eru á almenna markaðnum skerðast orlofsgreiðslur ári eftir að það fólk fer í fæðingarorlof. Þetta eru engir viðbótarfrídagar, heldur skerðist orlofið. Það þýðir með öðrum orðum að fólk sem er á almenna vinnumarkaðnum hefur í reynd 2--3 vikna skemmra fæðingarorlof en þeir sem eru hjá hinu opinbera. Fólk tekur ekki orlof vegna þess að það fær engar greiðslur í því orlofi árið á eftir. Þetta er bara staðreyndin sem við stöndum frammi fyrir, fólk á almenna markaðnum hefur styttra fæðingarorlof vegna þess mismunar sem er á orlofsgreiðslum hjá hinum opinberu starfsmönnum og þeim sem eru á almennum vinnumarkaði. Þetta getur leitt til þess að væntanlega munu feður í mörgum tilvikum síður taka fullt fæðingarorlof sem þeir eiga rétt á. Ég vænti þess að hv. þingmaður hafi hugleitt þetta mál út frá þessu sjónarmiði.